fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Innflytjendur fá óblíðar móttökur

Eyjan
Sunnudaginn 14. maí 2023 14:21

Udo Jürgens flytur Merci chérie, sigurlag Evrópusöngvakeppninnar 1966.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í útvarpsþætti einum var reglulega efnt til þess sem kallað var „vondulagakeppni“ þar sem sérlega slakar tónsmíðar og afleitur flutningur sömu hljómlistar — ef listar skyldi kalla — var tekinn til „kostanna“. Evrópusöngvakeppnin sem fram fór í gærkveldi er eins konar „vondulagakeppni“. Þar er fjarska fátt áheyrilegt og í þessarri einni stærstu tónlistarkeppni heims eru ekki sinni hljóðfæraleikarar á sviðinu! En kannski er þetta bara í stíl við svo margt í samtímanum: yfirdrifnar umbúðir um rýrt innihald.

Sláandi tölur

Allnokkur ágæt dægurlög hafa komið fram í sönglagakeppninni. Meðal þeirra betri er „Merci, chérie“, sigurlag keppninnar í Lúxemborg 1966. Flytjandi og höfundur lags og texta var Austurríkismaðurinn Udo Jürgens, einn vinsælasti hljómlistarmaður á þýsku málsvæði eftirstríðsáranna. Hans þekktasta lag er samt „Griechischer Wein“. Texti þess greinir frá sálarangist einmana farandverkamanns frá suðlægu landi. Þar segir meðal annars: „Liegt es daran dass ich immer träume von daheim.“ Hann saknar heimahaganna því hér í þessum bæ verður hann ætíð aðkomumaður og einn (þ. „in dieser Stadt werd’ ich immer nur ein Fremder sein, und allein“).
Mér var hugsað til þessa gamla dægurlagatexta þegar ég fletti vikublaðinu Heimildinni á dögunum (10 tbl.). Þar var greint frá umfangsmikilli spurningakönnun sem Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja létu gera meðal félagsmanna, en alls svöruðu 14 þúsund manns könnuninni. Spurningarnar lutu að fjárhagsstöðu, húsnæðismálum, líkamlegri og andlegri heilsu og hvort brotið hefði verið á félagslegum réttindum launamanna. Niðurstöðurnar voru sundurgreindar eftir uppruna fólks. Þannig kveðjast 45% innflytjenda sig búa við slæma andlega heilsu samanborið við 30% innfæddra. Þá greindu 56% innflytjenda frá því að brotið hefði verið á réttindum þeirra undanfarna tólf mánuði. Hjá innfæddum er þetta hlutfall 29%. Það segir sína sögu um skeytingarleysi gagnvart innflytjendum að þessar tölur hafa lítt verið til umfjöllunar.

Að vera á jaðri samfélags

Fróðlegt getur verið að velta fyrir sér inntaki orða og orðsifjum. Erlendur maður er kallaður útlendingur en hann getur öðlast þegnrétt og orðið innlendur. Æði oft er það svo að orð eiga sér ekki nákvæma samsvörun frá einu tungumáli til annars. Þetta hefur vitaskuld áhrif á hugsun. Útlendingur á frönsku er étranger, sem er ekki bara nafnorð heldur líka lýsingarorð. Ef flett er upp í frönsku orðabókinni Trésor de la langue française má finna enn annan skilning á orðinu; étranger merkir þá jafnvel þann sem skortir tengsl við eitthvað eða veit ekki hvar hann stendur gagnvart sjálfum sér, umhverfi sínu — já eða lífinu. Étranger hefur þá allt að því merkinguna ráðvilltur eða á jaðrinum.
Ég hef áður í þessum pistlum gert að umtalsefni samanburðargögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni sem sýna að yfir helmingur erlendra ríkisborgara sem hér býr lifir undir skilgreindum fátæktarmörkum en er samt að störfum. Þetta er mun verri staða en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Samt finnst mér sem þetta hafi fengið sáralitla athygli.

Andvaraleysi

Við lifum á þjóðflutningatímum og mörg ríki hafa séð tækifæri í að laða til sín hæfileikafólk erlendis frá í því skyni að efla samfélagið og bæta lífskjör. Svo vel takist til í þessum efnum þarf skýra stefnumörkun — það hafa menn lært af biturri reynslu. Í Kanada hefur um allnokkra hríð verið stefnt að fjölgun innflytjenda sem leið til að auka velsæld. Þar hafa til dæmis verið sett skilyrði um hámarksfjölda fólks af erlendum uppruna á vinnustöðum til að sporna við því að heilu atvinnugreinarnar verði eingöngu mannaðar fólki frá öðrum löndum.
Það er ekki einasta að hér á landi skorti stefnumörkun í málaflokknum heldur er andvaraleysi ríkjandi — allt virðist snúast um stundarágóða í þeim atvinnugreinum sem helst reiða sig á erlent starfsfólk. Í könnuninni sem ég nefndi að framan kemur fram að 60% aðspurðra af erlendum uppruna eiga erfitt með að ná endum saman en þetta hlutfall er 37% meðal innfæddra félagsmanna ASÍ og BSRB. Þá býr 77% innfæddra í eigin húsnæði en aðeins 31% innflytjenda. Vitaskuld getur tekið fólk af erlendum uppruna tíma að koma sér fyrir en hvað verður um börn innflytjenda? Munu þau verða hlutgeng í íslensku samfélagi eða búa við fátækt í jaðarsamfélagi? Íslendingar hafa lengi stært sig af miklum félagslegum hreyfanleika en verður honum viðhaldið til framtíðar?

Íslenskan er lykilatriði

Lykilatriðið í þessu efni er íslenskan en í málefnum hennar ríkir sama andvaraleysið. Fólk sem hingað flyst nefnir gjarnan að það hafi lítil tækifæri til að læra tungumálið og þeir sem gerst til þekkja segja þörf á stórátaki í íslenskukennslu. Á sama tíma þarf að gera kröfu til þess að alls staðar sé veitt þjónusta á íslensku, hvort sem er í verslunum eða veitingahúsum og að allur texti sem beint er að fólki sé á íslensku, hvort heldur sem er í raunheimum eða vefheimum.

Í frönskumælandi hluta Kanada gilda ströng lög um verndun franskrar tungu. Fólk sem sest að í Québec á aðeins rétt á að eiga samskipti við hið opinbera á öðru tungumáli en frönsku í sex mánuði eftir að það flyst þangað. Í Québec eiga líka allir rétt á þjónustu á frönsku á veitingahúsum, í verslunum og á öðrum opinberum stöðum en sérstök stofnun sér um að framfylgja þessu (Office québécois de la langue française). Hún tekur á móti kvörtunum og fulltrúar hennar fara í vettfangsferðir. Taka þarf á málum af sömu festu hér.
Niðurstöður áðurnefndrar könnunar sýna að það stefnir í aðskilnað tveggja þjóða í landinu, innfæddra og aðfluttra. Fátt bendir til þess að nokkuð veigamikið verði gert til að sporna við þessu. Stjórnvöld leggja allt upp úr ytri ásýnd en innihaldið er rýrt (kannski monthús íslenskra fræða á Melunum sé dæmi þar um). Íslenskan skiptir höfuðmáli — að þeir sem hér setjist að læri þjóðtunguna svo þeir og afkomendur þeirra verði hlutgengir í samfélaginu en endi ekki afskiptir, settir hjá — étranger um alla framtíð og haldnir sálarangist — líkt og suðræni farandverkamaðurinn sem Udo Jürgens söng um forðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð