fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Vonlaus málstaður stjórnarmeirihlutans

Eyjan
Sunnudaginn 19. mars 2023 16:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mánudaginn 4. apríl í fyrra, nánar tiltekið klukkan 11.45 árdegis kom forsætisnefnd Alþingis saman til reglulegs fundar í þinghúsinu. Þangað voru mættir alþingismennirnir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Oddný G. Harðardóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Jódís Skúladóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Fundinn sátu að auki Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri þingsins, og fjórir aðrir starfsmenn þess.

Á umræddum fundi var lagt fram minnisblað skrifstofu Alþingis frá 12. janúar sama ár varðandi aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarson, um Lindarhvol ehf. og minnisblað Magna lögmanna ehf. um sama mál frá 31. ágúst árið áður. Birgir Ármannsson þingforseti gerði að tillögu sinni að veittur yrði aðgangur að greinargerðinni „án takmarkana“ eins og það var orðað í fundargerð og að Viðskiptablaðinu yrði afhent greinargerðin síðar í sama mánuði, nánar tiltekið klukkan tólf á hádegi 25. apríl 2022. Þessi tillaga var samþykkt á fundinum.

Athyglisvert má telja að tekin hafi verið ákvörðun um að veita Viðskiptablaðinu aðgang af greinargerðinni þar eða hún hafði ekki — og hefur ekki enn — verið afhent nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Þeir fengu þó að líta á hana fyrir kosningar en urðu að skilja eftir síma og skriffæri og gátu því ekkert punktað hjá sér um efnið. Í Fréttablaðinu 17. febrúar sl. var haft eftir umræddum nefndarmönnum að þeir álitu eftir lestur greinargerðarinnar að

„pottur hafi verið brotinn í starfsemi Lindarhvols og sölu ríkiseigna upp á milljarða og birting hennar kæmi sér mjög illa fyrir fjármálaráðherra, fyrrum stjórnarmenn Lindarhvols, Ríkisendurskoðun og Steinar Þór Guðgeirsson og þá sem sömdu við hann um störf hans fyrir Lindarhvol.“

En Steinar Þór var „allt í öllu“ hjá Lindarhvoli eins og Sigurður Þórðarson, fyrrv. ríkisendurskoðandi, orðaði það í vitnaleiðslum fyrir héraðsdómi nýverið.

Um hvað snýst málið?

Kannski er rétt að rifja upp að umrætt félag, Lindarhvoll ehf., hafði verið stofnað á vordögum 2016 en tilgangur þess var umsýsla og sala eigna sem íslenska ríkið fékk í sínar hendur í kjölfar samkomulags við kröfuhafa gömlu viðskiptabankanna. Greint var frá því snemma árs 2018 að verkefnum Lindarhvols væri lokið og félaginu yrði í kjölfarið slitið.

Sveinn Arason sem gegndi embætti ríkisendurskoðanda til ársins 2018 lýsti sig vanhæfan til að endurskoða reikninga Lindarhvols þar eð bróðir hans, Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, var stjórnarformaður Lindarhvols. Því fór svo að fyrrverandi ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, var fenginn árið 2016 til að annast endurskoðun reikninganna. Hann skilaði loks greinargerð til Alþingis um Lindarhvol árið 2018 og hefur sjálfur lýst þeirri afstöðu sinni að hún skuli gerð opinber en þetta er sú skýrsla sem forsætisnefnd Alþingis ákvað að birt skyldi almenningi.

Skylt að birta greinargerðina

Hverfum þá aftur í Alþingishúsið en daginn eftir áðurnefndan fund forsætisnefndar ritaði Birgir Ármannsson þingforseti bréf til fjármálaráðuneytis, nánar tiltekið stjórnar Lindarhvols ehf., þar sem hún er upplýst um að greinargerðin verði gerð opinber en áður hafði Alþingi farið þess á leit við stjórnina að hún lýsti afstöðu sinni til þess hvort greinargerð setts ríkisendurskoðanda frá júlí 2018 hefði að geyma upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga eða fyrirtækja sem sanngjarnt væri að leynt færu.

Í bréfi þingforseta sagði síðan orðrétt að það hafi verið niðurstaða forsætisnefndar að veita bæri aðgang að greinargerðinni „án takmarkana“ og hygðist nefndin afhenda Viðskiptablaðinu hana mánudaginn 25. apríl á hádegi eins og áður sagði.

Við athugun á því hvort greinargerðin hefði að geyma upplýsingar sem gætu komið í veg fyrir afhendingu hennar hafði nefndin notið aðstoðar Flóka Ásgeirssonar, lögmanns hjá Magna lögmönnum ehf. Í minnisblaði og álitsgerð hans var komist að þeirri niðurstöðu að skylt væri

„að veita aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda að öðru leyti en því sem þar kunni að koma fram upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga eða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari.“

Stjórn Lindarhvols hafði áður mótmælt opinberri birtingu greinargerðarinnar en ekki tekið afstöðu til þess hvort eitthvað í skýrslunni ætti lögum samkvæmt að fara leynt. Forsætisnefnd hafði fundið að þessu við stjórn Lindarhvols en stjórnin virt að vettugi beiðni forsætisnefndar um að farið yrði yfir greinargerðina — bara lagst alfarið gegn birtingu.

Einhverra hluta vegna varð niðurstaðan sú að greinargerðin var ekki gerð opinber — þvert á ákvörðun forsætisnefndar.

Vonlaus málstaður að verja

Síðan hefur mikið gengið á og ýmsum góðum drengjum úr stjórnarliðinu verið att á foraðið og þeir látnir verja þann vonlausa málstað að umræddri greinargerð skuli haldið leyndri. Rökin eru þau að „það sé bara ein skýrsla í hverju máli“ og að taka eigi eingöngu mið af skýrslu annars ríkisendurskoðanda um málið sem skilað var 2020. Aðrar röksemdir eru ámóta haldlausar, eins og að greinargerð Sigurðar Þórðarson sé „vinnuskjal“.

Staðreynd málsins er sú að ekkert í lögum hamlar birtingu umræddrar greinargerðar. Hvernig væri að forsætisnefnd þingsins héldi sig við sína fyrri ákvörðun um afhendingu hennar? Pukur af þessu tagi er ein aðalástæða þess mikla vantrausts sem íslensk stjórnmál og íslensk stjórnsýsla eiga við að etja. Ef stjórnarmeirihlutinn heldur virkilega að hann geti hunsað kröfur um birtingu greinargerðarinnar til lengdar þá skjátlast honum hrapallega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
21.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
20.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi