fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Sólveig Anna, Jón Gunnarsson, Ísland og umheimurinn

Eyjan
Sunnudaginn 5. febrúar 2023 16:30

Mynd/regjeringen.no

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar á miðöldum gerðu lærðir menn hér á landi sér grein fyrir stöðu Íslands í heiminum. Þeir glöggvuðu sig á því að landið væri hluti hins norræna heims, þar sem menn töluðu sameiginlega tungu og ættu með sér sameiginlega menningu. Snemma kom fram hér á landi norræn heimsmynd þar sem dregnir voru fram þeir þættir sem taldir voru mikilvægir fyrir norræna samkennd en íslenskir höfðingjar röktu þá gjarnan ættir sínar aftur til norrænna fornkonunga.

Þessi tenging er svo sterk að Ísland lendir á yfirráðasvæði Noregskonungs á þrettándu öld og er hluti norrænna konungdæma allt fram til 1. desember 1918 þegar stofnað er sérstakt íslenskt konungsríki. Til skamms tíma hefur ekki verið deilt um staðsetningu Íslands í heiminum. Þrátt fyrir landfræðilega stöðu úti á miðju Atlantshafi er Ísland meginlandsríki, og sér í lagi hluti Norðurlanda. Tungumálið er norrænt, menningin sömuleiðis, lagakerfið líka og þannig mætti lengi telja. Og það hefur á margan hátt verið gæfa lítils og í mörgu tilliti veikburða ríkis að geta fylgt hinum Norðurlöndunum í samfélagsþróun, þar eru frændur í miklu stærri og burðugri þjóðfélögum.

 

Norrænir sáttasemjarar

Æ oftar þykir mér að greina megi af fréttaflutningi að norrænan samanburð skorti. Nýleg deila um miðlunartillögu ríkissáttasemjara er dæmi þar um. Í allri þeirri umræðu hefur sáralítið verið horft til hinna Norðurlandanna en sáttasemjari ríkisins hefur mun minni valdheimildir hér en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Íslenski ríkissáttasemjarinn getur kallað eftir viðræðuáætlunum en hann hefur ekki vald til að fresta aðgerðum viðsemjenda — ólíkt starfsbræðrum hans í Skandinavíu. Ríkissáttasemjara í Danmörku (Forligsinstitutionen) er ekki einasta heimilt að fresta aðgerðum á vinnumarkaði heldur getur hann (eða stofnunin öllu heldur) líka tengt atkvæðagreiðslur í mismunandi deilum í eina sameiginlega atkvæðagreiðslu.

Þá hafa stjórnvöld í Noregi ríkar heimildir til að grípa inn í kjaradeilur og þvinga deilendur til að fara fyrir Rikslønnsnemda, sem er eins konar kjaranefnd ríkisins. Skilyrði þessa er að talið sé að verkföll ógni lífi og heilsu eða hafi mjög skaðleg áhrif önnur. Ákvörðun Rikslønnsnemda hefur sama gildi og kjarasamningur. Ríkissáttasemjaraembættið sænska (Medlingsinstitutet) hefur ekki eingöngu það hlutverk að miðla málum í deilum á vinnumarkaði, það á jafnframt að safna tölfræðiupplýsingum um launakjör og stuðla að auknum kaupmætti. Þetta síðastnefnda atriði birtist í því að sáttasemjari leggur ekki fram tillögu um meiri launahækkanir en sem nemur þeim hækkunum sem unnt er að semja um í framleiðslugreinum. Þá er reglan sú á hinum Norðurlöndunum að ríkissáttasemjari leggur ekki fram tillögu um meiri hækkanir en áður hefur verið samið um. Í Danmörku eru samningar tengdir saman í þeim tilgangi að tryggja þetta jafnvægi.

Ótalmargt fleira mætti nefna sem varpar ljósi á mun víðtækara hlutverk sáttasemjara á hinum Norðurlöndunum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem nú er fram komin vera „lögleysu og markleysu“. Hún bætir því við að sáttasemjari misnoti „valdheimildir sínar til að taka afstöðu með sjónarmiðum annars aðilans“. Fleiri hafa stigið fram og sakað sáttasemjara um lögbrot ellegar valdníðslu. Eftir lauslega athugun á ég erfitt með að sjá að slík gífuryrði standist skoðun. Í þessu efni væri líklega gott að horfa meira til hinna Norðurlandanna þar sem ríkt hefur mun meiri stöðugleiki á vinnumarkaði en hér. Þar hafa stjórnvöld lagt sig í líma við að tryggja sátt milli aðila. Íslensk stjórnvöld hafa farið þveröfuga leið, hækkað laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna upp úr öllu valdi en það misrétti átti ef til vill stærstan þátt í að róttæk öfl náðu undirtökunum í verkalýðshreyfingunni. Þar er um að ræða jaðarhópa sem sækja fyrirmyndir í amerískan sósíalisma en virðast hafa lítil tengsl við stéttabaráttu á hinum Norðurlöndunum.

 

Skilningsleysi á stöðu fólks af erlendum uppruna

Þorri Eflingarfélaga er af erlendum uppruna og talnaefni sem dregið hefur verið fram um stöðu þess hóps sýnir að margir þeirra búa við afar kröpp kjör. Sú hugmynd kom upp á liðnu ári að stéttarfélög gerðu þá kröfu í kjarasamningum að útlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á íslenskukennslu á vinnutíma. Margir tóku undir þetta sjónarmið enda fátt sem myndi koma fólki af erlendum uppruna að jafnmiklu gagni — og það þá orðið hlutgengt á sem flestum sviðum íslensks samfélags. Eins og frægt varð tók Sólveig Anna Jónsdóttir hugmyndinni fálega og sagði það

„náttúrulega bara afskaplega undarlegt að þau sem tilheyra einhverri menntaelítu skuli ætla að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög verka- og láglaunafólks sem að augljóslega hafa um stærri og veigameiri hluti að hugsa akkúrat núna heldur en það að vernda íslensku þjóðtunguna“.

Þessi orð lýsa skilningsleysi á stöðu fólks af erlendum uppruna og rétt að spyrja sig hvort Sólveig Anna Jónsdóttir sé verðugur talsmaður þess hóps.

Á hinum Norðurlöndunum hefur margt verið gert til að tryggja bætta aðlögun innflytjenda að samfélögunum í ljósi alvarlegra mistaka sem gerð voru í þeim efnum á árum áður. Hér á landi ríkir enn andvaraleysi í málaflokknum. Eins og sakir standa stefnir í að þúsundir barna af erlendum uppruna hér á landi muni ekki geta nýtt sér þau tækfæri sem jafnöldrum þeirra eru búin — einfaldlega vegna ónógrar tungumálaþekkingar. Við höfum lengi státað okkur af miklum félagslegum hreyfanleika líkt og hin Norðurlöndin en svo kann að fara að stór hluti þjóðarinnar verði í framtíðinni dæmdur til búa við fátækt og vera í jaðarsamfélagi. Í nýlegum samanburðargögnum Efnahags- og framfarastofnunarinnar kemur fram að yfir helmingur erlendra ríkisborgara hér á landi lifir undir skilgreindum fátæktarmörkum — en er samt á vinnumarkaði. Þetta er allt önnur og miklu verri staða en á hinum Norðurlöndunum. Fara þarf suður til Sviss eða vestur til Bandaríkjanna til að finna sambærileg hlutföll. Þá býr mjög stór hluti þessa fólks við afar þröngan húsnæðiskost.

 

Reynt að bæta gallaða löggjöf

Í enn öðrum málaflokki hafa Íslendingar skilið sig frá hinum Norðurlöndunum. Fyrir Alþingi liggur frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra til breytingu á lögum um útlendinga — enn eina ferðina. Þær lagfæringar á lögunum sem ráðherrann leggur til snúa að því að færa málefni er varða hælisleitendur nær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fyrir áratug sóttu rúmlega eitt hundrað manns um hæli hér á landi — í fyrra voru umsóknirnar 4.400. Það kerfi sem komið hefur verið upp utan um umsóknir um hæli er ætlað þeim sem flýja stríð og hörmungar — ekki þeim sem eru í leit að bættum lífskjörum. Bent hefur verið á að kerfið hér sé meingallað samanborið við hin Norðurlöndin og fyrir vikið hefur álag á hvers kyns opinbera þjónustu stóraukist — sums staðar svo að stefnir í óefni.

Raunar eiga fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjálfir sök á setningu gallaðrar löggjafar um þessi mál sem hefur vikið langt frá viðmiðum hinna Norðurlandanna — og kyndugt að það sé ráðherra þessa sama flokks sem fái það verkefni að bæta fyrir mistök sinna flokksmanna í þessu efni. Ég átti samtal við einn helsta sérfræðing Íslendinga í þessum málaflokki fyrir nokkrum dögum. Hann taldi raunar að frumvarp dómsmálaráðherra gengi of skammt til að hægt yrði að ná tökum á þeim vanda sem nú er uppi. — Vanda sem væri sprottinn af því að Íslendingar hefðu annars vegar kosið að læra ekki af mistökum hinna Norðurlandanna og hins vegar að hunsa þá stefnu sem þar hefði verið mörkuð í málaflokknum á undanförnum árum.

Af öllum sólarmerkjum að dæma er brýnt að Íslendingar glöggvi sig betur á staðsetningu sinni í veröldinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Lögfræðingar og lögfræðiálit

Óttar Guðmundsson skrifar: Lögfræðingar og lögfræðiálit
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera!

Steinunn Ólína skrifar: Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði
EyjanFastir pennar
07.09.2024

Eiríkur Bergmann: Stjórnmálaflokkarnir eiga ekkert fastafylgi lengur – fólk samsvarar sig ekki flokkunum eins og áður

Eiríkur Bergmann: Stjórnmálaflokkarnir eiga ekkert fastafylgi lengur – fólk samsvarar sig ekki flokkunum eins og áður
EyjanFastir pennar
01.09.2024

Björn Jón skrifar – Ríkisstjórn á endastöð

Björn Jón skrifar – Ríkisstjórn á endastöð
EyjanFastir pennar
01.09.2024

Svarthöfði skrifar: Ómissandi menn

Svarthöfði skrifar: Ómissandi menn
EyjanFastir pennar
29.08.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Loðna hlið samgöngusáttmálans

Þorsteinn Pálsson skrifar: Loðna hlið samgöngusáttmálans
EyjanFastir pennar
25.08.2024

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali