fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Skólana skortir íþróttaanda

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 10. desember 2023 12:00

Forngrískir kappar á íþróttavellinum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oft er vandasamt að þýða orð úr einni tungu yfir á aðra svo öll merking haldi sér og stundum ógjörningur að finna orð sem eiga sér nægilega hliðstæðu við hið erlenda orð. Gjarnan eru nefnd ýmis dæmi hér um, svo sem Bildung í þýsku og gentleman á ensku og það sem við köllum drengskapur virðist ekki eiga sér alveg skýra samsömun í öðrum málum. Vandinn magnast þegar við lítum á fornmálin enda margt í hugsun tekið stakkaskiptum umliðið hálft þriðja árþúsund. Forngrikkir lögðu áherslu á arete (ἀρετή) sem þýtt hefur verið sem dyggð, en arete hefur mun víðtækari merkingu og nær einnig yfir karlmennsku og ýmsa aðra góða eiginleika. 

Dr. Scott Brewer, lagaprófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, gerði orðið arete að umtalsefni í erindi sem hann flutti á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík á fimmtudaginn var. Hann gat þess þar að arete merkti excellence, sem samkvæmt ensk-íslenskri orðabók þýðir „ágæti, yfirburðir“. Annað orð sem dr. Brewer færði í tal var agon (gἀγών) sem merkir keppni eða barátta, hvort sem það er á íþróttavellinum, eða á sviði tónlistar og bókmennta, en vel að merkja voru skáldskapur og listir keppnisgreinar á Ólympíuleikum til forna. Rómverska skáldið Juvenalis fangar þessa fornu hugsun í hinum víðfrægu hendingum: mens sana in corpore sano, heilbrigð sál í hraustum líkama. 

Við sjáum líka að í hugsun forfeðra okkar birtist um sumt áþekkur skilningur enda hefur orðið íþrótt mun dýpri merkingu en hin almenna notkun þess gefur til kynna. Það merkir leikni, fimi, snilld, list líkt og þegar sagt er að einhver geri eitthvað af mikilli íþrótt. Kjartan Ólafsson hafði allar íþróttir „mjög umfram aðra menn,“ segir í Laxdælu og Jón Helgason á ekki við líkamlegt atgervi þegar hann yrkir um Kolbein jöklaskáld sem sat hæst á klettanös: „iðkuð var þar á efstu brún / íþróttin vorra feðra“. 

Setja þarf markið hærra 

Í vikunni sem leið voru birtar rannsóknarniðurstöður sem eru enn einn vitnisburðurinn um alvarlega menningarlega hnignun þjóðarinnar og óþarfi að fjölyrða um þær svo mjög sem þær hafa verið raktar í flestum miðlum. Raunar hefur hvarvetna á Vesturlöndum orðið afturför í kunnáttu nemenda en hvergi sem hér.  

Umfjöllunin einkennist þó af furðulegri léttúð samanborið við fregnir af málinu í öðrum löndum. Í frétt franska stórblaðsins Le Figaro í liðinni viku var rætt um að setja þyrfti markið hærra í skólunum („élever le niveau de l’école“) og færa valdið á ný til kennara („redonner de l’autorité aux enseignants“). Meðal aðgerða til úrbóta sem til umræðu eru í Frakklandi er að nemendum verði gert að setjast aftur í sama bekk standist þeir ekki próf og nemendum gagnfræðaskóla verði skipt eftir getu í stærðfræði og frönsku. Þá verði inngangskröfur í menntaskóla hertar og á nýjan leik tekin upp próf, sambærileg við það sem hér á landi var kallað landspróf. Þannig mætti áfram telja. 

Víðar er umræðan á þessum nótum; að menn hafi villst af leið og hverfa verði aftur til þeirra kennsluhátta og fyrirkomulags sem bar árangur en var ýtt til hliðar um sumt á grundvelli kreddubundinna hugmynda um að enginn mætti skara fram úr; því það væri eitthvað sem delluvísindamenn hafa kallað „Elitenbildung“ á þýsku svo ég vísi nú hins margræða orðs hér að framan. 

Hinn eldforni lærdómsandi 

Áðurnefndur dr. Brewer gerði að umtalsefni undir lok erindis síns hin margtilvitnuðu orð Búdda á dánarbeðinum (lausleg þýðing hér): „Hlustið þér á munkar því þetta eru mín síðustu ráð til yðar. Allir þættir heimsins eru breytanlegir. Þeir endast ekki lengi. Vinnið hart að því að öðlast yðar eigin lausn.“ Líklega þurfum við ekki að fara svo langt í austur í leit að speki og getum litið okkur nær. Páll postuli notaðist vitaskuld við líkingu úr íþróttunum er hann kristnaði Grikki, svo sem lesa má um í Fyrra Korintubréfi: „Vitið þér ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þér fáið sigurlaun.“ Í íþróttunum legðu menn sig fram af alefli, einbeittir að settu marki. 

Sjálfur æfði ég frjálsar íþróttir, þær eru allmargar eins og menn þekkja, og hæfa mönnum misvel með tilliti til ólíkra meðfæddra líkamlegra eiginleika, en þeir hinir fjölhæfustu verða tugþrautarmenn. Hér er öll áhersla á að rækta styrkleika hvers og eins og keppt af alefli að settu marki. Hinir efnilegustu setja sér það mark að verða meðal þeirra bestu í heimi og vinna jafnvel til verðlauna á alþjóðlegum stórmótum. 

Það er einmitt þessi andi sem á að ríkja í skólum. Á okkar tímum er um of einblínt á veikleika nemenda og skólar í huga sumra ráðamanna umfram allt félagsmálastofnanir og nemendur greindir með alls kyns misskýra kvilla og jafnvel svo að hinn meinti kvilli fer að móta sjálfsmynd nemandans í stað þess að hann rækti hæfileika sína. Sumir ganga svo langt að kalla þetta aumingjavæðingu. Að sama skapi hefur kennarinn verið felldur af stalli. 

Ég hygg að viðmælandi Le Figaro sem ég vísaði til hér að framan eigi kollgátuna þegar hann getur þess að færa þurfi kennaranum á ný það agavald sem hann áður hafði. Kennari á að hafa sömu stöðu og þjálfari íþróttaliðs; góður kennari þarf að vera verkstjóri par excellence sem setur nemendum háleit markmið um að komast í fremstu röð. Skólarnir þurfa að tileinka sér hugsjónir íþróttahreyfingarinnar þar sem hinn eldforni lærdómsandi lifir enn sem betur fer. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
EyjanFastir pennar
11.04.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir
EyjanFastir pennar
10.04.2024

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
31.03.2024

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda