fbpx
Mánudagur 04.mars 2024
EyjanFastir pennar

Heimir skrifar: Af náttúruhamförum og lúxuspolli – Svar við bréfi Ebbu

Eyjan
Fimmtudaginn 23. nóvember 2023 17:30

Heimir Hannesson (til hægri)

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samhliða hamförum þeim er nú ganga yfir Suðurnes hefur einhverra hluta vegna skapast umræða um hver eigi að borga fyrir varnargarða sem nú er unnið að af miklum mætti við Svartsengi og Bláa lónið. Finnst sumum að rétt sé að verja innviði, en af því að Bláa lónið græðir svo mikinn pening, og af því að það er einkafyrirtæki, og af því að það er eiginlega bara fyrir útlendinga, þá eiga þeir bara að borga fyrir sinn eigin varnargarð.

Nú síðast skrifaði, til dæmis, læknirinn og fyrrum Suðurnesjabúinn Ebba Margrét Magnúsdóttir, mikla grein þar sem fyrrnefnd sjónarmið koma skýrt fram. Í greininni tiltekur Ebba mikilvægi virkjunarinnar við Svartsengi og bendir svo réttilega á mikilvægi hitaveitu og þá sérstaklega á aðventunni. Ég veit ekki hvar Ebba var í janúar síðasta vetur, en hér í Háaleitinu var hitaveitan alveg sæmilega mikilvæg þá líka, en það er kannski ekki aðalatriðið. 

Rýnum í skrif Ebbu:

Bláa lónið er í raun affall af Svartsengi og þar er rekið dásamlegt baðlón sem kostar skildinginn að komast í og ekki geta allir leyft sér þann lúxus. […] Það kostar mikið að njóta þessara lauga, margfalt verð á við það að skreppa í sund. Ekki á allra færi að veita sér það. Bláa lónið rekur einnig lúxus hótel þar sem nóttin kostar meira en mánaðarlaun verkafólks. Erlendir auðmenn eru þar helstu gestirnir og stöku Íslendingar. Bláa lónið lokaði ekki fyrr en gestirnir sýndu það með fótunum og yfirgáfu svæðið vegna jarðskjálfta í síðustu viku.

„Lúxus.“ „Auðmenn.“ Næstum því fullt hús stiga. Sjáum hverju Ebba bætir við:

Rekstrartekjur Bláa lónsins eru daglega um 47 milljónir króna og daglegur hagnaður tæpar 6 milljónir.

Alveg að koma hjá henni!

Þessir varnargarðar eru tilraun sem kostar mikið fé og nú er unnið dag og nótt að vinnu við þá. Hver a að borga þann brúsa? Ekki íslenskur almenningur heldur þau fyrirtæki sem verið er að vernda frá hraunstraumi. 

Bingó! Alvöru negla. 

Ekki veit ég hvað Bláa lónið eða útlendingar hafa gert þessari konu og þeim sem henni sammælast, en ég tel vert að staldra aðeins við og velta fyrir okkur úr hvaða hugarheimi svona hugmyndir koma.

Byrjum á að nefna að í Bláa lóninu starfa tæplega 800 manns. Lúxuspollurinn sem Íslendingar fara aldrei í er þannig veruleg tekjulind fyrir íslenska vini Ebbu og sveitarfélögin í nágrenni Bláa lónsins sem fá í sinn vasa útsvarsgreiðslur og fasteignagjöld sem nema milljörðum árlega. Ég er ekki viss um að kennarar, íþróttaþjálfarar, gatnaviðgerðarmenn í Grindavík og einstaklingurinn sem sér um viðhaldið á heitavatnslögninni heim til Ebbu á aðventunni væru sérstaklega kát með að missa af þeim milljörðum, en ég gæti svo sem haft rangt fyrir mér.

Allar þessar milljónir sem Ebba nefnir eru svo skattlagðar af ríkinu. Þaðan koma launin hennar Ebbu, sem er læknir.

Þá er Bláa lónið eitt þekktasta vörumerki landsins og laðar til sín mikinn fjölda á hverju ári. Umferðin skapar ekki bara áðurnefnda beina atvinnu og tekjur, heldur verða til ómæld óbein tækifæri í tengslum við rekstur lúxuspollsins og samnefnds hótels. Veitingastaðir, fólksflutningar, söfn og annars konar áfangastaðir á Suðurnesjum líða nú verulega fyrir lokun Bláa lónsins vegna jarðhræringanna, og myndi varanleg lokun þess gjörbreyta öllum strúktur ferðaþjónustu á Suðurnesjum. Með öðrum orðum. Ef Bláa lónið tapar, tapa allir. Líka Ebba. 

Hagnaðurinn er svo einmitt annað atriðið. Síðan hvenær fór efnahagsleg staða fyrirtækja að skipta máli þegar kemur að samfélagslegum öryggisverkefnum? Við sem þjóð eigum okkur ekki óvinveitta nágranna. En setjum að gamni málflutning Ebbu í samhengi við innrás rússa í Úkraínu. Í hvaða heimi yrði það góðkennt af nokkrum manni ef varnarstöður yrðu teknar upp í Kænugarði eftir eiginfjárstöðu og ársreikningum fyrirtækja? Náttúran er okkar óvinur. Eitt grundvallar hlutverk hins opinbera er að verja einstaklinga og eigur þeirra gegn hvers kyns hættum og skapa þannig stöðugan og öruggan grunn fyrir einstaklinga og fyrirtæki að byggja á. Það er í raun eitt fárra hlutverka ríkisins sem fullkomin og þverpólitísk sátt ríkir um, og með algjörum ólíkindum að um þetta atriði sé rifist á 21. öld.

Tökum annað dæmi: Færum í huga okkar Bláa lónið út úr jöfnunni og setjum í staðinn ímyndað iðnaðarhverfi samsett af mörgum litlum fyrirtækjum. Við gætum til dæmis ímyndað okkur að í stað Bláa lónsins væri Vallahverfi Hafnarfjarðar staðsett við rætur Þorbjarnar. Allar aðrar breytur látum við kyrrar liggja. 800 starfsmenn. 47 milljóna daglegar rekstrartekjur. 6 milljóna daglegur hagnaður. Sömu útsvarsgreiðslur. Sömu skatttekjur. Sama veltan. Nema ekki eitt fyrirtæki að þjónusta útlendinga, heldur nokkur hundruð smærri fyrirtæki að þjónusta Íslendinga. Járnsmiðir, heildsölur, framleiðslufyrirtæki, verkstæði iðnaðarmanna, bílaþvottastöðvar, lagerar, einyrkjar og svo ein vel falin Sorpustöð til yndisauka. Væri Ebba jafn staðráðin í að láta Vallahverfið „borga brúsann?“ 

Auðvitað ekki, og sannast þar með að hugmyndir um að „láta Bláa lónið borga brúsann,“ eru ekkert annað en einhverskonar hf-aðskilnaðarstefna sem stenst enga skoðun, og er allt annað en sanngjörn. Ef reglan á að verða sú að hlutdeild fyrirtækja og einstaklinga í sameiginlegum útgjöldum samfélagsins skuli stjórnast af eiginfjárstöðu og þjóðerni viðskiptavina þeirra, er ljóst að um verulega U-beygju er að ræða frá því sem hingað til hefur þekkst og þótt sanngjarnt þegar kemur að skiptingu hlutdeildar í sameiginlegum útgjöldum samfélagsins okkar.

Til viðbótar er svo kannski rétt að minna á nokkur praktísk atriði: 

  • Stærstu eigendur Bláa lónsins, fyrir utan stofnanda fyrirtækisins, eru lífeyrissjóðir sem eru svo aftur í eigu minnar, Ebbu og okkar allra. Persónulega hefði ég haldið að við gætum öll sammælst um að ákjósanlegast væri að láta fjárfestingar lífeyrissjóðanna okkar ekki brenna upp til agna í hafsjó elds og brennisteins, en sú skoðun er bersýnilega ekki allra. 
  • Fasteignir Bláa lónsins eru, eins og aðrar fasteignir, tryggðar fyrir náttúruhamförum hjá Náttúruhamfaratryggingum Íslands. Með öðrum orðum: Ef Bláa lónið fer, borgar ríkið. Brunabótamat fasteigna Bláa lónsins er öllum aðgengilegt inn á vef Fasteignaskrár, og nemur milljörðum. 

Ebbu til varnar, verð ég þó að segja að lokum að Bláa lónið hefur í áraraðir spilað ævintýrilega illa úr sínum markaðsmálum „inn á við,“ þ.e. gagnvart okkur Íslendingum. Hvernig þau gátu leyft þessu öfluga og flotta vörumerki að súrna svona svakalega í munni margra Íslendinga á undanförnum árum er alveg sérstakur flokkur klúðurs. Vafalaust er hugsunin sú að, eins og Ebba bendir á, Íslendingar séu ekki tíðir gestir í lúxuspollinum og því til lítils að eyða púðri í þann markað, en þú kemst ekki langt án stuðnings úr nærumhverfinu. Með öðrum orðum: Hver þarf óvini þegar þú átt nágranna eins og Ebbu. 

Höfundur fór einu sinni í Bláa lónið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Broskarl úr bankanum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Broskarl úr bankanum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Maðurinn sem varð að snúa aftur

Sigmundur Ernir skrifar: Maðurinn sem varð að snúa aftur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Afleiðing veltuhraða á ráðherrastóli

Þorsteinn Pálsson skrifar: Afleiðing veltuhraða á ráðherrastóli
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Uppreisn og samtal

Þorsteinn Pálsson skrifar: Uppreisn og samtal
EyjanFastir pennar
04.02.2024

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli
EyjanFastir pennar
30.01.2024

Svarthöfði skrifar: Er glæsihýsi þingmanna mislukkað?

Svarthöfði skrifar: Er glæsihýsi þingmanna mislukkað?
EyjanFastir pennar
28.01.2024

Björn Jón skrifar: Forseti á að vera lífsreyndur 

Björn Jón skrifar: Forseti á að vera lífsreyndur