fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Vík milli vina – þarf fleiri rútur?

Svarthöfði
Mánudaginn 30. október 2023 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vart eru liðnar tvær vikur frá því formenn ríkisstjórnarflokkanna stóðu í ströngu í Eddu, húsi íslenskunnar, við að sannfæra sig og aðra um að stjórnarsamstarfið hefði hreinlega aldrei gengið betur og fyrrverandi fjármálaráðherra væri nú hreinn og hvítþveginn, líkast því sem tekið hefði hann skírn af hendi sjálfs Jóhannesar skírara, eftir að hann axlaði ábyrgð á stjórnsýsluafglöpum sínum með því að færa sig úr stóli fjármálaráðherra yfir í utanríkisráðherrastólinn.

Svarthöfði hjó sérstaklega eftir því, er hann horfði hugfanginn á beina útsendingu frá blaðamannafundinum í Eddu, hve afdráttarlausum stuðningi forsætisráðherra lýðveldisins lýsti við nýjan utanríkisráðherra og lofaði fölskvalaust trúmennsku hans, dómgreind og heiðarleika. Já, milli leiðtoga  ríkisstjórnarinnar ríkti sannur trúnaður og ríkisstjórnin héldi samhent inn í þingveturinn og seinni hluta kjörtímabilsins, enda mikið verk óunnið þar sem stjórnin hefur ekki haft nema sex ár til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Nú væri komið að því, sagði forsætisráðherra, að hendur yrðu látnar standa fram úr ermum.

Já, Svarthöfði heyrði ekki betur á forsætisráðherranum en samstaðan í ríkisstjórninni væri órofa, enda hafði allt stjórnarliðið, þingmenn, ráðherrar og aðstoðarmenn, skundað saman á Þingvöll deginum áður, í Hakið, í langferðabifreið með bjórrútur í hverju fangi til að hrista saman hópinn og efla samheldnina. Samstæðara tríó hefur vart sést , ja, ekki síðan Ríó tríóið var tríó og þrjú stóðu á palli, en einmitt þremenningarnir í húsi íslenskunnar fyrir rúmum hálfum mánuði.

En vika er langur tími í pólitík, sagði Harold Wilson forðum. Og hvað þá hálfur mánuður. Fyrir helgi ákvað nýi utanríkisráðherrann að Ísland skyldi skera sig úr hópi flestra vestrænna lýðræðisríkja og sitja hjá við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um ályktun sem kallaði eftir tafarlausu vopnahléi á Gaza-svæðinu. Flestar vina- og nágrannaþjóðir okkar voru í hópi 120 ríkja sem samþykktu ályktunina. Einhverjir tugir greiddu atkvæði gegn henni og við Íslendingar, ásamt 14 öðrum ríkjum, sátum hjá.

Og ástæðan fyrir því að við samþykktum ekki ályktunina var gefin upp sú að í henni væri ekki með einu orði fordæmd villimannsleg hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael sem hratt af stað þeirri hörmulegu atburðarás sem nú vindur fram fyrir augum heimsbyggðarinnar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Gott og vel. Um helgina lýsti forsætisráðherra því yfir að ekkert samráð hefði verið haft við hana um þessa hjásetu. Svarthöfði skynjar að málið er henni þungbært enda hefur stefna VG ávallt verið sú að styðja Palestínu og gagnrýna Ísrael, sem nú hefur brugðist við hryðjuverkaárás með yfirdrifnum aðgerðum svo sem hefð er fyrir. Grasrótin ku vera brjáluð. Enginn virðist hafa getað náð í utanríkisráðherra vegna málsins um helgina, ekki einu sinni trúnaðarvinurinn, forsætisráðherrann.

Var síminn kannski lokaður hjá Bjarna? Ætli nýi fjármálaráðherrann hafi gleymt að láta borga símareikninginn? Hvað um það, nú hefur Bjarni stigið fram og aftekið með öllu að ekki hafi verið haft samráð við forsætisráðherra – þvert á móti hafi ráðuneyti hennar verið upplýst sérstaklega fyrir fram um fyrirhugaða hjásetu.

Svarthöfði skynjar hér vík milli vina og verður að viðurkenna að hann hefur áhyggjur af þessu. Kannski væri þjóðráð nú að skella aftur í Þingvallaferð. Hrista hópinn rækilega saman. Panta rútu og kaupa rútur til að hafa með í Hakið. Fá kannski Geirmund með skagfirska sveiflu. Fáir standast það. Svo þarf Þórdís Kolbrún bara að passa að halda símanum hans Bjarna opnum. Þá getur dansinn mögulega dunað áfram, alla vega fram að næstu kjördæmaviku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið