fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Snjöll pólitísk flétta Bjarna setur allt í uppnám – Hvað gæti gerst næst?

Eyjan
Þriðjudaginn 10. október 2023 13:09

Bjarni kom þjóðinni í opna skjöldu í morgun

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að flestum hafi komið mjög á óvart að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skyldi segja af sér embætti vegna þess álits Umboðsmanns Alþingis að hann hafi brostið hæfi til að koma að seinna Íslandsbankaútboðinu í mars í fyrra vegna þátttöku félags í eigu föður Bjarna í því útboði. Ljóst er að útspil Bjarna hefur sett allt á hliðina í íslenskum stjórnmálum og næstu dagar verða afar fróðlegir, svo ekki sé meira sagt.

Mikið er nú spáð og spekúlerað um hvert framhaldið verður eftir ákvörðun Bjarna sem enginn velkist í vafa um að sé úthugsuð flétta af hans hálfu. Flétta sem við fyrstu sýn virðist vera afar snjöll.

Eins og þungu fargi væri af Bjarna létt

Hávær orðrómur hefur verið um að Bjarni hafi um langt skeið viljað hverfa úr fjármálaráðuneytinu enda er dvöl hans þar orðin þrautaganga hin mesta; botnlaus halli á ríkissjóði, óðaverðbólga og hvert vandræðamálið á fætur öðru. Er athyglisvert að skoða líkamstjáningu og fas Bjarna á blaðamannafundinum í því ljósi. Hann sagðist vera ósammála áliti umboðsmanns en virkaði ekki á nokkurn hátt reiður eða pirraður vegna þess. Þvert á móti virtist hann vera hinn kátasti og í raun veru eins og þungu fargi væri af honum létt.

Fyrsta kenningin sem fór á kreik var sú að Bjarni muni hafa stólaskipti við Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur og taka við utanríkisráðuneytinu. Það er ekki útilokað en myndi þó eyðileggja aðra kenningu sem er á þá leið að Bjarni hafi augastað á sendiherrastöðunni í Washington. Hann ætti nefnilega bágt með að skipa sjálfan sig í það embætti. Sendiherrastaðan hefur um nokkurt skeið verið nefnd sem draumaútgönguleið Bjarna úr stjórnmálum og það gæti vel orðið raunin.

Svandísi eflaust brugðið

Það sem gleður Bjarna eflaust mest er að sú sem varð líklega mest brugðið við afsögn hans var Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra. Umboðsmaður Alþingis er með til skoðunar hvort hún hafi brotið stjórnsýslulög og -reglur er hún bannaði hvalveiðar með nokkurra klukkustunda fyrirvara í júní. Hún er nú í vonlausri stöðu verði álitið á þann veg að hún hafi farið á tráss við lög og á engan annan kost en að segja af sér embætti.  Það myndi líka gleðja sterka bakhjarla Sjálfstæðisflokksins úr röðum útgerðarmanna, sem hugsa henni þegjandi þörfina og óttast fyrirhugaðar breytingar sem hún hefur boðað á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Svo er haft á orði að úr þessu geti ríkisstjórnarsamstarfið hæglega liðast í sundur og það jafnvel mjög hratt. Límið í samstarfinu hefur verið mikið og gott trúnaðarsamband milli Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar og ef hans nýtur ekki lengur við í lykilembætti innan stjórnarinnar eða verður jafnvel utan stjórnar sé það lím orðið haldlítið. Ef allt springur í loft upp á næstu dögum gæti fljótlega verið boðað til kosninga og þá er morgunljóst að ákvörðun Bjarna mun styrkja stöðu Sjálfstæðisflokksins og hans sjálfs ef hann hefur hug á að halda áfram í stjórnmálum.

Stólaskipti við Sigurð Inga?

Ef ríkisstjórnin lifir af næstu daga þá þarf að fá nýjan fjármálaráðherra. Mögulega getur það gerst með einhverjum hrókeringum innan Sjálfstæðisflokksins og þar er Þórdís Kolbrún líkleg eins og áður segir, en einnig heyrist orðrómur um að farið verði í stólaskipti milli flokka þannig að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, taki við fjármálaráðuneytinu og Sjálfstæðismaður setjist í innviðaráðuneytið. Verkefni ráðuneytisins eru stór og þar er hægt að vinna mikla pólitíska sigra á næstunni. Hugsanlega er það spennandi vettvangur fyrir Bjarna sjálfan eða Þórdísi Kolbrúnu. Taki sú síðarnefnda slaginn ætti Diljá Mist Einarsdóttir að koma til greina sem utanríkisráðherra. Hún hefur reynslu sem aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í utanríkisráðuneytinu og er nú nýtekin við sem formaður utanríkismálanefndar. Það vinnur þó gegn henni að hún tilheyrir Guðlaugs-armi flokksins og Bjarni má ekki til þess hugsa að Guðlaugur styrki stöðu sína enn frekar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben