fbpx
Föstudagur 01.mars 2024
EyjanFastir pennar

„Hvað eiga Matilde, Alina og Eva sameiginlegt?“ – Rangfærslur Hildar í Morgunblaðinu vekja athygli

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 9. janúar 2023 20:00

Hildur Þórðardóttir. Mynd/Fréttablaðið/Óttar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristján Kristjánsson skrifar: 

Hildur Þórðardóttir rithöfundur ritar grein í Morgunblaðið í dag sem ber fyrirsögnina „Hvað eiga Matilde, Alina og Eva sameiginlegt?“. Í greininni fjallar hún um þrjár fréttakonur sem hún segir vera táknmynd óháðrar og faglegrar fréttamennsku. Það hefur vakið athygli margra, þar á meðal mín, að í grein Hildar eru margar rangfærslur og virðast margar þeirra þjóna þeim tilgangi einum að gera Úkraínumenn tortyggilega og reyna að varpa ákveðnum ljóma á Rússa.

Í byrjun greinarinnar fjallar Hildur um Matilde Kimer fréttakonu Danska ríkisútvarpsins. Hún var árum saman fréttaritari í Moskvu og sinnti auk þess nágrannaríkjunum. Kimer talar rússnesku og var búsett i Moskvu árum saman.

Eins og DV skýrði frá í desember þá afturkallaði úkraínska varnarmálaráðuneytið leyfi hennar til að starfa sem fréttakona í Úkraínu, það var gert síðla í ágúst. Um þetta segir Hildur: „Hinn 22. ágúst sl. afturkallaði varnarmálaráðuneyti Úkraínu blaðamannsleyfið hennar án skýringa, rétt eftir að hún tók viðtal við bónda í Mykolaiv, í austurhluta landsins, þar sem úkraínskar sprengjur kveiktu í korngeymslu svo 250-300 þúsund tonn af korni fuðruðu upp.“

Þarna tengir hún afturköllun blaðamannaleyfisins við eld í korngeymslu í Mykolaiv þar sem gríðarlegt magn af korni eyðilagðist. Það sem hún tekur hins vegar ekki fram í þessu samhengi er að Rússar skutu á geymslunar í byrjun júní og eyðilögðu þær og þar með um 300.000 tonn af korni. Reuters sagði meðal annars frá þessu.

Þess utan var Kimer í Mykolaiv í júlí en ekki ágúst svo blaðamannaleyfi hennar var ekki afturkallað rétt eftir að hún var þar.

Matilde Kimer. Skjáskot af vef DR.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hildur fjallar síðan meira um mál Matilde Kimer og fund hennar með úkraínsku leyniþjónustunni SBU. Hér er hægt að lesa umfjöllun DV frá í desember um mál Kimer.

Hildur lætur hins vegar alfarið vera að nefna að Kimer hefur nú fengið starfsleyfi sem fréttakona í Úkraínu á nýjan leik. Hún getur þess heldur ekki að í byrjun ágúst var Matilde Kimer stövuð við komuna til Rússlands og vísað úr landi. Henni var í kjölfarið bannað að koma aftur til landsins fyrr en 2032. Á vef Danska ríkisútvarpsins er haft eftir Kimer að hún hafi ekki fengið neinar skýringar á brottvísuninni en hugsanlega sé það vegna þess að Danmörk sé skilgreint sem „óvinveitt ríki“ í Rússlandi. Hún sagði einnig að ef fjölmiðlar setja spurningamerki við ákvarðanir rússneskra yfirvalda eða þann sannleika sem ráðamenn í Kreml hafa ákveðið að sé gildandi þá sé fólk orðið ógn. Þegar kveikt sé á rússnesku sjónvarpi fái áhorfendur algjörlega samhljóma upplýsingar sem komi beint frá æðstu stöðum.

Kimer fjallaði síðan nýlega um málið á Facebooksíðu sinni.

Alina Lipp

Víkur þá sögunni að Alina Lipp sem Hildur segir vera sjálfstæða og óháða þýska fréttakonu sem hafi flutt fréttir frá Donetskborg í Donbass árum saman. Hafi hún fjallað um hvernig ráðamenn í Kiyv hafi haldið uppi árásarstríði og þjóðernishreinsunum á hendur rússneskumælandi íbúum Donbass. „Hún tekur viðtöl við venjulegt fólk og birtir það sem hún sér, eins og hún segir sjálf. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu sagði hún að loksins tæki einhver upp hanskann fyrir þetta fólk,“ segir Hildur og bætir við að Lipp hafi verið handtekin í sumar og ákærð af þýskum saksóknara fyrir að „umbuna og samþykkja saknæmt athæfi“. Hafi bankareikningur hennar verið frystur og sparifé hennar hafi gufað upp á óskiljanlegan hátt. Það sama eigi við reikninga móður hennar. Segir Hildur að Lipp fái ekki að verja sig sjálf og eigi margra ára fangelsi yfir höfði sér í Þýskalandi en láti það ekki stöðva sig í að flytja fréttir frá Donbass. Hildur tekur ekki fram að Lipp á þýska móður og rússneskan föður og hefur dvalið langdvölum í Rússlandi.

Það geta auðvitað allir titlað sig sem óháðan og sjálfstæðan fréttamann/fréttakonu eins og Lipp gerir. Það dylst þó engum sem les fréttir hennar eða hlustar á hana að hún gengur erinda Rússa og getur því varla talist óháð í störfum sínum.

Alina Lipp. Skjáskot/Twitter

 

 

 

 

 

 

Danska ríkisútvarpið fjallaði um Lipp í dag og segir í millifyrirsögn að hún „sé velheppnuð afurð“ fyrir Kreml. Segir DR að Lipp taki myndbönd með farsíma sínum á átakasvæðum í Úkraínu. Það að hún noti farsíma og stilli sér upp fyrir framan myndavélina, svona sjálfustíll, geri að verkum að margt ungt fólk á auðvelt með að finna til ákveðinna líkinda með henni. Hún virðist bara vera venjuleg ung kona.

DR bendir á að hún kalli sig óháða fréttakonu og segir að hugsanlega virðist hún vera það við fyrstu sýn en þegar myndbönd hennar séu skoðuðu nánar blasi önnur mynd við. Segir DR að þrátt fyrir að Lipp staðhæfi að hún geti ferðast algjörlega frjáls ferða sinna á yfirráðasvæðum Rússa þá séu rússneskir hermenn nær alltaf með henni í för. Hún aki í bílalestum hersins og gangi á eftir hermönnum í gegnum hertekna bæi og landsvæði. Þegar hún taki viðtöl við heimafólk séu rússneskir hermenn nær alltaf við hlið hennar. Þeir virðast hræða viðmælendur hennar að sögn DR sem segir að þeir geti eiginlega ekki annað en svarað leiðandi spurningum hennar játandi um hvort allt sé nú ekki orðið betra eftir að Rússarnir komu.

DR segir einnig að oft sjáist fylgdarmenn Lipp grípa inn í, svartklæddar hendur sjáist ýta henni og myndavélinni áfram þegar hún tekur myndir af einhverju sem hún má ekki mynda. Henni sé ýtt á réttan stað fyrir áframhaldandi myndatöku. DR segir að hermenn láti Lipp fá niðursuðudósir sem hún á að færa íbúum á herteknu svæðunum fyrir framan myndavélarnar. Það skíni í gegnum þetta að Rússarnir hafi áhrif á Lipp og stjórni henni eiginlega þegar kemur að umfjöllun hennar um stríðið í Úkraínu.

Út frá sjónarhóli Kremlverja er Alina Lipp „velheppnuð afurð, nákvæmlega eins og maður vill. Aðlaðandi ung kona, sem manni finnst gaman að horfa á, og maður hlustar gjarnan á,“ sagði Danilo Höpfner, hjá rússnesku mannréttindasamtökunum Memorial í umfjöllun um rússneska áhrifavalda í þætti sem þýska sjónvarpsstöðin ZDF sýndi í haust. Aðrir kalla Lipp „áróðursgjallarhorn“ og aðrir kalla hana „nytsamt YouTube-vopn Pútíns“.

Þýska fréttaveitan dpa staðreyndakannaði mál Lipp hvað varðar rannsókn þýskra yfirvalda á hendur henni.  Niðurstaðan er sú að það er rétt að mál Lipp eru til rannsóknar hjá þýskum saksóknara og snúast þau um að Lipp er sögð hafa ítrekað lýst yfir stuðningi við árásarstríð Rússa gegn Úkraínu en það hófst í febrúar 2022.  Þetta á hún að hafa gert á samfélagsmiðlum. Ef þetta sannast er um brot á þýskum lögum að ræða. Meðal þess sem hún hefur birt á samfélagsmiðlum að sögn dpa er að daginn, sem innrásin hófst, birti hún eftirfarandi skilaboð á Telegram: „Afnasistavæðingin er hafin.“ Því til viðbótar birti hún myndband þar sem hún fagnaði „frelsun“ sinni og Rússa. Hún er einnig sögð hafa sagt að Úkraínumenn hafi drepið rússneska íbúa Úkraínu árum saman og nú sé komið að því að það stoppi. Hún er sögð hafa birt myndband 12. mars þar sem hún sagði að Úkraínumenn væru að fremja þjóðarmorð og að rússneski herinn væri nú að frelsa þau héruð þar sem þjóðarmorð eiga sér stað. Þetta eru sömu rök og rússneskir ráðamenn hafa notað til að réttlæta innrásina.

Í umfjöllun dpa kemur einnig fram að það sé rétt að yfirvöld hafi lagt hald á fjármuni í eigu Lipp. Þetta séu 1.600 evrur sem Lipp er talin hafa fengið að gjöf til að hún gæti fjármagnað störf sín á samfélagsmiðlum.

Blaðamenn dpa ræddu einnig við Hendrik Zörner, talsmann DJV sem eru samtök þýskra blaðamanna, og spurði hann út í starfsheitið „blaðamaður“ og hvort það nái yfir það sem Lipp gerir. Hann benti á að starfsheitið sé ekki lögverndað og því gerist það öðru hvoru að áróðursfólk og aðrir kalli sig blaðamenn án þess að starfa í raun sem slíkir. „Þetta á við í tilfelli Alina Lipp. Framlag þitt til umfjöllunar um stríðið í Úkraínu er ekki sjálfstæð og gagnrýnin blaðamennska heldur áróður frá Kreml í sinni skýrustu mynd,“ sagði Zörner.

Deutsche Welle (dw) fjallaði einnig um Lipp í umfjöllun um staðreyndakönnun í fréttaflutningi af stríðinu í Úkraínu. Þar kemur fram að Lipp hafi skrifað á Telegram: „Sumir úkraínskir hermenn nota slagorðið „Jedem das Seine“ sem merki um aðdáun sína á nýnasisma.“ Hún birti einnig mynd með þessum orðum sínum til að sanna þau. „Jedem das Seine“ var áletrunin á aðalhliði Buchenwals útrýmingarbúða nasista.

Hér er myndin sem Lipp birti af úkraínskum hermönnum með slagorð nasista á hjálmum sínum. Skjáskot/Telegram

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dw segir að augljóst sé að átt hafi verið við myndina. Slagorðið hafi verið fótósjoppað inn á myndina, á hjálma hermannanna. Ekki nóg með það, því myndinni var snúið við eins og spegilmynd að sögn dw.

Hér er myndin eins og hún birtist í Washington Post. Skjáskot/Washington Post

 

 

 

 

 

Dw segir einnig að mennirnir á myndinni séu ekki óþekktir. Þeir séu úr úkraínsku hljómsveitinni Antytila og hafi hún orðið heimsþekkt þegar hún flutti remix af laginu „2Step“ með Ed Sheeran. Bendir dw á að alþjóðlegir miðlar á borð við The Washington Post hafi notað myndina af hljómsveitinni þar sem meðlimir hennar eru í hermannabúningum.

Eva K. Bartlett

„Eva K. Bartlett er kanadísk fréttakona sem flutti fréttir frá Sýrlandi þegar það stríð stóð sem hæst og segir hvernig umfjöllun vestrænna fjölmiðla var gjörsamlega á skjön við veruleikann. Hún hefur líka flutt fréttir frá hinni hernumdu Palestínu og við vitum flestöll að fjölmiðlaumfjöllun þaðan hefur alltaf verið sveipuð ísraelskum réttlætisljóma,“ segir Hildur í upphafi umfjöllunar sinnar um Bartlett.

Hún segir síðan að Bartlett sé nú stödd í Donetsk og flytji fréttir af því sem er raunverulega að gerast þar. Það sé önnur mynd en sú sem úkraínska áróðursmálaráðuneytið dregur upp. Hún segir að Bartlett fletti til dæmis ofan af myndbirtingum vestrænna fjölmiðla sem hún segir jafnvel nota myndir úr öðrum stríðum og tölvuleikjum til að styðja upplognar frásagnir sínar.

Eva Bartlett. Skjáskot/YouTube

 

 

 

 

 

 

„Hún birtir myndir af spítölum, barnaheimilum, verslunum sem hafa verið sprengdar af úkraínskum þjóðernissinnum og hernum, þar sem takmarkið er að drepa sem flesta, því markmiðið er að útrýma rússneskumælandi fólki úr landinu. Þessir þjóðernissinnar voru samkvæmt vestrænum fjölmiðlum helsta ógnin við lýðræði í Úkraínu til ársins 2020, en nú hafa þeir fengið ímyndaryfirhalningu sem glæstar hetjur á leið á bardagavöllinn. Eva fylgdi kosningunum í september og tók viðtal við fólk, bæði á kjörstað og þá sem óskuðu eftir að fá kjörkassa heim til sín. Frásagnir af hræddu fólki að kjósa undir byssukjafti eru lygi og áróður. Niðurstaðan var yfirgnæfandi stuðningur við sameiningu við Rússland. Fólk treystir ekki úkraínskum yfirvöldum lengur,“ segir Hildur um Bartlett.

Hildur gleymir alveg að nefna að alþjóðsamfélagið hefur lýst kosningarnar á herteknu svæðunum í Úkraínu marklausar og sviðsettar og er ekki annað að sjá en úrslit þeirra hafi verið ákveðin fyrir fram, svona eins og þegar „kosið“ var á Krím um innlimun skagans í rússneska ríkjasambandið.

Í umfjöllun NBCNews um fréttaflutning á samfélagsmiðlum af stríðinu í Úkraínu kemur fram að miðlunum hafi tekist nokkuð vel upp við að loka á fréttir frá opinberum rússneskum miðlum en hins vegar sleppi margir einstaklingar fram hjá þessu. Haft er eftir Melanie Smith, framkvæmdastjóra stafrænnar greiningar hjá Institute for Strategic Dialogue (ISD), að mikið magn efnis sleppi fram hjá síum samfélagsmiðlanna. Dreifendur þessa efnis geti náð til mjög margra með boðskap sinn og geti þannig hratt dreift röngum upplýsingum sem eru hliðhollar Rússum.

Meðal þessara aðila eru fyrrgreind Alina Lipp. Segir ISD að fylgjendum hennar á Telegram og YouTube hafi fjölgað úr 2.000 í febrúar í rúmlega 160.000 í maí. Lipp svaraði ekki fyrirspurnum  NBCNews.

IDS nefnir einnig Bartlett til sögunnar en hún er sögð hafa kynt undir samsæriskenningum í stríðinu í Sýrlandi með því að halda því fram að björgunarmenn úr samtökum, sem eru þekkt sem Hvítu hjálmarnir“ hafi sviðsett árásir í borgarastyrjöldinni. NBCNews bendir á að Bartlett sé ekki starfsmaður RT, sem er fréttastöð undir stjórn Kremlverja, en hún hafi birt skoðanapistla á heimasíðu RT, gert myndbönd með fréttamönnum RT og hafi deilt efni frá RT á samfélagsmiðlum til að komast hjá útilokun þeirra á rússneskum ríkisfjölmiðlum. Facebook merkir færslur hennar og bendir á að hún sé hugsanlega að hluta eða algjörlega undir ritstjórnarvaldi rússnesku ríkisstjórnarinnar. Bartlett varð ekki við beiðni NBCNews um að tjá sig um málið.

Dauðalistinn og fleira

Hildur lýkur grein sinni með því að fjalla um það sem hún segir vera dauðalista úkraínsku leyniþjónustunnar sem sé öllum aðgengilegur. Þar sé að finna upplýsingar um heimilisfang og símanúmer þeirra sem eru á listanum auk ljósmynda af þeim.

Dauðalistinn sem hún á við er væntanlega Mirotvorets listinn sem var birtur á Internetinu 2014 og er þar enn. Á honum eru nöfn þeirra sem eru taldir „óvinir Úkraínu“. Þetta er ekki listi á vegum hins opinbera, heldur á vegum öfgahægrisamtaka. Mörg hundruð þúsund nöfn eru á listanum að sögn Newsweek sem segir að nöfnin séu allt frá nöfnum liðsmanna Wagnerhópsins til nafna blaðamanna sem eru sakaðir um að starfa með leppstjórnum Rússa í Donbass.

Hún nefnir síðan sérstaklega ítalska blaðamanninn Andrea Rochelli og túlk hans, Rússann Andrei Mirnov, sem létust í Donbass 2014 og segir að Úkraínumenn hafi myrt þá. Rétt er að úkraínskur hermaður var sakfelldur af ítölskum dómstól fyrir að hafa orðið þeim að bana en ári síðar var dómnum breytt og hann sýknaður á grunni nýrra sönnunargagna. Í umfjöllun Kyiv Post frá 2020 kemur fram að talið sé að Rochelli og Mirnov hafi lent í skotlínunni á milli stríðandi aðila.

Því næst víkur hún að morðinu á Darya Dugin, dóttur Alexander Dugin, eins helsta hugmyndafræðing Vladímír Pútíns, Rússlandsforseta. Hún lést í sumar þegar sprengja sprakk undir bíl hennar. Talið er að sprengjan hafi verið ætluð föður hennar en þau skiptu á bílum á síðustu stundu og það varð Darya að bana.

„Að halda því fram að stríðið í Úkraínu snúist um lýðræði og málfrelsi er vægast sagt furðulegt. Forseti Úkraínu hefur fangelsað stjórnarandstöðuna, bannað frjálsa fjölmiðla og, eins og að ofan er talið, bannað allan fréttaflutning sem ekki passar inn í opinberu sögurnar frá áróðursráðuneytinu,“ segir Hildur en forðast að bera saman stöðuna í Rússlandi þar sem Pútín lemur harkalega á stjórnarandstöðunni, fangelsar andstæðinga sína, nú eða þá deyja þeir á undarlegan hátt einn af öðrum. Það sama á við um rússneska olígarka sem hafa týnt tölunni í tugatali síðan innrásin hófst.

Því næst segir hún að sjálfskipaðir þjóðhreinsunarmenn hafi tekið völdin og fremji þjóðarmorð á minnihlutahópum. Síðan víkur hún að prestum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem sæta árásum að hennar sögn fyrir það eitt að minnast á eitthvað rússneskt.

„Allar þessar þrjár konur eru dæmi um hugrakkt alvörufréttafólk sem finnst sannleikurinn mikilvægur. Sem fer á svæðið og tekur viðtöl við fólk og tekur ekki fréttir úr sögulegu samhengi til að réttlæta málstað. En kannski er skiljanlegt að venjulegt íslenskt fréttafólk vilji frekar þýða beint texta áróðursráðuneytis Úkraínu en að skrifa sannleikann og eiga á hættu að lenda á dauðalista leyniþjónustunnar,“ segir Hildur síðan að lokum.

Niðurlag greinar hennar á svo sannarlega við Kimer sem hefur ekki verið hrædd við að fjalla um Rússa og Úkraínumenn á hátt sem þeim finnst neikvæður. En hvað varðar Lipp og Bartlett er óhætt að segja að niðurlagið eigi ekki við, þær eru einfaldlega ekki fréttakonur, heldur konur sem ganga erinda Rússa og setja fram upplýsingar (oftast rangar) sem hugnast Rússum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Sökudólgaleit

Óttar Guðmundsson skrifar: Sökudólgaleit
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Brettum upp ermar

Steinunn Ólína skrifar: Brettum upp ermar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ný-íslenskan og hættur hennar

Sigmundur Ernir skrifar: Ný-íslenskan og hættur hennar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Vandlátir þingmenn

Óttar Guðmundsson skrifar: Vandlátir þingmenn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Hvenær ætlum við að rísa á fætur?

Steinunn Ólína skrifar: Hvenær ætlum við að rísa á fætur?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvernig á að borga brúsann?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvernig á að borga brúsann?
EyjanFastir pennar
26.01.2024

Steinunn Ólína skrifar: Holir menn og tómar tunnur

Steinunn Ólína skrifar: Holir menn og tómar tunnur
EyjanFastir pennar
25.01.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Allir í stjórnarandstöðu nema VG

Þorsteinn Pálsson skrifar: Allir í stjórnarandstöðu nema VG