fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Sólveig Anna hraunar yfir Leiðtogafundinn – „Það er hátt risið á hundaskítnum“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 17. maí 2023 09:00

Sólveig Anna Jónsdóttir Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég sendi heitar baráttukveðjur til alþýðu Evrópu. Ég vona að fjara fari undan auðvaldi og pólitískum ónytjunum hér og þar, og tími alþýðufólks renni upp. Ég myndi segja pólitískri yfirstétt sem að sjálfs-upphefur eins og aðall fyrir alda akkúrat núna í Hörpu að skammast sín fyrir að vilja frekar búa í Speglasalnum en í samfélagi venjulegs fólks. En ég veit að það þýðir ekki neitt. Ég ætla frekar að gera orð mömmu að mínum, sem hún mælti þegar að oflæti og fáránleg-heit hinna og þessara fóru langt fram yfir öll velsæmismörk: „Það er hátt risið á hundaskítnum.“ Það er á endanum það eina sem hægt er að segja þegar við neyðumst til að horfa og hlusta á útsendinguna á 3. flokks tragíkómedíu sameinaðrar valdastéttar hinnar gömlu og grimmu heimsálfu sem sett hefur verið upp í Hörpu,“

segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í færslu á Facebook.

Sólveig Anna segist senda heitar baráttukveðjur í upphafi leiðtogafundar til alþýðu þeirra landa sem sjálfs-upphafningarnir sem að nú kom saman í Reykjavík stýra. „Ég óska þess að þau sem þar eru arðrænd af auðvaldi í samvinnu við „leiðtoga“ vinni mikla sigra í baráttunni fyrir því að lifa frjáls undan oki forhertrar auðstéttar og stjórnvalda í hlutverki framkvæmda-nefndar hennar.

„Ekki verður lengur við það unað að ójöfnuður, stéttskipting og misskipting aukist stöðugt vegna þess að svokallaðir „leiðtogar“ vernda hin ríku og standa með þeim í þeirra herskáu stéttabaráttu hvar og hvenær sem er, á kostnað vinnandi fólks. Enda er það svo að alls staðar sjáum við verkafólk og annað vinnandi fólk, þau sem að hafa ekkert að selja nema sitt dýrmæta vinnuafl, þá einstöku vöru, endurvekja raunverulega verkalýðsbaráttu með verkföllum, í þeim tilgangi að berjast gegn afætu-eðli uppsafnaðs kapítals og eigenda þess. Verkafólk einfaldlega verður að stunda harða verkalýðsbaráttu vegna þess að stjórnvöld, hér og annars staðar, eru vinir auðvalds og óvinir vinnuafls. Svokallað vinstra fólk, kratar, miðjufólk, íhald og ný-fasistar; öll eiga það sameiginlegt að vera blinduð gagnvart veruleika alþýðu-fólks og heltekin af vegtyllu-græðgi og narsissisma. Ekkert er augljósara á vorum dögum.“

Sólveig Anna segist senda heitar baráttukveðjur til alþýðu Evrópu um leið og hún les niðurstöður Vörðu fyrir Eflingu, unnar úr könnum sem framkvæmd var hjá aðildarfélögum ASÍ og BSRB.

Segir íslensk stjórnvöld full af stéttaandúð

Niðurstöðurnar séu sönnunin á því að íslensk stjórnvöld eru full af stéttaandúð gagnvart vinnuafli höfuðborgarsvæðisins.

„Ekkert markvert“ sagði Katrín Jakobsdóttir, leiðtogi og forsætisráðherra, um aðstæður félagsfólks Eflingar, ísköld og áhugalaus um örlög samborgara sinna í vetur sem leið, en ég ætla að vera 100% ósammála henni þar; það er allt markvert sem hægt er að lesa í könnun Vörðu um aðstæður Eflingar-fólks. Hún er lýsing innan úr efnislegum raunveruleika höfuðborgarsvæðisins, leikvelli veruleikafirrtrar íslenskrar valdastéttar,“ segir Sólveig Anna.

„Þetta er árangur sá sem kvenleiðtogi landsins, forsætisráðherra, hefur náð á sinni valdatíð.“

„60,1% Eflingar-fólks á nokkuð til mjög erfitt með að ná endum saman. 50,6% Eflingar-fólks geta ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum án þess að stofna til skulda. Ef að við skoðum Eflingar-konur geta 55,4% þeirra ekki mætt 80.000 króna óvæntum útgjöldum án þess að stofna til skulda. 19,7% Eflingar-fólks metur fjárhagsstöðu sína mun verri en fyrir ári og 29,3% nokkuð verri en fyrir ári síðan. 51,1% Eflingar-kvenna búa við nokkuð til mun verri fjárhagsstöðu en fyrir ári síðan.“

Sólveig Anna segir að þar birtist hið ískalda áhugaleysi pólitískrar og efnahagslegrar valdastéttar gagnvart tilveruskilyrðum láglaunakvenna, þeirra kvenna sem að ekki eru verðugar til að njóta einstaklingsréttinda-geisla meginstraums femínismans á Íslandi, vegna þess að þær eru ýmist ómenntaðar, innflytjendur eða flóttakonur. „Þetta er árangur sá sem kvenleiðtogi landsins, forsætisráðherra, hefur náð á sinni valdatíð.“

„35,2% Eflingar-fólks hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu sinni. 21,5% Eflingar-fólks hefur ekki efni á því að reka bíl. Þegar að staða Eflingar-fólks er skoðuð í samanburði við önnur félög mælist hún í öllum tilfellum verst. Hugsið ykkur ef að vinnumálaráðherra flokksins sem að kennir sig við vinstri-stefnu, VG, Guðmundur Ingi, hefði í stað þess að flýja land til að þurfa ekki að hitta fulltrúa Eflingar síðasta vetur og í stað þess að standa með ríkissáttasemjara í vasanum á auðvaldinu, tekið sér stöðu með vinnuafli höfuðborgarsvæðisins. Sýnt hugrekki og getu til að vera eitthvað annað en hversdagslegur evrópskur annarsflokks vegtyllu-pólitíkus. En það gerði hann ekki. Hann flúði land og svo hélt VG landsfund þar sem að fulltrúa úr forystusveit SGS var boðið sérstaklega til að kalla okkur í Eflingu Sjálfstæðismenn, sek um hatursorðræðu, verandi nokkurs konar meinsemd i samfélaginu. Fyrir þennan málflutning uppskar sá „leiðtogi“ mikið lófatak forystusveitar VG.“

Staðreyndir kvenna allt í kringum okkur

„Ég held áfram: Mun hærra hlutfall Eflingar-fólks getur ekki mætt kostnaði vegna félagslífs barna sinna en hjá öðrum félögum. Til dæmis gátu 27% Eflingar-kvenna ekki greitt kostnað vegna afmælisboða hjá vinum eða bíóferða fyrir börnin sín. 27,8% Eflingar-kvenna gátu ekki séð börnum sínum fyrir nauðsynlegum klæðnaði. Staðreyndir úr reykvískum veruleika. Staðreyndir kvenna allt í kringum ykkar. Eiga þær að gera það sem forsætisráðherra og auðvaldið vill og bera harm sinn í hljóði?
Rúmlega helmingur félagsfólks Eflingar býr við þunga byrði vegna húsnæðiskostnaðar. Ef að við skoðum aðeins konurnar eru það 53,8% sem að búa við þunga byrði vegna húsnæðiskostnaðar. Hátt í helmingur Eflingar-fólks býr í leiguhúsnæði en aðeins 18,8% þeirra sem að tilheyra öðrum stéttarfélögum innan ASÍ eða BSRB. Ef að við skoðum stöðu þeirra sem að leigja eru það 57,2% sem að búa við þunga byrði vegna húsnæðiskostnaðar. Það eru nú aldeilis gott að SA, SGS og stjórnvöld komu í veg fyrir að Eflingar-fólk gæti fengið sérstaka framfærsluuppbót vegna húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu, ekki satt?

50% Eflingar-kvenna búa við slæma andlega heilsu. Helmingur. Í sjálfri jafnréttisparadís forsætisráðherra, í hinni heimsfrægu femínista-borg. Nýfrjálshyggju-Pótemkín-tjaldið sem að okkur hefur verið troðið inn í er orðið ansi mölétið og myglað. Það er mannúðarmál að Eflingar-konum verði sleppt út úr því. Kannski að við leitum á náðir Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir hönd reykvískra láglaunakvenna?

Ég gæti haldið áfram lengi í viðbót.“

Sitjum uppi með stjórnmálafólk sem sér ekki alþýðufólk

Sólveig Anna segir staðreyndina þá að raunverulegt stjórnmálafólk með raunverulegan metnað til að raunverulega bæta samfélag sitt myndi leggjast á árarnar með Eflingu til að hefja þá miklu vinnu sem að augljóslega þarf að framkvæma til að frelsa fólk undan þeirri arðráns-kúgun sem það er beitt af íslenskri yfirstétt.

„Myndi upplifa reiði og eldheita löngun til að breyta þessum ömurlegu aðstæðum sem að eyðileggja líf fólks með því að þræla því út og færa þeim ekkert í staðinn. Myndi fyllast sorg yfir þeirri vitneskju að fyrir stóran hóp kvenna eru samskipti þeirra við afkvæmi sín markeruð af því að þurfa að segja nei; nei við flestu því sem að önnur börn geta gert, nei sem að særir móðurhjartað og grefur undan allri heilsu og hamingju. Og auðvitað því samfélagslega ofbeldi sem fólgið er í því að þurfa alltaf að segja nei við sjálfa sig, þrátt fyrir að eyða allri ævinni í strit,“ segir Sólveig Anna og segir okkur sitja uppi með stjórnmálafólk sem sér ekki einu sinni alþýðufólk.

„Vill ekki vita af því. Finnst það ekki „markvert“. Stjórnmálafólk sem aðhyllist samræmda láglaunastefnu, hefur afhent fjármagnseigendum húsnæðismarkaðinn til að geta arðrænt fólk af enn innblásnari og meira kappi. Stjórnmálafólk sem vill bara kvenfrelsi fyrir sumar konur, sínar konur, og kúgun og jaðarsetningu fyrir alþýðukonur. Stjórnmálafólk sem lítur á stjórmálaferil sinn sem annaðhvort réttindagæslu fyrir vini og skyldmenni í efnahagslegri yfirstétt eða persónulegt framapot sem hægt er að nota til að komast í fínt embætti í einhverri lekkerri höfuðborg Evrópu, til að umgangast þar þá fjölmörgu sjálfskipuðu leiðtoga sem þar lifa í vellystingum á kostnað skattgreiðenda. „Ruling the void“; það er það eina sem þau geta og vilja, með sínar heimatilbúnu kórónur á sínum leiðtoga-hausum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að