Fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 var kynnt þingheimi fyrir skömmu og fjöldi umsagna hefur borist. Umsagnir Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins vöktu einna mesta athygli undirritaðs. Þar birtist tæpitungulaus gagnrýni á óstjórn í ríkisfjármálum, sett fram með skilmerkilegum tölfræðigögnum.
Viðskiptaráð bendir á að gríðarleg útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna heimsfaraldurs hafi aðeins að hluta til gengið til baka. Vöxtur útgjalda á árunum 2019–2021 hafi verið af „óheyrðri“ stærðargráðu eða 16% að raunvirði. Vinda þurfi ofan af hömlulausum vexti ríkisútgjalda en næg tækifæri séu til sparnaðar enda gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði hærri næstu árin en var áður en faraldurinn skall á.
Að mati Viðskiptaráðs er útgjaldaaukinn nú sérlega varhugaverður í ljósi mikillar spennu og verðbólgu og enn eigi að auka útgjöldin mun hraðar en tekjurnar. Við bætist að vaxtakjör ríkissjóðs hafi versnað mjög.
Í þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun er lagt fram það sem kallað er „áætlun um aðhaldsaðgerðir“ og tíundað mikilvægi þess að skuldir hins opinbera lækki og afkoman verði jákvæð. Sé horft í gegnum orðagjálfrið blasir við að ganga þarf mun lengra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur til dæmis nýverið bent á að launakostnaður ríkis og bæjarfélaga sé mun hærri hér en í öðrum þróuðum ríkjum. Þar séu því ótvírætt tækifæri til hagræðingar.
Þá eru boðaðar skattahækkanir, meðal annars hækkun tekjuskatts á lögaðila úr 20% í 21%. Sagt er að sú hækkun sé „tímabundin“ en sögufróðir menn vita sem er að fátt er jafnvaranlegt og „tímabundnar“ aðgerðir ríkisins. Viðskiptaráð bendir á að ekki sé svigrúm til frekari skattahækkana enda skatttekjur hér á landi með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli.
Umsögn Samtaka atvinnulífsins er einnig fróðleg lesning. Þar er meðal annars bent á að ekki nægi að rétta af hallann á rekstri ríkissjóðs heldur þurfi myndarlegan afgang. Ríkisstjórnin hafi kosið að auka álögur á borgarana í stað þess að taka á útgjaldavandanum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um aðhald í fjármálaáætluninni segir SA að ekki verði séð að „nein tilraun sé gerð til að leita leiða til hagræðingar í opinberum rekstri“.
Svo illa hafi gengið að grípa til aðgerða í þessum efnum að SA leggur til að leitað verði aðstoðar erlendis frá. Hjá Efnahags- og framfarastofnuninni starfi til að mynda sérfræðingar sem gætu komið að málum — menn með reynslu af því að aðstoða ríki við að bæta reksturinn.
Samtök atvinnulífsins benda á að tekjur ríkissjóðs hafi undanfarin ár jafnan reynst hærri en spár gerðu ráð fyrir en tekjuaukanum verið eytt jafnharðan. Ríkisvaldið skorti aga til að halda aftur af sér. Í ljósi sögunnar þurfi að gæta þess að stjórnvöld stuðli ekki að viðskiptahalla með hallarekstri ríkissjóðs, viðskiptahalla sem geti síðan grafið undan gengi krónunnar og aukið verðbólgu. En með því að eyða alltaf jafnharðan tekjuauka — sem kann að reynast skammvinnur — sé beinlínis farið á svig við grunngildi laga um opinber fjármál.
Samtök atvinnulífsins álíta að vilja (og/eða getu) skorti til að taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald í ríkisfjármálum og beinan niðurskurð. Ríkisstjórnin tali um „almennar aðhaldsaðgerðir“ og veigri sér þannig við að taka pólitískar ákvarðanir sem kunni að vera óþægilegar og erfiðar — en séu engu að síður nauðsynlegar.
Þá segir SA boðaða hækkun tekjuskatts lögaðila skjóta skökku við nú þegar bæði vextir og laun hafi hækkað mikið að undanförnu. Það séu ekki fyrirtækin sem slík sem beri kostnaðinn heldur dreifist hann á launafólk, atvinnurekendur og viðskiptavini fyrirtækjanna.
Sá árangur sem náðst hafi við að draga úr halla ríkissjóðs sé umfram allt að þakka þróttmiklu atvinnulífi sem ítrekað hafi skilað tekjum í ríkissjóð umfram spár. Ríkið eyði aftur á móti tekjuaukanum jafnóðum og beri því fulla ábyrgð á vandanum.
Vandinn nú liggur ekki hvað síst í skringilegri samsetningu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur — það er einfaldlega ekki hægt að taka af festu á ríkisfjármálunum af pólitískum ástæðum. Sjálfstæðismenn hafa fengið því framgengt að skattar verði ekki hækkaðir að neinu marki en á móti fá Framsóknarflokkur og sér í lagi Vinstri grænir að auka útgjöld.
Þetta gengur ekki upp. Ríkisstjórn getur ekki verið hvort tveggja í senn til hægri og vinstri í efnahagsmálum — og stjórnarandstaðan hleypur síðan í allar áttir, síst er samhljómurinn meiri þar. Fyrir löngu er orðið tímabært að hér setjist að völdum ríkisstjórn með skýr markmið um aðhald og ráðdeild í opinberum rekstri en það getur ekki orðið stjórn núverandi flokka