fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hringferð tímans

Eyjan
Mánudaginn 2. janúar 2023 16:45

Örlaganornirnar í túlkun Franz Stassen frá árinu 1914.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og svo margir aðrir lagði ég leið mína í Þjóðleikhúsið milli jóla og nýárs til að sjá glænýtt verk Mariusar von Mayenburg, Ellen B. Þar er áhorfandinn látinn horfa upp á alvarlegar ásakanir um kynferðislega misnotkun án þess að nokkur leið sé að ráða í það hvað raunverulega átti sér stað en sömuleiðis er fjallað um valdaójafnvægi í samböndum. Hvort tveggja er mjög til umræðu í okkar samtíma en sjónarhornið er sannarlega nýtt og ég heyri að menn sjá verkið hver með sínum augum enda fer því fjarri að þar sé allt sem sýnist. En þannig er líka veruleikinn — okkur skortir jafnan nægilegar upplýsingar til að geta með réttu myndað okkur skoðanir á atburðum líðandi stundar — en það aftrar samt fæstum frá því að fella dóma.

Benedikt Erlingsson er einn þriggja leikara í Ellen B. en hann leikstýrði einmitt Nashyrningum (fr. Rhinocéros) Eugéne Ionescos sem voru á fjölum Þjóðleikhússins fyrir skemmstu. Þar umturnast lífið í litlum bæ þegar íbúarnir taka að breytast í nashyrninga hver af öðrum. Á sama tíma láta flestir sér fátt um finnast — þeir sem eiga að vera best upplýstir í krafti menntunar og gáfna eru þegar í harðbakkann slær haldnir slíkri efahyggju gagnvart heiminum að þeir verða ekki að neinu gagni; eiga ekkert fast land undir fótum.

„Skeytingarleysið,“ sagði einn aldinn höfðingi hér í bæ við mig í vikunni sem leið, „skeytingarleysið,“ endurtók hann, „er versta meinsemd okkar samtíma.“ Menn flytu sofandi að feigðarósi og honum kom til hugar lýsing Søren Kierkegaards af því þegar kviknar í tjöldunum í leikhúsi og loddari kemur og segir áhorfendum frá því. Þeir héldu, að það væri spaug, og klöppuðu. Hann sagði það aftur, og fólk klappaði ennþá meira. Kierkegaard hélt því fram að þannig myndi heimurinn farast, við almenn fagnaðarlæti gamansamra manna, sem halda, að það sé spaug.“ („under almindelig Jubel af vittige Hoveder, der troe, at der er en Witz“).

Kröfupólitíkin

Nóg af leiksviðinu í bili. Áramót eru tími uppgjörs og endurlits. Leiðtogar þjóðarinnar halda ræður. Á fyrstu árum útvarpsins varð það að venju að forsætisráðherra flytti áramótaræðu. Fyrir flestum stjórnmálaforingjum hefur þetta verið einstök upphefð og líklega tilhlökkunarefni. Á því er þó ein undantekning.

Vegna rannsókna minna á liðnu ári las ég dagbækur Björns Þórðarsonar, forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar 1942–1944. Björn var umfram allt fræðimaður og skorti ýmsa þá kosti sem taldir eru prýða stjórnmálaforingja. „Ánægju hefi ég enga í stjórnarsessinum og mun svo lengstum verða, metnaður minn ekki nægilegur til þess,“ skrifaði hann í dagbók sína 12. nóvember 1943 og eftir móttöku bæjarstjórnar Reykjavíkur setti hann þessi orð í dagbókina: „Leiðinlegt þar.“ Björn Þórðarson reyndi meira að segja að komast undan því að flytja áramótaræðu 1942 en úr varð að þeir skiptu ávarpinu á milli sín, Björn og Einar Arnórsson, dóms- og menntamálaráðherra, ræða þess fyrrnefnda var tíu mínútna löng og sá síðarnefndi talaði tvöfalt lengur. Fleiri formlegar skyldur forsætisráðherra voru Birni til ama. Þannig kvaðst hann hafa verið „í beyglum“ með að taka á móti gestum í nýársboði þar sem hann bjó ekki í Ráðherrabústaðnum og vildi helst vera utanbæjar um áramótin. Hann lýsti þessum fyrirætlunum sínum fyrir Sveini Björnssyni ríkisstjóra sem sagði að það „dygði ekki að fela sig“!

Ef við förum fram um þrjá áratugi þá var komið að því á gamlársdag 1972 að Ólafur Jóhannesson flytti áramótaræðu öðru sinni og sjálfsagt var hann í essinu sínu frammi fyrir upptökutækjunum (ólíkt Birni Þórðarsyni). Ólafur velti því upp í áramótaræðunni fyrir réttum fimmtíu árum hver væru einkenni íslensks þjóðfélags og taldi að í svari við þeirri spurningu yrði ekki undan því vikist að nefna það sem hann kallaði „kröfupólitíkina“. Varla kæmi sá smáfundur saman ekki væru gerðar kröfur um hitt eða þetta. Og kröfurnar væru miklu frekar gerðar af þeim sem betur mættu sín en hinum er verr stæðu að vígi. Kröfurnar væru jafnan miðaðar við þrengstu stundarhagsmuni þess eða þeirra sem í hlut ættu alveg án tillits til heildarhagsmuna þjóðfélagsins og þær væru langoftast gerðar til hins opinbera. Stundum birtust í kröfugerðunum „næsta broslegar þversagnir, eins og t.d. þegar menn lýsa áhyggjum yfir hrunadansi verðbólgu, en gera jafnframt kröfur á hendur hinu opinbera um fjárveitingar eða aðrar aðgerðir, sem ýta munu undir verðbólgu.“ „Kröfuhugarfarið“ væri að mati Ólafs komið út í öfgar. Það yrði mikil framför ef menn slökuðum á hinum skefjalausu kröfum til samfélagsins og gerðu þess í stað meiri kröfur til sjálfs sín:

„Það eru einföld sannindi, sem við verðum að lifa eftir, þegar til lengdar lætur, að við megum ekki eyða meiru en við öflum. Við getum ekki skipt annarri köku en þeirri sem okkar er. Nauðugir viljugir verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Það skulum við muna á komandi ári og reyna að fara að hamla gegn kröfupólitíkinni og verðbólguhugarfarinu, sem er undirrót svo margra meinsemda í okkar þjóðlífi.“

Sögufróðir menn sjá undir eins „broslega þversögn“ í ummælum Ólafs, enda fóru ríkisútgjöldin og raunar efnahagsmálin í heild sinni úr böndunum á dögum fyrra ráðuneytis hans. Hvað sem því líður eru þetta sígild varnaðarorð og kannski miklu frekar nú um stundir en fyrir hálfri öld. Ekki þarf að fjölyrða um þá umbyltingu sem orðið hefur á lífskjörum frá árinu 1972. En þrátt fyrir alla fjármuni sem flæða um þetta þjóðfélag (sem er talið í hópi þeirra ríkustu í heimi) hefur aldrei jafnmikið verið kvartað undan skorti á peningum. Við blasir að hið opinbera hefur færst miklu meira í fang en því verður nokkurn tímann fært að sinna af skynsamlegu viti.

Ég gerði stjórnlausri útþenslu báknsins skil í greinaflokki í Fréttablaðinu á vordögum og það er ekkert lát á sukkinu. „Lítið“ dæmi rataði í fréttir skömmu fyrir jól þegar kona nokkur sem rekur sjónvarpsstöð norður í Eyjafirði bað fjárveitinganefnd þingsins um hundrað milljóna króna styrk til starfseminnar. Upp komst um ráðabruggið, hundrað milljóna króna fjáraustur til „reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni“ eins og það var kallað. Hvað fjölmiðlana áhrærir þá væri ágætt fyrsta skref að lækka framlög til ríkisútvarpsins sem samkvæmt skrifum Viðskiptablaðsins á dögunum fær nú 1.250 milljónum meira að raunvirði en fyrir áratug.

Hvarfpunktar og tímaskyn

Við sem bendum á bruðl og óráðsíu í opinberum rekstri náum ekki eyrum stjórnmálamanna — ólíkt konunni fyrir norðan sem fór fram á hundrað milljónir til eigin atvinnurekstrar. Og þegar árið er gert upp eru flestir svo samdauna sukkinu að á það er varla minnst. Eðlilega er margt annað sem sækir á huga manna. Stríðið til að mynda. Í þýskum miðlum er helst minnst á hvarfpunktinn, Zeitenwende, nýtt tímaskeið sem hefði runnið upp 27. febrúar sl. þegar Olaf Scholz kanslari kynnti í ræðu á Sambandsþinginu í Berlín að útgjöld Þjóðverja til varnarmála yrðu aukin svo um munaði og að þau myndu brátt ná tveggja prósentustiga lágmarki Atlantshafsbandalagsins, þ.e.a.s. sem hlutfall af landsframleiðslu. Yfirlýsingin kom undireins í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Lítið hefur farið fyrir fyrrverandi kanslara, Angelu Merkel, frá því að hún lét af embætti. Nú rétt fyrir jól var hún þó gestur í hlaðvarpi þýska ríkisútvarpsins, ARD, þar sem umfjöllunarefnið var Niflungahringur Richards Wagners. Vitaskuld urðu spyrlarnir að þýfga kanslarann fyrrverandi um stjórnmálin en Merkel sagði fyrrverandi pólítíkusa eiga að halda sig frá „eftirleiknum“. Henni þykja þó ummælin um hvarfpunktinn ekki eiga sérlega vel við — þeir séu fleiri en einn og rétt sé að horfa til sögunnar sem hrings en ekki einblína á línulega þróun.

Sverrir konungur er í sögu sinni látinn segja „aldaskipti er orðið mikið“ þegar hann tekur til valda, þ.e. Zeitenwende. En forfeður okkar gerðu raunar ekki alveg skýran greinarmun á tíma og rúmi. Veröld merkti þá fremur tíma en rúm svo dæmi sé tekið. Menn hugsuðu sér rás tímans sem hringferð og samkvæmt íslenskri þjóðtrú virðist sem aldaskipti eigi sér stað á 19 ára fresti. Þá fer veðrið að endurtaka sig.

Kanslarinn fyrrverandi virðist hafa djúpan skilning á Niflungahringnum en eins og vel er þekkt hér á landi sótti Wagner sitthvað til íslenskra fornbókmennta. Síðasti hluti hringsins, Ragnarrök eða Götterdämmerung hefst með spuna örlaganornanna Urðar, Verðandi og Skuldar. Spyrjendur í hlaðvarpinu inntu Merkel álits á því hvaða lærdóm hún drægi af verkum Wagners. Ekki stóð á svari, hún sagði þá sem ekki gætu látið af hefndarþorsta ekkert erindi eiga í stjórnmál og að hafna þurfi valdasýki (þ. Machtgier).

Lífið er leiksvið en leikendurnir hafa ekki séð handritið og það er þess vegna sem þjóðfélag þarf á þjónandi forystumönnum að halda — ekki leiðtogum sem þrá völd og viðurkenningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund