fbpx
Miðvikudagur 18.maí 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Við lifum enn á atómsprengjuöld

Eyjan
Sunnudaginn 6. mars 2022 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

 

 

 

 

 

 

 

Í kjallara undir Bústaðakirkju eru veggir óvenju vel styrktir og sjö stálsúlur styðja við loftið. Úr þessum rammgerðu sölum liggja neyðarútgangar um jarðgöng upp á jafnsléttu utan kirkjunnar. Ástæða þessa er sú að þarna var sett upp að frumkvæði sóknarnefndar fyrsta geislavarnarbyrgi landsins — byrgi til að verjast kjarnorkuvopnaárás. Almannavarnir stóðu straum af kostnaði sem því fylgdi að styrkja veggina og gera sérstaka inn- og útganga en byrgið var eign Bústaðasóknar. Þarna gátu 150 manns fengið skjól kæmi til árásar.

Blessunarlega hefur hættan á beitingu kjarnorkuvopna verið svo fjarlæg um langt skeið að líklega eru flest sóknarbörn Bústaðasóknar fyrir löngu búin að gleyma loftvarnarbyrginu (og mér vitanlega eru engar vistir eða búnaður þar lengur til taks). Við vorum þó illþyrmilega minnt á tilvist gereyðingarvopna á dögunum þegar Vladimir Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði að kjarnorkuvopn yrðu sett í viðbragðsstöðu.

Taka verður hótanir Pútíns alvarlega

Handhafi friðarverðlauna Nóbels, Dmitry Muratov, aðalritstjóri Novaya Gazeta, segir orð Pútíns fela í sér beina hótun um beitingu kjarnorkuvopna. Grípum niður í samtal breska ríkisútvarpsins við Muratov: „Í sjónvarpsávarpinu kom Pútín ekki fram sem Kremlarherra heldur lét sem hann væri hæstráðandi heimsins.“

Nú er staðan sú að rússneskt herlið ræðst af fullum þunga inn í Úkraínu en mætir að líkindum mun meiri mótspyrnu en áætlanir gerðu ráð fyrir og að sama skapi hafa Vesturlönd brugðist við af miklu meiri krafti en Kremlverja óraði fyrir. Breska ríkisútvarpið ræddi á dögunum við Pavel Felgenhauer, rússneskan hernaðarsérfræðing, sem segir Pútín ekki eiga marga kosti í stöðunni nú eftir að eignir rússneska seðlabankans hafa verið kyrrsettar og fjármálakerfi landsins lamað. Að mati Felgenhauer gætu viðbrögð Pútíns falist í því að hann léti skrúfa fyrir gasleiðslur til Evrópu en beiting kjarnorkuvopna væri líka hugsanleg og nefndi Felgenhauer í því sambandi þann möguleika að Pútín sýndi mátt sinn með beitingu kjarnorkuvopna, til dæmis yfir Norðursjó (e. „explode a nuclear weapon somewhere over the North Sea between Britain and Denmark and see what happens“).

Fréttamaður BBC spurði Felgenhauer hvort einhver í stjórnkerfinu kæmi ekki vitinu fyrir Pútín áður en tekin yrði ákvörðun um beitingu kjarnorkuvopna. Svarið var á þessa leið:

„Rússneska stjórnmálayfirstéttin stendur aldrei með þjóðinni. Hún tekur alltaf afstöðu með leiðtoganum.“

Hættan er ekki liðin hjá

Bregðum okkur aftur niður í kjarnorkubyrgið undir Bústaðakirkju. Sú framkvæmd var nánast einsdæmi hér á landi en víða í nágrannalöndunum voru reist gríðarstór loftvarnarbyrgi á árum kalda stríðsins svo forða mætti borgurum í öruggt skjól kæmi til árása.

Til ýmissa ráðstafana var þó gripið hér. Loftvarnarnefnd Reykjavíkur samdi um kaup á loftvarnarflautum haustið 1951 en gert var ráð fyrir 16 flautum sem hægt væri að ræsa samtímis frá Lögreglustöðinni í Pósthússtræti. Í grein Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings og síðar forseta, um loftvarnir á dögum kalda stríðsins (2. tbl. Sögu 2007) segir að í árslok 1956 hafi aðeins ein þessara flautna verið komnar upp — en sú var á turni Landakotskirkju. Að mati loftvarnarnefndarinnar yrði þó fljótlegt að koma hinum flautunum fyrir en einnig höfðu nokkrir útsýnisstaðir verið valdir: Landakotskirkja, Þjóðleikhúsið, Iðnskólinn, Sjómannaskólinn og flugturninn þar sem gert var ráð fyrir að varðmenn yrðu á útkikki eftir óvinaförum á hættustund. Við slíkar aðstæður yrðu lesnar upp tilkynningar í útvarpi og bifreiðar með hátölurum færu um borgina.

Árið 1967 gáfu Almannavarnir ríkisins út fræðslurit þar sem fjallað var um varnir og viðbúnað við kjarnorkuvá. Þar sagði meðal annars:

„Lítið undan og verjið augun sem allra best. HORFIÐ EKKI Í LJÓSIÐ … Kvikni í fötum yðar skuluð þér reyna að slökkva eldinn með því að velta yður á þann líkamshluta, sem er í hættu. Liggið kyrr, uns höggbylgjan hefur gengið yfir. Leitið síðan strax betra skýlis.“

Upplýsingar um varnir gegn kjarnorkuvá var að finna í símaskránni allt til ársins 1989.

Hljóðviðvörunarkerfi Almannavarna var loks komið upp í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratugnum en frá 1980 var ekki unnið frekar að uppbyggingu þess vegna fjárskorts. Lúðrarnir voru þeyttir ársfjórðungslega í könnunarskyni og þá átti fólk að fletta upp í símaskránni til að kynna sér hvað hvert hljóðmerki táknaði. Merkin voru þrjú og táknuðu „áríðandi tilkynning í útvarpi“, „hætta yfirvofandi“ og „hætta liðin hjá“. Hljóðmerki Almannavarna voru prófuð reglulega allt fram til ársins 1997.

Árið 1988 var þess getið í dagblaðinu Degi að Sovétmenn, Svisslendingar og Svíar verðu hlutfallslega nífallt meiri fjármunum til almannavarna en Íslendingar og Danir og Norðmenn sexfallt meira. Um líkt leyti fékk Ríkissjónvarpið leyfi til að mynda neðanjarðarbyrgi undir Lögreglustöðinni við Hverfisgötu sem átti að vera stjórnstöð ef landið yrði fyrir kjarnorkuárás. Þar var útvarpssendir og hægt hefði verið að senda út upplýsingar á miðbylgju.

Árið 1985 æfðu Almannavarnir stjórnun brottflutnings allra íbúa úr Austur-Skaftafellssýslu með tilliti til þess að atómsprengju hefði verið varpað á ratsjárstöðina á Stokksnesi. Í æfingunni var gert ráð fyrir að um 120 kílótonna sprengju væri að ræða. Í fréttum af æfingunni kom fram að fyrsta aðgerð í ófriði yrði að flytja fólk burt af svæðum nærri ratsjárstöðvum. Þess var þó skammt að bíða að Sovétríkin féllu og hættan af kjarnorkuárás þar með talin nánast óhugsandi. Í kjölfarið þögnuðu flautur almannavarna. En hættan af gereyðingarvopnum er því miður enn raunuveruleg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum
Framtíð menntunar

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Aðsendar greinarFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Alls ekki tala um Bjarna

Alls ekki tala um Bjarna
Aðsendar greinarFastir pennar
13.04.2022

Öfgar skrifa: Leiðbeiningar að þolendavænni orðræðu fjórða valdsins

Öfgar skrifa: Leiðbeiningar að þolendavænni orðræðu fjórða valdsins
Aðsendar greinarFastir pennar
11.04.2022

Öfgar skrifa: Afleiðingar ofbeldis sem fjórða valdið beitir þolendur

Öfgar skrifa: Afleiðingar ofbeldis sem fjórða valdið beitir þolendur
EyjanFastir pennar
22.03.2022

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík
EyjanFastir pennar
20.03.2022

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga
EyjanFastir pennar
14.02.2022

Björn Jón skrifar: Skylda okkar að verja fullveldi Úkraínu

Björn Jón skrifar: Skylda okkar að verja fullveldi Úkraínu
EyjanFastir pennar
06.02.2022

Björn Jón skrifar: Framhaldsskólanemar þurfa að skemmta sér

Björn Jón skrifar: Framhaldsskólanemar þurfa að skemmta sér
EyjanFastir pennar
23.01.2022

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira
EyjanFastir pennar
23.01.2022

Björn skrifar: Ótrúleg upplifun úr stúkunni í Búdapest – Íslendingar heilluðu alla í höllinni

Björn skrifar: Ótrúleg upplifun úr stúkunni í Búdapest – Íslendingar heilluðu alla í höllinni