fbpx
Þriðjudagur 07.febrúar 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: „Við blasir að alvarleg mistök áttu sér stað við rannsókn, saksókn og dómsmeðferð svokallaðra hrunmála“

Eyjan
Sunnudaginn 18. desember 2022 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Draga þarf lærdóma af eftirhrunsmálum

Þær eru orðnar margar bækurnar um bankahrunið og æði misjafnar. Umfjöllun um mál tengd föllnu bönkunum hefur líka frá upphafi verið í meira lagi hlutdræg enda mikil múgsefjun sem átti sér stað í kjölfar gjaldþrots bankanna þar sem sú skoðun átti jafnvel fylgi að fagna að íslenska bankakerfið hafi verið ein stór svikamylla.

Nú er orðið það langt um liðið frá þessum atburðum að hægt er að horfa á þá heildrænt af nokkurri yfirsýn. Rykið er tekið að setjast og ég heyri það á nemendum mínum sem eru í kringum tvítugt að margir eru forvitnir um þessa atburði – þekkja þá af afspurn en muna ekki eftir þeim sjálfir og hafa því ekki jafnmiklar fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað átti sér stað. Umræðan mun því vafalaust verða vitrænni eftir því sem tíminn líður.

Á dögunum komu út endurminningar Lárusar Welding, fyrrv. forstjóra Glitnis, þar sem hann rekur aðdraganda falls bankans, bankahrunið sjálft, en síðast en ekki síst eftirmál. Eftirmálin eru jafnvel enn umhugsunarverðari heldur bankahrunið sjálft. Við blasir að alvarleg mistök áttu sér stað við rannsókn, saksókn og dómsmeðferð svokallaðra hrunmála. Lárus bendir í bók sinni á mikilvægi þess að lærdómur verði dreginn af eftirmálum bankahrunsins.

Sjálfur kemur Lárus hreint fram í bókinni og ræðir af hispursleysi um það fjölmarga sem aflaga fór í rekstri Glitnis en ekki megi samt gleyma því sem vel var gert í bönkunum fyrir fjármálahrunið. Auðvelt sé að vera vitur eftir á; mikil innlánasöfnun Landsbankans og Kaupþings erlendis leysti úr brýnum fjármögnunarvanda og var talið styrkleikamerki. Á þeim tíma sáu menn vitaskuld ekki fyrir fall bankanna – hvað þá öll þau eftirmál sem fylgdu Icesave-reikningunum. Því má heldur ekki gleyma að bankarnir nutu hæstu lánshæfiseinkunnar í ársbyrjun 2007, sömu einkunnar og bandaríska ríkið.

Lárus rekur skilmerkilega í bókinni þau viðskipti Glitnis sem urðu tilefni ákæra á hendur honum og sér hefði aldrei komið til hugar að hann eða aðrir starfsmenn bankans væru að gera nokkuð sem gengi gegn hagsmunum bankans, hvað þá að það væri ólöglegt.

Embættismenn gerðu mistök

Við blasir að stjórnendur Seðlabankans höfðu rangt fyrir sér þegar þeir töldu að þjóðnýting Glitnis myndi styrkja fjármálakerfið. Hið gagnstæða kom undir eins á daginn líkt og flestir bankamenn spáðu. Um þetta farast Lárusi svo orð:

„Ég varð þess hvorki var að þeir Seðlabankamenn hefðu sótt sér erlenda ráðgjöf um þessa framkvæmd né framkvæmt einhverja greiningu á þeim hrikalegu áhrifum sem þessi ákvörðun hefði fyrir markaðsverð hinna bankanna. Þá held ég að ekki hafi verið haft fyrir því að hafa samband við lánshæfismatsfyrirtækin þrjú, þau Moodys, Fitch og Standard & Poors. Það hefði betur verið gert því að fjármögnun allra, bæði bankanna og ríkisins, var algjörlega háð mati þeirra.“

Nornaveiðar

Lárus rekur í bókinni eftirmál falls bankanna og rifjar meðal annars upp orð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem lagði fram frumvarp um stofnun embættis sérstaks saksóknara en Björn hefði látið svo um mælt að skilvirk „og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka tiltrú borgaranna á réttarríkið.“ Í sáttmála ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var bætt um betur, bankamenn skyldu eltir uppi – og viðskiptavinir þeirra líka en á þeim misserum var oft talað um „hrunvaldana“ í þessu sambandi.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varð til í þessu andrúmi en Lárus er afar gagnrýninn á vinnubrögð hennar. Allir bankamenn sem nefndir hefðu verið á nafn hefðu staðið sig illa, í skýrslunni mætti finna gildishlaðnar ásakanir

„og í framhaldinu töldu margir að nú væri komin bein sönnun þess að við bankamennirnir hefðum allir verið glæpamenn sem hefðum vaknað á morgnana og spurt sjálfa okkur hvaða fjármálaglæpi ætti að fremja þann daginn.“

Lárus rifjar líka upp að aðeins þrjár blaðsíður af 2.300 í rannsóknarskýrslunni fjalla um erlenda áhrifaþætti þegar fyrir liggur að stærstur hluti fjármögnunar bankanna og mjög stór hluti eigna þeirra var erlendur. Skrif rannsóknarnefndarinnar voru lögð til grundvallar vinnu sérstaks saksóknara en fleira varð til að afvegaleiða vinnu rannsakenda. Þar á meðal aðkoma hinnar norsku Evu Joly sem hafði á annað hundrað milljónir af íslenskum skattgreiðendum fyrir ráðgjöf í 21 mánuð. Lárus rifjar upp heiftina í Joly sem virtist vera einlægt „þeirrar skoðunar að bankamenn, hvar í heiminum sem þeir störfuðu, væru glæpamenn.“

Áleitnar spurningar

Við blasir að farið var offari við rannsókn mála, beitingu þvingunarúrræða og saksókn. Ýmsar grundvallarreglur sakamálaréttarfars voru látnar lönd og leið. Rannsakendum og saksóknurum ber að horfa jafnt til þátta sem horft geta til sýknu eða sektar sakbornings en Lárus nefnir fjölmörg dæmi þar sem litið var fram hjá þáttum sem voru til hagsbóta fyrir sakborninga eða hina ákærðu og þess jafnvel dæmi að gögnum þar að lútandi væri skotið undan ef svo má segja; væru ekki látin fylgja með rannsóknargögnum.

Lárus lýsir af einlægni hvaða áhrif það hefur á líðan manns að sitja á sakamannabekk árum saman, þurfa að þola húsleit, handtöku, símhlerun og gæsluvarðhaldsvist; allt að ósekju enda ómögulegt að sjá að nokkur skilyrða fyrir beitingu umræddra þvingunarúrræða hafi átt við.

Nú þegar æsingurinn sem fylgdi bankahruninu er um garð genginn er orðið tímabært að gera upp við eftirmál bankahrunsins, það offors sem einkenndi rannsókn mála, saksókn og dómsmeðferð. Hér á landi fengu hundruð manna stöðu sakbornings og tugir voru dæmdir í fangelsi en Lárus vitnar til Helga Gunnlaugssonar, prófessors í félags- og afbrotafræði, sem veltir því fyrir sér hvort og hvernig sé hægt að draga einstaklinga til ábyrgðar fyrir kerfishrun. Ólafur Þór Hauksson saksóknari hefur sjálfur staðfest að ekkert „hrunmála“ sem ákært var fyrir væri ástæða þess að bankarnir féllu.

Þá er í meira lagi undarlegt að dómarar við Hæstarétt Íslands sem tapað höfðu meiriháttar fjármunum á falli bankanna skyldu ekki telja neitt athugavert við að kveða upp dóma yfir stjórnendum þessara sömu banka.

Þessi mál þarf að ræða

Það er fengur að bók Lárusar og hún vekur upp áleitnar spurningar. Hann segir umhugsunarvert hversu lítil og grunn umræðan hefur verið um raunverulegar ástæður þess að bankarnir féllu. Þeir hafi fallið „einkum vegna þess að samsetning fjármögnunar þeirra, sem var háð opnum skuldabréfamörkuðum, gerði þeim ómögulegt að standa af sér hina alþjóðlegu fjármálakrísu þar sem markaðir lokuðust óvænt, hratt og í langan tíma.“ Við bætist að hér var enginn seðlabanki sem gat komið bönkunum til bjargar.

Lárus veltir því líka upp hversu lítil rökræða eigi sér stað um dóma í lögfræðisamfélaginu. Fari umræða ekki fram sé hætta á að kerfið haldi ekki áfram að bæta sig og þróast. Hægt er að taka heilshugar undir þau orð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
13.11.2022

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu
EyjanFastir pennar
07.11.2022

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár
EyjanFastir pennar
09.10.2022

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“
EyjanFastir pennar
02.10.2022

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir
EyjanFastir pennar
28.08.2022

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig
EyjanFastir pennar
27.08.2022

Hjálpum Ara!

Hjálpum Ara!
EyjanFastir pennar
14.08.2022

Björn Jón skrifar: Frá Maraþonsvöllum til Taívan

Björn Jón skrifar: Frá Maraþonsvöllum til Taívan
EyjanFastir pennar
05.08.2022

Offramboðið af löggum og sjálfboðaliðum á Ólympíumótinu – „Can I hold it for you?”

Offramboðið af löggum og sjálfboðaliðum á Ólympíumótinu – „Can I hold it for you?”
EyjanFastir pennar
01.08.2022

Björn Jón skrifar: Stjórnviska öldungsins

Björn Jón skrifar: Stjórnviska öldungsins