fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Tærnar á Tenerife

Eyjan
Sunnudaginn 11. desember 2022 18:00

Mynd/Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birtingarmyndir aukinnar einkaneyslu eru margvíslegar en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði tær á Tenerife að umtalsefni á dögunum í því sambandi en svo virðist sem æði margir birti á samfélagsmiðlum myndir af tám þar sem flatmagað er á bekk við sundlaugarbakka á hinni suðlægu eyju. Ýmsir urðu til að gagnrýna þessi ummæli seðlabankastjóra en í samtali við Vísi í vikunni sem leið sagði hann greinilegt að fólk væri viðkvæmt fyrir þessu. Það breytti því ekki að einkaneyslan ykist hratt, „alveg gríðarlega hratt“. 

Pöhl og tannkremstúpan

Víkjum aftur að tánum og Ásgeiri síðar í pistlinum en sannarlega eru blikur á lofti í efnahagsmálum nágrannaríkja okkar. Þar þarf að fara aftur um fjörutíu ár til að finna viðlíka verðbólgutölur og sjást nú en í sögu peningamála markar árið 1983 þáttaskil — það var þá sem seðlabankar heimsins náðu loks tökum á ástandinu. Karl Otto Pöhl, bankastjóri seðlabanka þýska sambandslýðveldisins (Deutsche Bundesbank), var lykilmaður í baráttunni við dýrtíðina í álfunni með umfangsmiklu samstarfi Evrópuríkja en Pöhl er jafnan álitinn einn af feðrum evrunnar. Hann sagði einhverju sinni að verðbólgan væri eins og tannkrem; þegar það á annað borð spýttist úr túpunni væri illmögulegt að koma því inn í hana aftur. Best væri að því að kreista túpuna ekki um of. (þ. „Inflation ist wie Zahnpasta. Ist sie erst mal heraus aus der Tube, bekommt man sie kaum mehr rein. Das Beste ist, nicht zu fest auf die Tube.“)

Sagan kennir okkur að það getur tekið óratíma að ná böndum á verðbólgu og að það krefst víðtæks samráðs. Seðlabankar geta ekki komið þar einir að málum. Reynslan frá fyrri hluta níunda áratugarins kennir okkur líka að aðgerðir sem virka við að ná tökum á verðbólgu geta reynst sársaukafullar en sem dæmi þá tvöfaldaðist atvinnuleysi á Vesturlöndum í kjölfarið.

Íslenska dýrtíðin

Ég heyri í samtölum manna víðs vegar um bæinn að margir eru með nýútkomnar endurminningar Jóhannesar Nordal á náttborðinu. Hann var seðlabankastjóri frá stofnun bankans 1961 til ársins 1995. Í bókinni segir hann meðal annar frá því þegar tekin var upp ný króna 1. janúar 1981 sem var hundrað sinnum verðmætari en sú gamla. Bankastjórn Seðlabankans trúði því að þessi gjaldmiðilsbreyting hefði jákvæð áhrif á viðhorf almennings til peninga og myndi um leið geta „styrkt stjórnvöld í baráttu við verðbólguna sem tröllriðið hafði þjóðarbúskapnum undanfarin ár“.  Jóhannes rifjar upp í bókinni að Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra hefði í ávarpi sínu á gamlársdag 1980 vitnað til orða Einars Benediktssonar skálds: „vilji er allt sem þarf“ þegar hann kynnti efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar. Jóhannes segir áramótaræðuna hafa á engan hátt uppfyllt vonir sínar um að gjaldmiðilsbreytingin myndi marka tímamót í stjórn efnahagsmála. Næstu misserin geisaði óðaverðbólga. Tólf mánaða hækkun verðbólgu mældist 67% 1. febrúar 1983 og 87% þremur mánuðum síðar.

Þegar þarna var komið sögu höfðu menn um langa hríð búið við sífelldar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags. Slík tilhneiging var síður en svo séríslenskt fyrirbrigði en gekk lengra hér en víðast hvar. Jóhannes telur að upphaf þessarar þróunar megi rekja til stríðsáranna „þegar innstreymi fjár vegna umsvifa hernámsliðsins jók eftirspurn eftir vinnuafli gífurlega á ákveðnum sviðum og olli miklu misræmi í tekjuþróun milli stétta“. Hvað sem því liði þá virtist sem verðbólgan hafi ekki haft veruleg áhrif til aukins ójöfnuðar í tekjuskiptingu eða leitt til mikillar tilfærslu eigna milli stétta. Hér vanti þó ítarlegar rannsóknir.

Þjóðfélag sem „samráðsfélag“

Í tilefni aldarafmælis Alþýðusambandsins 2016 átti ég viðtal við Ásmund Stefánsson, fyrrv. forseta sambandsins, fyrir Reykjavík vikublað. Ég spurði hann hvers vegna svo illa hefði gengið að brjótast út úr þessu mynstri víxlhækkana. Hann sagði það hægara sagt en gert að komast út úr slíkri stöðu og það væri líka reynsla annarra þjóða sem glímt hefðu við svipaðar aðstæður. Það hefði á endanum tekist 1990 með gífurlegu átaki. Grípum niður í samtalið við Ásmund:

„Þjóðarsáttarsamningana unnum við í samstarfi við BSRB, bændur og fleiri og reyndum að selja öllum aðilum hvaða aðgerðir væru nauðsynlegar. Erfitt er að finna sambærilegt dæmi erlendis frá þar sem allir eru svo mjög samstíga um að ná árangri. Það var styrkur Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra að hann fylgdist með álengdar og leyfði aðilum að komast að ásættanlegri niðurstöðu.“

Þessir samningar hefðu ekki bara varðað kaup og kjör heldur líka verðlag. Gert var samkomulag við bankana um að lækka vexti og gengisfellingar stöðvaðar:

„Við gátum því sagt fyrirtækjunum að þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur. Við unnum mjög náið að þessu saman ASÍ og Vinnuveitendasambandið og það var farið mjög nákvæmlega yfir það með fyrirtækjum hvað þau væru að fá út úr þessu. Þessi viðtöl skiluðu árangri. Um sumarið 1990 fór ég um landið og átti fundi með stjórnum verkalýðsfélaganna. Þá fórum við yfir reynslu af samningunum. Skoðanir manna voru eðlilega skiptar en samt var einhugur um að tilraunina yrði að klára.“

Tilraunin heppnaðist og líklega eru þjóðarsáttarsamningarnir gott dæmi á heimsvísu um hvernig megi ná tökum á stöðugri víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Í nýjasta hefti Economist er fjallað um verðbólguna í sögulegu samhengi og þess einmitt getið að baráttan við hana krefjist þess allir leggist á árarnar og til þurfi hugrekki í ríkum mæli.

Sú samstaða sem þarna náðist hefur rofnað og ekki enn tekist að koma á því fyrirkomulagi hér sem er við lýði á hinum Norðurlöndunum að útflutningsgreinarnar móti hversu miklar kauphækkanir verða hverju sinni. Þar liggur vandinn ekkert síður hjá stjórnvöldum en einstökum hópum launafólks og hingað til hefur verulegur misbrestur verið á samstarfi stjórnvalda við lagasetningu. Ásmundur nefndi við mig í áðurnefndu viðtali að kalla mætti hin Norðurlöndin „samráðsfélög“. Þar væri unnin mun breiðari undirbúningsvinna við lagasetningu og aðra stefnumótun en hér tíðkaðist. Hann tók því næst dæmi af sóknarnefnd þar sem uppi væri deila:

„Meirihlutinn hellir sér yfir einn sóknarnefndarmanninn sem verður undir. Afleiðingin er sú að það verður ekkert með kaffinu eftir næstu messu, því viðkomandi sá um baksturinn. Við verðum að byggja á samstöðunni og allir eiga að vera með.“

Aftur að tánum

En aftur að tánum á Tenerife. Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður Vísis, gat þess í frétt sl. þriðjudag að á sama tíma og öll spjót stóðu að seðlabankastjóra vegna hækkunar stýrivaxta hefðu sendibifreiðastjórar ekið „mublum og fíneríi í stórum stíl inn í Seðlabankann“. Jakob hafði rætt við sendibifreiðastjóra sem fannst skjóta skökku við að seðlabankastjórinn gagnrýndi almenning fyrir óhóf meðan verið væri að innrétta kontóra bankans fyrir milljónir á milljónir ofan. Í fréttinni kom enn fremur fram að breytingarnar hefðu kostað meira en ellefuhundruð milljónir króna. Eftir væri að ráðast í framkvæmdir við viðbyggingu sem ætlað er að muni kosta yfir nítjánhundruð milljónir. (Við vitum hvernig slíkar áætlanir enda.)

Þrír milljarðar eru miklir fjármunir. Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur SA, benti á það í færslu við frétt Jakobs Bjarnar á Twitter að þetta samsvaraði „uppihaldi íslenskra Tenetása í tæpan mánuð eða svo“. Kannski er orðið tímabært að íslenskir ráðamenn líti sér nær?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund