fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Eyjan

Áfram deilt um umdeild áform um auglýsingaskilti við Klambratún – „Hættið þessari vitleysu“

Eyjan
Fimmtudaginn 1. desember 2022 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur verið rætt um auglýsingaskilti sem til stendur að koma upp við Klambratún, vestan megin Lönguhlíðar og sunnan við gatnamót að Bólstaðarhlíð, en erindið var fyrst lagt fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa fyrir rétt tæpu ári síðan. Þrátt fyrir mikinn fjölda mótmæla íbúa á svæðinu eftir grenndarkynningu var ákveðið að halda þessum áformum til streitu og vísaði borgin áhyggjum sem íbúar hafa á bug.

Um er að ræða skilti sem áður var staðfest á horni Flókagötu og Lönguhlíðar. Borgin hefur vísað til þess að samkvæmt rekstrarsamningi við fyrirtækið Dengsa ehf. – sem sér um rekstur strætóskýla í borginni – þurfi borgin að verða við því að koma skiltinu upp á nýjum stað, jafnvel þó að auglýsingaskilti hafi nýlega verið bætt á strætóskýli á sama svæði.

Skiltið samþykkt þrátt fyrir mótmæli

Þrátt fyrir mikla gagnrýni og fjölda athugasemda samþykkti Umhverfis- og skipulagsráð á fundi sínum í október að vísa skiltinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri Grænna greiddu atkvæði á móti tillögunni. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram bókun þar sem segir að um sé að ræða skilti sem koma beri upp því færa þurfti skilti við Flókagötu vegna breytinga á innkeyrslu og hafi rekstraraðili skiltanna viss réttindi samkvæmt rekstrarsamningi við borgina. Rask af skiltinu hljóti að teljast takmarkað.

Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks lagði einnig fram bókun að miðað við athugasemdir sem bárust sé mögulegt að kynning á málinu hafi verið ábótavant og ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirra áhrifa sem fólk telji að skilti á þessum stað hafi á Klambratún.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði einnig fram bókun að ljósaskilti og auglýsingaskilti almennt hafi mikil áhrif á útlit hverfa og spurning væri hvort hægt væri að hafa reynslutíma á skiltinu því annars væri hætt við að það yrði þarna að eilífu þrátt fyrir óánægju.

Í kjölfarið af afgreiðslunni sendi borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins fyrirspurn á Umhverfis- og skipulagsráð um skiltið.  Í svarinu kemur fram að rekstraraðili skiltisins sé Dengsi ehf sem sé rekstraraðili strætóskýla í gegnum samning um götugögn í Reykjavík. Því fyrirtæki sé heimilt að afla tekna gegn rekstri að lágmarki 210 skýla í borginni með allt að 50 auglýsingastöndum. Tekið var fyrir að farið hafi verið framhjá íbúðasamráði og grenndarkynning hafi uppfyllt öll skilyrði sem slík kynning þarf að uppfylla. Aðeins þurfi að kynna þeim nágrönnum sem talið sé að gætu átt hagsmuna að gæta.  Um sé að ræða auglýsingaskilti sem áður var staðsett á horni Flókagötu og Lönguhlíðar.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna og íbúi í Hlíðum, sagði í samtali við mbl.is í október að hann hafi hitt forsvarsmenn Dengsa á stuttum fundi og þeir þar lofað að þeir væru að ræða við borgina um aðra staðsetningu.

Um skiltið var rætt á fundi Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða þann 24. nóvember, en íbúðaráðið mælti með því að borgin tæki tillit til athugasemda, en þar sem allar athugasemdir íbúa innihéldu mótmæli gegn skiltinu verður að skilja afgreiðslu íbúaráðs svo að lagst sé gegn framkvæmdinni.

Hörð mótmæli íbúa

Athugasemdir íbúa, sem áður hefur verið fjallað um, voru fjölmargar og eru hér tekin saman nokkur dæmi úr erindum sem bárust.

„Hér er um mjög mikla ljósmengun að ræða og sérstaklega þar sem bakgrunnur skiltisins er almenningsgarður með lítilli lýsingu og því mun meiri truflun af skiltinu en ef bakgrunnurinn væri meira upplýstur. Mér finnst einnig að staðsetning skiltisins sé mjög ósmekkleg, hér er engin önnur verslunarstarfsemi heldur en skiltið staðsett í jaðri garðs þar sem fjölskyldufólk fer til að eiga góða stund en ekki til að verða fyrir áreiti af auglýsingastarfsemi“ – Íbúi í Lönguhlíð. 

„Sjónræn mengun yrði afgerandi úr gluggum hjá mér. Klambratún er útivistarsvæði með fallegum gróðri og auglýsingaskilti við inngan í garðinn er í hróplegri andstöðu við allt umhverfið og þá fúnksjón sem garðar í borg hafa. […] Eitt eru gönguljós sem eru nytsamleg en auglýsingaskilti hefur hvorki tilgang né notagildi fyrir íbúana“ – Íbúi í Lönguhlíð. 

„Þetta er glæfraleg stefna og aðför að rétti íbúa til að njóta frelsis til að geta hreyft sig og notið útivistar í borgarumhverfinu án þess að verða fyrir áhrifum auglýsingaskilta, hvort sem það er bein ljósmengun og truflun á sjónlínu eða þeim áhrifum sem sífelldar auglýsingar og upphafning neyslumenningar hefur á andlega heilsu íbúa.“ – Íbúi í Barmahlíð

Einn íbúi bendir á að samkvæmt samþykkt um skilti í Reykjavík segi að fjölda slíkra skuli haldið í lágmarki í götumynd Reykjavíkur og sérstök áhersla skuli lögð á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna. Ekki sé hægt að sjá að þrjú skilti á um 200 metra löngum kafla samræmist því markmiði, en tvö skilti séu nú þegar á strætóskýlum á svæðinu. 

„Ég mótmæli Harðlega,“ – Íbúi á svæðinu

„Ólíðandi og ástæðulaust að koma slíku skilti fyrir í miðju íbúðahverfi og við grænt svæði“ – Íbúi í Hlíðum 

„Hættið þessari vitleysu,“ – Íbúi á svæðinu 

„Auglýsingaskilti þeta á ekkert erindi á þetta svæði og sætir það furðu að embættismenn skuli láta sér til hugar koma, yfirleitt að spyrja um hvort megi setja slíkt upp, því að uppsetningin er í ósamræmi við þær reglur sem þegar hafa verið settar. Verður því að spyrja hvort umræddur viðskiptaaðili hafi beitt embættismenn einhverjum þrýstingi til að fá þetta í gegn? Sérstaklega er óskað eftir svari við þessari fyrirspurn innan lögboðins tíma. Fyrir hvern og til hvers?“- Húsfélag í Lönguhlíð. 

Gera alvarlegar athugasemdir við framkvæmd grenndarkynningar

Breki Karlsson skilaði ítarlegri umsögn þar sem segir að skiltið muni verða til ama og óþæginda og skerða upplifun íbúa og gesta Klambratúns. Eins geti skiltið ógnað öryggi ökumanna og dregið úr umferðaröryggi. Eins er sett út á að ekkert komi fram um hver hafi sótt um uppsetningu skiltisins eða hver séu rökin fyrir þörfinni á slíku skilti.

„Við undirrituð höfnum því að vera neydd til neyslu auglýsinga í hvert sinn er okkur er litið út um glugga heimilis okkar og leggjumst því eindregið og af fullum þunga gegn tillögu um uppsetningu enn eins auglýsingaskiltis við Lönguhlíð.“ 

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, skrifaði umsögn fyrir hönd húsfélags á Miklubraut þar sem skiltinu er mótmælt.

„Sérstaklega er fundið að því að ekki sé litið á okkur sem „hagsmunaaðila“ og því hafi ekki verið sent formlegt erindi í okkar hús. Það er því fyrir tilviljun sem við rekumst á umfjöllun um þetta skemmdarverk, örstuttu áður en frestur til að senda inn athugasemdir rennur út. […] Okkar afstaða er sú að allir íbúar í nærhverfinu séu hagsmunaaðilar í þessum máli og raunar borgarbúar allir því þarna er þrengt að almannarými með sjóntruflandi áreiti sem ekkert erindi á í grennd við almenningsgarð. Slíka garða á ekki að auglýsingavæði og vekur furðu að slíkt komi yfirleitt til álita af borgaryfirvöldum sem hafa til þessa kynnt sig sem fulltrúa sem vilja bæta vistvæna ímynd borgarinnar“ 

Í umsögninni segir að það veki einnig grunsemdir um óheilindi og annarlega hagsmuni þegar mál á borð við þetta sé „keyrt framhjá hverfaskipulagsvinnu sem nú stendur yfir. Hví er þetta ekki hluti af því ferli?“

Eins og áður segir þá lét meirihlutinn í borginni sér athugasemdir íbúa í léttu rúmi liggja og keyrði í gegn samþykkt á uppsetningu skiltisins. Nú hefur íbúaráð lagst gegn þessari framkvæmd og enn er óljóst hvort að rekstraraðilinn, Dengsi ehf., nái í viðræðum við borgina að finna skiltinu aðra staðsetningu.

Í svari umhverfis- og skipulagsráðs við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalista segir að við ákvörðun um staðsetningar auglýsingastanda sé það verktakinn sem leggi fram ósk um staðsetningu sem sé metin með tilliti til borgarhönnunar og umferðaröryggis. Þar sem vinnu við hverfaskipulag sé ekki lokið gildi hinar mismunandi deiliskipulagsáætlanir á svæðinu nálægt Klambratúni og í þessu tilfelli sé ekki í gildi neitt deiliskipulag fyrir Klambratún og því hafi verið lagt til að grenndarkynna skiltið þó mögulega hafi jafnvel engin þörf verið á því.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til
Eyjan
Fyrir 3 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“