fbpx
Sunnudagur 29.maí 2022
EyjanFastir pennar

Heimir skrifar: Eilífðarneyð og úlfahróp

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 19. janúar 2022 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er í gildi neyðarstig Almannavarna. Fyrir forvitna er neyðarstig skilgreint svona:

Neyðarstig einkennist af atburði sem valdið hefur slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum. Verkefni á þessu stigi einkennast af tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar og viðleitni til að afstýra fleiri slysum og varna frekara tjóni.

Neyðarstig almannavarna er ekki oft notað. Síðast var gripið til þess í kjölfar aurskriðanna á Seyðisfirði. Ráðherrar heimsóttu síðar bæinn og þúsundir landsmanna (og fjölmargir utan landsteinanna) buðust til þess að hýsa Austfirðinga sem flýja urðu heimili sín. Þjóðin kom saman á tímum neyðar og leysti þannig úr henni. Neyðarstiginu var aflétt eftir tvo daga.

Síðasta neyðarstig þar áður var vegna snjóflóða sem féllu á hús á Flateyri og í Súgandafjörð. Það varði í einn dag.

Eðli og skilgreining neyðar er tímabundið ástand þar sem mikil hætta stafar af einhverju (eða einhverjum) sem ekki var hægt að sjá fyrir þannig að fyrirbyggja mætti tjón eða hættu á tjóni af ástandinu. Vont veður sem allir sáu fyrir og gerðu ráðstafanir vegna, verður tæplega sagt neyðarástand. 15 þúsund fullir unglingar í Herjólfsdal í appelsínugulri viðvörun sem enginn sá fyrir… það er neyð. Þannig skiptir fyrirsjáanleikinn máli.

Og svo var þetta með tímabundna ástandið. Á einhverjum tímapunkti hættir neyðarástand að vera neyðarástand, jafnvel þó eðli ástandsins breytist ekki. Á einhverjum tímapunkti hlýtur það sem enginn gat séð fyrir og gert ráðstafanir vegna, að verða að einhverju sem allir þekkja og kunna að eiga við. Eldgos í Fagradalsfjalli breyttist úr vettvangi viðbragðsaðila í gjaldskylt bílastæði á met tíma.

Neyðarástand verður að ástandi og svo loks að nýjum raunveruleika.

Þá er það þannig með neyðarástandið, að orðið þarf að passa tilefninu. Það má ekki bara einum finnast ástandið neyð, eða tveimur. Ástandið sem orðið lýsir verður að vera þannig að almenn samstaða sé um að hlutir séu þannig vaxnir að þeir réttlæti mikið tilstand og viðbragð.

Ef Veðurstofan myndi, til dæmis, nota rauðar viðvaranir við lægðaskít sem hún í dag slengir appelsínugulum á, og appelsínugulum á það sem hingað til hefur verið sagt gult myndu færri bregðast rétt við rauðum viðvörunum, enn færri appelsínugulum og hlegið að gulri. Þetta veit Veðurstofan sjálf, en þegar hún var spurð eftir eina lægðina sem olli látum á Suðurströndinni af hverju lægðin fékk ekki appelsínugulan stimpil í stað guls, sagðist hún vera að spara stóru orðin. Ekkert úlfur-úlfur vesen á þeim bænum.

Í tvö ár, með hléum þó, hefur neyðarástand staðið yfir á Íslandi vegna Covid. Raunveruleikinn er auðvitað sá að hér er engin neyð og fráleitt að flokka Covid ástandið hérna með mannskæðu flugslysi, eldgosi í þéttbýli eða skriðum á Austfjörðum.

Hið íslenska Covid er neyðarástandið sem varð aldrei að ástandi. Úlfurinn er alltaf á leiðinni.

Orðið neyð hefur nú, af almannavörnum sjálfum, verið útþynnt með slíkum yfirgengilegum látum og yfirgangi að trú og traust til stofnana sem eitt sinn nutu algjörs trausts er rúið með nær óafturkræfum hætti.

Yfir eitt þúsund manns greinast nú á hverjum degi með Covid. Í gær sagði RUV frá því að einn af átta þúsund sem eru í eftirliti Covid göngudeildarinnar væri rauðmerktur. Að vera rauðmerktur þýðir að það þurfi kannski að leggja þig inn. Núll komma núll eitt prósent. 0.01%. Kannski.

Þeim sem liggja inni á Landspítalanum með Covid fækkaði í gær. Fóru úr 46 í fyrradag í 39 í gær. Færri en í svínaflensunni 2009. Þrír voru í gær á gjörgæslu. Sjö daginn áður.

Landspítalinn, sjálfur á endalausum neyðarstigum vegna innlagnafjölda sem sæmilegt fjórðungssjúkrahús ætti að þola, kallaði svo eftir því í gærkvöldi að endurskoða þyrfti sóttvarnaraðgerðir, enda innlagnartíðni af völdum Covid komin niður í 0.25%. Sagði yfirmaður Covid göngudeildar Runólfur Pálsson þá jafnframt að fækka mætti starfsmönnum á hvern Covid sjúkling, enda veikindin vægari.

Sænska ríkisstjórnin ræddi í dag að hætta öllum aðgerðum á landamærunum. Spánverjar vilja nú líta á faraldurinn sem flensu. Hollendingar mótmæla lokunum af hörku, sem þó eru minni en hér.

Á sama tíma og önnur lönd slaka á aðgerðum sitjum við eftir í sóttvarnaparadísinni með 10 manna samkomutakmarkanir og N95 grímu á hverju smetti án þess þó að merkja megi neina breytingu á tölfræðinni. Undralyf Þórólfs við Covid: Samfélagsleg handbremsa, er hætt að bíta á pestina.

Nú er mál að linni. Nú er tíminn.

Hið meinta neyðarástand er ekki tímabundið. Það er ekki ófyrirsjáanlegt. Og það er engin samstaða um hvort og hvernig bregðast eigi við. Þetta er ekkert neyðarástand.

Hættum þessu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum
Framtíð menntunar

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
24.04.2022

Björn Jón skrifar – Harðstjórnarríki rauða aðalsins

Björn Jón skrifar – Harðstjórnarríki rauða aðalsins
Aðsendar greinarFastir pennar
20.04.2022
Alls ekki tala um Bjarna
EyjanFastir pennar
15.04.2022

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni
Aðsendar greinarFastir pennar
13.04.2022

Öfgar skrifa: Leiðbeiningar að þolendavænni orðræðu fjórða valdsins

Öfgar skrifa: Leiðbeiningar að þolendavænni orðræðu fjórða valdsins
EyjanFastir pennar
27.03.2022

Björn Jón skrifar: Ríkið í ríkinu

Björn Jón skrifar: Ríkið í ríkinu
EyjanFastir pennar
22.03.2022

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík
EyjanFastir pennar
26.02.2022

Pútín og Úkraína – Aumingjaskapur Vesturlanda – Hvaða land er næst?

Pútín og Úkraína – Aumingjaskapur Vesturlanda – Hvaða land er næst?
EyjanFastir pennar
19.02.2022

Heimir skrifar: Olnbogabarn íslenskra stjórnmála

Heimir skrifar: Olnbogabarn íslenskra stjórnmála
EyjanFastir pennar
26.01.2022

Heimir skrifar: Nei Willum, nei Katrín, nei Bjarni – Þið fáið engin prik fyrir sjálfsagðar afléttingar

Heimir skrifar: Nei Willum, nei Katrín, nei Bjarni – Þið fáið engin prik fyrir sjálfsagðar afléttingar
EyjanFastir pennar
24.01.2022

Heimir skrifar: Allir vinna, nema þeir sem tapa – Raunasaga skattpínds fasteignaeiganda

Heimir skrifar: Allir vinna, nema þeir sem tapa – Raunasaga skattpínds fasteignaeiganda