fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Björn Leví mætti með Útvegsspilið í pontu – „Við þurfum ekki að endurútgefa þetta spil“

Eyjan
Þriðjudaginn 22. febrúar 2022 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur áratugum saman verið í tísku hér á landi að hafa skoðun á kvótakerfinu og nú sem aldrei fyrr en rætt um kerfið í pönnukökuboðum eftir að þættirnir Verbúðin voru sýndir á RÚV við gífurlegar vinsældir landsmanna.

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp þar sem meðal annars lagt er til að heimilt verði að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði sem og að tekin verði upp aflamarksstjórn á sæbjúgum.

Líklega hljómar ofangreind málsgrein ekkert sérlega spennandi, svona fyrir flesta. Raunar hefur blaðamaður heyrt frá áreiðanlegum heimildum að sumum nemendum í laganámi hafi fátt þótt leiðinlegra en að læra um kvótakerfið. Líklega hefur þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, áttað sig á því að það eiga ekki allir auðvelt með að halda athygli þegar rætt er um aflahlutdeild, aflamörk, aflaráðgjöf og jafnvel sæbjúgu.

Því ákvað hann að taka með sér eitt eftirsóttasta spil í sögu landsins, Útvegsspilið sjálft, sem nýlega var endurútgefið við miklar vinsældir landsmanna. Reyndar í ljósi þess hversu vinsælt Útvegsspilið er og var, sem og þættirnir Verbúðin, mætti halda að kvótatengd mál eigi hug okkar allra og hjarta. Það er kannski viðskiptahugmynd þar fyrir einhverja?

Framkvæmdin önnur

Björn Leví steig í pontu vopnaður Útvegsspilinu og rifjaði upp 1. gr. laga um stjórn fiskveiða:

  1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Þrátt fyrir skýrt orðalag ákvæðisins segir Björn að nú sé líklega flestum orðið ljóst að framkvæmdin sé önnur. Björn sagði í ræðu sinni:

„Nú var það tuggið ansi vel ofan í okkur í sjónvarpsseríu hérna á liðnum vikum að framkvæmdin væri samt ekki svona. Framkvæmdin væri að það væri eignarhald. Það væri fast eignarhald. Hvað sem að stendur í lögunum. Og það hefur enginn í raun látið á það reyna hvort svo sé eða ekki.“ 

Birni þykir merkilegt að nú sé verið að ræða að bæta fleiri tegundum við kvótakerfið þegar á sama tíma sé búið að boða breytingar á því sem eigi að kynna í lok viku.

Sífellt sé verið að ræða að skapa sátt um kvótakerfið. Björn telur það ekki réttu leiðina. Betra sé að gera kerfið sanngjarnt.

„Það er lykilatriðið því ef við höfum það á tilfinningunni að það sé sanngjarnt kerfi þá er sjálfkrafa sátt um það. Tilfinningin núna er ekki að þetta sé sanngjarnt kerfi. Langt í frá.“

Eldra en kvótakerfið

Björn dró þá fram Útvegsspilið, enda áhorfendur orðnir spenntir að vita hvaða tilgangi spilið ætti að þjóna í ræðunni.

„Í þessu tilefni þá er þetta hérna æðislega spil, Útvegsspilið,sem er nefnt hérna óviðjafnanlegt fræðslu og skemmtispil. Þetta er endurútgáfa af spilinu frá 1977. Ég er einu ári eldri en þetta spil. Það er orðið ansi gamalt. Sem að er annað sem er merkilegt við þetta er það er einmitt eldra heldur en kvótakerfið“ 

Svo opnaði Björn kassann utan af spilinu og sýndi viðstöddum og áhorfendum heima hvað í kassanum mætti finna. Það var þó leiðbeiningabæklingurinn sem Björn ætlaði að vísa í í ræðu sinni. Þar komi fram að þeir sem spila Útvegsspilið geti ákveðið hvernig spilinu ljúki. Tillögur sem eru nefndar eru tiltekin tímamörk, svo sem klukkustund – eða þegar bankinn er tómur.

„Mér finnst það mjög áhugavert í ljósi sögunnar með þessa gömlu góðu bankana -Útvegsbankinn og svoleiðis – tæmdist hann ekki einmitt? Spiluðum við ekki of lengi í þessu kerfi. Er ekki einmitt það ekki vandamálið sem við erum að glíma við?“ 

Veltir Björn því fyrir sér hvort við séum ekki búin að spila Útvegsspilið of lengi og bankinn löngu orðinn tómur. Þess vegna vill Björn ekki sjá breytingar á núverandi kvótakerfi þannig að hægt sé að skapa meinta sátt um það.

„Við þurfum ekki að endurútgefa þetta spil. Við þurfum ekki að endurútgefa kvótakerfið. Við þurfum að gera nýtt.“ 

Ræða Björns hófst klukkan 15:00 og má finna hana í spilaranum hér að neðan. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gagnrýnir skuldaaukningu Hafnarfjarðarbæjar – „Lántökur aukast umtalsvert milli ára“

Gagnrýnir skuldaaukningu Hafnarfjarðarbæjar – „Lántökur aukast umtalsvert milli ára“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta hafði þjóðin að segja um kappræður forsetaframbjóðendanna sex – „Er ekki best að allir 12 frambjóðendur fái einn mánuð á ári í embætti?“

Þetta hafði þjóðin að segja um kappræður forsetaframbjóðendanna sex – „Er ekki best að allir 12 frambjóðendur fái einn mánuð á ári í embætti?“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Sömu gildi og byggðu upp Ísland eru lykillinn að framtíðinni

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Sömu gildi og byggðu upp Ísland eru lykillinn að framtíðinni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Áhugafólk um okur á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Áhugafólk um okur á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagur hlessa á Guðlaugi Þór – Hafi nú tekið skoðun Dags upp á sína arma sem hann hafi skammast yfir lengi

Dagur hlessa á Guðlaugi Þór – Hafi nú tekið skoðun Dags upp á sína arma sem hann hafi skammast yfir lengi