fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Jón Baldvin með atlögu að Íslandsmeti í óheppni – Stöðvaður af lögreglu fyrir framan ritstjórn DV

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 8. desember 2021 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rétt fyrir kl.13 í dag, miðvikudaginn 8. desember var gerð strangheiðarleg atlaga að Íslandsmeti í óheppni. Áskorandinn var enginn annar en Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, en dyggur aðstoðarmaður hans við atlöguna var Bryndís Schram, eiginkona hans.

Íslandsmetið í óheppni er þó aðeins sólarhrings gamalt en það á ónefndur blaðamaður á DV, Erla Dóra Magnúsdóttir, sem að hafði fengið yfir sig holskeflu slæmra tíðinda í gær og ákvað að leyfa sér kolsýrðan drykk í ískaldri dós í lok vinnudagsins. Sú dós beinlínis sprakk með miklum hvelli þegar hún var opnuð og slasaði Erlu Dóru á fingri. Þetta er ekki grín.

Ólíklegt að rekast á blaðamann á vappi

Á þessum síðustu og verstu tímum er blaðamannsstarfið orðið hálfgert kyrrsetustarf. Flestar nauðsynlegar upplýsingar eru aðgengilegar á internetinu og síðan hjálpar yfirleitt símtækið til þess að ná viðbrögðum eða viðtölum við einstaklinga. Á fjölmiðlum dagsins í dag eru það helst ljósmyndararnir sem eru á ferð og flugi um alla borg en blaðamennirnir matreiða svo fréttirnar fyrir framan tölvuskjá. Það er því frekar ólíklegt að rekast á blaðamann á vappi á vinnutíma.

Vissulega koma af og til upp mál þar sem nauðsynlegt er að mæta á staðinn en þó geta liðið heilu vikurnar án þess að blaðamenn fari út úr húsi í fréttaleit. Helst er farið út undir bert loft til að kaupa sér eitthvað í svanginn.

Eins og alþjóð hefur ekki hugmynd um eru höfuðstöðvar DV staðsettar við Kalkofnsveg 2 í miðbænum. Á hæðinni fyrir ofan H&M, beint á móti Arnarhól. Þar fyrir neðan eru nokkuð fjölfarin gatnamót yfir Lækjargötu og því vakti það nokkra athygli gangandi vegfarenda þegar sírenuljós fóru í gang á gatnamótunum og lögreglumaður rauk út til þess að hafa tal af bílstjóra einum sem að neyddist til að stöðva bíl sinn á versta stað. Beint fyrir framan áðurnefnda fataverslun.

„Bíddu, eru þetta ekki Jón Baldvin og Bryndís“

Bryndís og Jón Baldvin stóðu í ströngu

Akkúrat á þessu augnabliki vildi þannig til að í hópi gangandi vegfarenda á þessum gatnamótum voru fjórir ritstjórnarmeðlimir DV sem voru á leið uppá skrifstofuna eftir velheppnaðan hádegismat. Þar sem allir tölvuskjásblaðamenn þrá svolítið að treysta á eigin skynfæri frekar en skynfæri sjónvarvotta þá fylgdust fjórmenningarnir að sjálfsögðu grannt með því sem þarna fór fram.

Sá fremsti í röðinni rétt náði að muldra: „Bíddu, eru þetta ekki Jón Baldvin og Bryndís“.  Aðrir ritstjórnarmeðlimir voru sneggri að hugsa og skyndilega voru þrír símar með myndavélum komnir á loft til að skrásetja atburðinn kyrfilega.

Lögreglumaðurinn ræddi drjúga stund við Jón Baldvin og Bryndísi

Að mati nefndarinnar, sem reyndar enginn veit hvernig er skipuð, hlýtur það því að vera heiðarleg atlaga að Íslandsmeti í óheppni að þjóðþekktur maður, eins og Jón Baldvin, sé stöðvaður af sírenublikkandi lögreglunni tveimur metrum fyrir framan hálfa ritstjórn DV.

Fyrir hvað ráðherrann fyrrverandi var stöðvaður liggur ekki fyrir á þessari stundu. Viðræður hans við lögregluna tóku þó talsverðan tíma og hann þurfti að framvísa skilríkjum eins og von er. Hvort að hann var sektaður fyrir eitthvað umferðarlagabrot er ekki ljóst en ef svo var þá var brotið fremur léttvægt.

Skýringarmynd af ritstjórn DV (þó aðeins betur klædd) um það leyti sem Jón Baldvin var stöðvaður 2 metrum frá.

Eina sem ritstjórnarsjónarvottarnir geta staðfest um var að Jón Baldvin og loðdýrasveipuð Bryndís áttu í rökræðum við lögreglumanninn í drjúga stund en fengu síðan að halda leiðar sinnar. Þau eru samt eflaust enn að velta fyrir sér hvaða þrír þrjótar það voru sem rifu upp myndavélarnar á gangbrautinni. Það útskýrist hér með.

Ekki náðist í Jón Baldvin við ritun þessa pistils enda var það ekki reynt. Greinin verður uppfærð ef hann sendir okkur skammir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund