„Af hverju er ekki gert meira núna fyrst stjórnarliðar tala um að gera meira? Af hverju?“ spyr Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Facebook í dag og leggur fram sjö spurningar til stjórnarmeirihlutans, um af hverju kosið var gegn tilteknum tillögum stjórnarandstöðunnar, ef það var ætlun stjórnvalda að gera meira heldur en minna til að bregðast við áhrifum Covid-19.
„Þetta eru allt tillögur sem auðvelt hefði verið að samþykkja og hefðu ekki sett neitt á hliðina. Þvert á móti eru þetta tillögur sem eru bráðnauðsynlegar núna, ekki síst í ljósi þess að aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar er allt að helmingi lægri en hjá nágrannaþjóðum okkar,“
segir Ágúst og spyr:
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögum um sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks í heilbrigðis- og félagsþjónustu vegna umönnunar Covid-smitaðra sjúklinga?
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögu um aukinn stuðning við fjölskyldur langveikra barna sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna faraldursins?
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn eingreiðslu til eldri borgara eins og öryrkjar fá?
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögu um aukna fjármuni til nýsköpunar, listafólks og íþróttastarfs en sú starfsemi er lömuð vegna faraldursins?
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögum um frekari flýtingu mannaflsfrekra framkvæmda. s.s. við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, Akureyrarflugvöll og á höfuðborgarsvæðinu?
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn tillögum um aukið fé til fatlaðs fólks, fólks á leigumarkaði og SÁÁ en tekjur þeirra hafa hrunið vegna faraldursins?
- Af hverju kusu stjórnarþingmenn gegn lækkun tryggingargjalds á lítil fyrirtæki og gegn auknu fé til hjúkrunarrýma?
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki samráð við sig um aðgerðirnar gegn Covid-19 og virðast í sárum yfir því að engar tillögur þeirra hafi verið samþykktar.