fbpx
Mánudagur 25.maí 2020
Eyjan

Yfirheyrslan – Helga Vala Helgadóttir: „Eigið hik stoppar oft besta fólk í að gera frábæra hluti“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 30. mars 2019 16:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir er alþingismaður Samfylkingarinnar og hefur setið á þingi síðan árið 2017. Hún er dóttir hinna ástsælu leikara Helgu Bachmann og Helga Skúlasonar. Helga Vala er lærð leikkona og lögfræðingur og fékk lögmannsréttindi árið 2011.

DV tók Helgu Völu í yfirheyrslu.

Hjúskaparstaða og börn

Ég er gift Grími Atlasyni og börnin eru Snærós, Emil, Ásta Júlía og Arnaldur. Svo er ég komin með barnabörnin Urði Völu og Tíbrá, Freyju og Kára. Jáh, ég er sko rík.

Fyrsta atvinnan

Fyrsta starfið mitt var í litlu hlutverki Antigónu í leikritinu Ödipus konungur í Þjóðleikhúsinu. Ég var fimm ára og þetta var mikið ævintýri.

Skemmtilegast að gera?

Mér finnst skemmtilegast að vera með fólkinu mínu og vinum, á einhverjum þvælingi innan- sem utanlands. Mér finnst líka ofsalega skemmtilegt að halda matarboð, en af því geri ég því miður allt allt of lítið.

En leiðinlegast?

Ganga frá hreina þvottinum.

Spilar þú á hljóðfæri?

Í raun ekki, en þar sem ég er leikkona þá hef ég leikið tónlistarmann uppi á sviði á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Ég var vissulega með bassann í höndunum og lék þær nótur sem mér var ætlað … en ég get samt ekki sagt að ég spili á hljóðfæri.

Trúir þú á drauga?

Drauga? Tjah … svona í hvítu laki? Nei, en ég trúi að það taki eitthvað við eftir þetta líf.

Besta ráð sem þú hefur fengið?

Mamma og pabbi voru dugleg að segja mér að ég gæti allt sem ég vildi, ég þyrfti bara að fara í málin. Það hefur reynst mér mjög vel, enda stoppar eigið hik oft besta fólk í að gera frábæra hluti.

Leiðinlegasta bók sem þú hefur lesið?

Þær eru margar en sem betur fer eru þær miklu fleiri sem eru skemmtilegar. Ég nenni yfirleitt ekki að klára leiðinlegar bækur og alls ekki muna eftir þeim.

Fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem þú kaust?

Kaus fyrst Reykjavíkurlistann í borgarstjórnarkosningunum 1994.

Hver myndi leika þig í kvikmynd?

Ég var einu sinni staðgengill fyrir Örn Árnason, í kvikmyndinni Stikkfrí, svo mig langar mest að nefna hann, en svo fékk hin frábæra leikkona Katla Margrét Þorgeirsdóttir það verkefni að leika mig í Skaupinu svo ég bara panta hana!

Hefur þú fallið á prófi?

Já, oft, meira hér í denn. Skulum orða það þannig að ég hafi tekið það misjafnlega nærri mér.

Ertu dýravinur?

Ég er kisukona, kann mjög vel við sjálfstæði þeirra.

Ferðu seint eða snemma að sofa á kvöldin?

Ég fer yfirleitt snemma að sofa, ég er algjör A-manneskja, eiginlega AAA.

Mannkostir þínir?

Ég er bjartsýn að eðlisfari, hefur stundum verið sagt að ég hafi fæðst undir sól, mér þykir lífið yfirleitt bara skemmtilegt. Svo er ég dugleg, held að það sé kostur.

En lestir?

Ég er með frestunaráráttu svo ég fer oft í hlutina algerlega á síðustu stundu. Nenni lítið að skipuleggja mig fram í tímann og svo er ég mjög kröfuhörð á sjálfa mig og aðra. Svo er ég dugleg, held það sé löstur.

Best að vera leikari, lögmaður eða þingmaður?

Mér hefur gagnast mjög vel að vera leikkona í lögmennsku og þingmennsku, mér hefur gagnast vel að vera lögmaður í þingmennskunni og klárlega mun það gagnast mér vel að hafa verið þingmaður og lögmaður í leiklistinni, næst þegar ég fer þangað. Þetta hefur allt sína kosti og galla.

Fyrsti bíllinn?
Daihatsu Charade, 1982 módel. Hann gekk fyrir eigin vilja og meðaumkun með mér, fátækum námsmanninum.

Eitthvað að lokum?

Lífið er eins og hlaðborð, ef þú borðar alltaf sama réttinn þá missir þú af ótalmörgu spennandi og öðru minna spennandi. Ögraðu vitsmunum þínum og getu, það er magnað hvað kemur í ljós.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af