fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Yfirdrifin öryggisgæsla, vopnaskak og lokanir í kringum Pence varaforseta

Egill Helgason
Miðvikudaginn 4. september 2019 10:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég birti um daginn myndir og frásögn frá því Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, kom til Íslands. Það var árið 1963, skömmu fyrir morðið á Kennedy sem varð til þess að Johnson tók við forsetaembætti. Johnson var mjög frjálslegur, tók við plaggi frá mótmælendum, klifraði upp á grindverkið við Stjórnarráðið til að ávarpa mannfjölda sem hafði safnast saman.

Johnson var reyndar óendanlega heillandi stjórnmálamaður, margbrotinn náungi, gat verið tuddi og klækjarefur, en líka sjarmatröll – hann kom stórum umbótamálum í gegn á forsetatíð sinni en hið misráðna Vietnamstríð varð honum að falli.

Það er tímanna tákn að nú þegar Mike Pence, núverandi varaforseti Bandaríkjanna, sækir Reykjavík heim skuli stórum umferðargötum lokað stóran hluta dags. Vegna þessa má búast við umferðaröngþveiti, og er varla á það bætandi. Fólk mun eiga í erfiðleikum með að komast í vinnu, sækja börn sín í skóla, fara erinda sinna. Ég hitti konu sem sagðist hafa hætt við að fara í sjúkraþjálfun í Borgartúni út af þessu.

Auðvitað er sjálfsagt að gæta fyllsta öryggis þegar slíkir valdamenn eiga í hlut – en fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Maður hefur á tilfinningunni að öryggisgæslan og vopnaskakið sé meira en þegar sjálfir heimsleiðtogarnir Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða fyrir 33 árum.

Bandaríkjamenn eru auðvitað haldnir skæðu löggæslu- og vopnablæti sem aldrei fyrr. Þetta hófst með 11/9 og óttanum við hryðjuverk sem þá var magnaður upp. Að miklu leyti er þetta ástæðulaust, því Bandaríkin hafa sjaldan verið óhultari gegn utanaðkomandi ógn. Hætturnar sem steðja að því samfélagi koma að mestu innanfrá – og stafa meðal annars af áðurnefndu vopnablæti. Þannig renna vandinn og lausnin eiginlega saman.

Bandaríkjamenn eyða sívaxandi fjárhæðum í öll þessi öryggismál. Það er sagt að nokkur hundruð manns ferðist með Pence, heill her manna, fyrir utan viðbúnað á Keflavíkurflugvelli sem felur í sér komu fimm herflugvéla. Mann verkjar eiginlega í budduna fyrir hönd bandarískra skattgreiðenda. Þetta er náttúrlega algjörlega yfirdrifið – allt þetta fyrir varaforseta. En þetta gengur auðvitað líka út á að sýna mátt sinn og megin. Valdið.

Við getum borið þetta saman við viðbúnaðinn sem var þegar kanslari Þýskalands, Angela Merkel, kom til Íslands fyrir nokkrum vikum. Þá fékk hún sér göngutúr í bænum.

Það hefur sjaldnast þótt merkilegt embætti að vera varaforseti í Bandaríkjunum. Varaforsetinn sem slíkur hefur ekki mikil völd. Á því hafa þó auðvitað verið undantekningar. Mike Pence er ekki líklegur til að klifra upp í forsetaembættið, ekki nema eitthvað komi fyrir Donald Trump. Eins skrítið og það kann að virðast vona menn frekar að Trump lafi í embættinu en að Pence taki við.

Fyrir fáum vikum birtist í Fréttablaðinu eftirfarandi grein eftir Halldór Reynisson prest, fyrrverandi blaðamann og forsetaritara. Halldór bakgrunn Pence í því sem hann nefnir „hættulega blöndu íhaldssamra stjórnmála og afturhaldssamrar kristni sem nú ríður húsum í Bandaríkjunum.

 

„Hingað til lands er væntanlegur varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence. Hann er enginn aufúsugestur og af ýmsum ástæðum. Fyrir það fyrsta er hann náinn bandamaður þess Bandaríkjaforseta sem harðast hefur gengið gegn siðmenningu og samfélagsskipan vestrænna ríkja sem komið hefur verið á eftir bitra reynslu tveggja heimsstyrjalda.

Í annan stað kemur hann á tíma þegar stefna Bandaríkjanna virðist auka úlfúð í heiminum en ekki draga úr – stefna sem gerir bandarísk stjórnvöld að friðarspillum. Eitt birtingarform þess hráskinnaleiks eru framkvæmdir sem bandaríski herinn hyggst hefja á Keflavíkurflugvelli.

Það er samt þriðja ástæðan fyrir því að varast ætti að umgangast þennan mann sem ég ætla að gera að umfjöllunarefni hér; sú hættulega blanda íhaldssamra stjórnmála og afturhaldssamrar kristni sem nú ríður húsum í Bandaríkjunum.

Mike Pence kallar sig „Evangel­ical“ en það eru kirkjur íhaldssamra hvítra mótmælenda sem mjög eru áberandi í Bandaríkjunum nú um stundir. Hafa þessar kirkjur gengið í vanheilagt hjónaband við sjálfhverfan og barnalegan forseta sem elur á óvild, kynþáttafordómum og er hvorki vinur sannleikans né dygðarinnar. Um 80 af hundraði þessa fólks kusu hann í síðustu forsetakosningum. Margir í þessari hreyfingu eru bókstafstrúar, þó ekki allir.

Í vitund þessara íhaldssömu kristnu manna virtist öllum siðgildum til fórnandi að þeirra maður næði því að verða forseti Bandaríkjanna. Á bak við stendur það menningarstríð sem nú geisar þar vestra. Þessir hópar vilja að íhaldssamir dómarar sitji í hæstarétti Bandaríkjanna en til þess að svo megi verða þarf leiðitaman forseta. Að baki er áratuga barátta gegn fóstureyðingum. Sú afstaða er nú skyndilega orðin – að mati þessara íhaldssömu kristnu manna – helsta kennisetning kristninnar, en ekki Gullna reglan eða Kærleiksboðið. Það menningarstríð nær líka í gegnum kirkju- og trúarlíf – til hefur orðið andófshreyfing, „Reclaiming Jesus“, þar sem minnt er á að í kjarna boðskapar Jesú er sátt og fyrirgefning, ekki hatur og útilokun.

Hreyfing þessarar íhaldskristni hefur færst mjög í aukana síðustu áratugi. Ég minnist lúthersks prests á ráðstefnu sem ég sótti þar vestra fyrir næstum 40 árum þegar ég var þar í námi í blaðamennsku. Sá hafði miklar áhyggjur af uppgangi þessarar íhaldssömu hreyfingar í bandarísku kirkjulífi með sinn bókstafsskilning og lögmálshyggju. Áhyggjur sem reyndust á rökum reistar.

Þessir straumar innan mótmælendakristninnar í Bandaríkjunum hafa lítið álit á biblíulegri fræðimennsku en setja í staðinn bókstafsskilning sem varð til í Bandaríkjunum á 19. öld. Að einhverju leyti hófst þá þessi þróun á því sem má kalla „amerískan kristindóm“ en einn dálkahöfundur Guardian (sem sjálfur er prestur í ensku biskupakirkjunni) hefur bent á að þar setji menn gjarnan „Ameríku“ á stall en ekki Guð.

Innan þessarar hreyfingar afneita margir loftslagsvá (þvert á orð Frans páfa), aðhyllast margir byssueign (hinir fyrstu kristnu menn neituðu að gegna herþjónustu í rómverska hernum), gera lítið úr réttindum kvenna og eru á móti samkynhneigðum (samanber kirkjugestinn sem strunsaði út úr Hallgrímskirkju um daginn). Þeir virðast engir sérstakir vinir flóttamanna og útlendinga. Sæluboð Krists eiga þarna ekki upp á pallborðið.

Þá hafa orðið til ýmsar skrýtnar hugmyndir í hreyfingunni sem yfirleitt eru ekki byggðar á skotheldri fræðimennsku. Mikið er lagt upp úr Opinberunarbókinni (Lúther vildi helst sleppa henni úr Biblíunni). Trúin verður gjarnan að lögmáli en ekki fagnaðarerindi enda er það kennimark allrar bókstafshyggju.

Ein kenningin í hreyfingu íhaldssamra kristinna manna í Bandaríkjunum hefur verið kölluð kristinn Zíonismi. Í þeirri sýn eru atburðir í Mið-Austurlöndum s.s. stofnun Ísraelsríkis tákn um hina síðustu tíma og endurkomu Krists. Íran er t.d. þar í hlutverki hins djöfullega sem reynir að eyða Ísraelsríki þvert á vilja Guðs. Þess vegna styður þessi hreyfing allar gerðir Ísraelsríkis en hunsar málstað Palestínumanna og það þótt margir þeirra séu kristnir. Að einhverju leyti skýrir þetta fjandskap Bandaríkjanna við Íran nú um stundir.

Tveir áhrifamenn í bandarísku stjórnkerfi sem hafa verið flokkaðir sem kristnir Zíonistar eru Mike Pence varaforseti og utanríkisráðherrann Mike Pompeo. Hér er um að ræða eitraða blöndu stjórnmála og þokukenndra trúarhugmynda sem þegar hefur haft áhrif til hins verra í Mið-Austurlöndum.
Því ber að vara við að íslensk stjórnvöld leggi lag sitt við fólk sem aðhyllist slíka hugmyndafræði.

Í lokin má minna á ljóð Jóns Helgasonar prófessors um þessa áráttu að nudda sér utan í Krist á fölskum forsendum:

EF ALLT þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist

sem gerir sér mat úr að nudda sér utan í Krist,

þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst

ef maður að síðustu lendir í annarri vist.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að