fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Meint einelti Vigdísar tekið fyrir af Reykjavíkurborg: „Búið er að virkja rannsóknarrétt ráðhússins!!! Verði þessu fólki að góðu“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 20. júní 2019 09:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvartanir Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, í garð Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins, verða teknar fyrir af eineltis- og áreitnisteymi á vegum Reykjavíkurborgar, samkvæmt bréfi sem Vigdís birti á Facebook síðu sinni í gærkvöldi.

Þar kemur fram að Helga telji framkomu Vigdísar í sinn garð vera einelti og mun siðfræðingur taka afstöðu hvort framganga Vigdísar sé í samræmi við siðareglur borgarfulltrúa, en nýjar siðareglur voru samþykktar á borgarstjórnarfundi á þriðjudag.

Rannsóknarréttur ráðhússins

Vigdís Hauksóttir fagnar því að mál hennar verði tekið til meðferðar og uppnefnir eineltisteymi Reykjavíkurborgar sem „rannsóknarrétt ráðhússins“ með tilvísun í spænska rannsóknarréttinn, sem hafði það hlutverk að viðhalda kaþólskum rétttrúnaði og völdum konungshjónanna með því að berjast gegn villutrú, og notaði til þess pyntingar og morð í stórum stíl.

Dýr í hringleikahúsi

„Til hamingju með daginn – búið er að virkja rannsóknarrétt ráðhússins …!!! Verði þessu fólki að góðu – ég er kjörin fulltrúi Reykvíkinga og vinn í umboði þeirra og er stolt af því. Einhver er með þráhyggju hér í þessu máli – en ég er ekki “dýr í hringleikahúsi” eins og segir í dómi héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-3132/2017 ?“

Þetta skrifaði Vigdís í gærkvöldi og vísaði þar með í dómsorð í máli starfsmanns Reykjavíkurborgar gegn Helgu, þar sem Reykjavíkurborg þurfti að greiða skaðabætur og fella niður áminningu sem Helga hafði veitt starfsmanninum. Í niðurstöðu dómsins eru stjórnunarhættir Helgu Bjargar gagnrýndir harðlega og sá dómari í málinu ástæðu til þess að minna Helgu á, að undirmenn hennar væru ekki „dýr í hringleikahúsi yfirmanna“.

Sjá nánar: Helga Björg sögð koma fram við undirmann eins og „dýr í hringleikahúsi“ – Starfar enn hjá Reykjavíkurborg – „Einörð og fylgin sér“

Einstakt fordæmi – Opnast í báðar áttir

Með þessu segist Vigdís líta svo á að rétturinn til kvartanna hafi verið opnaður í báðar áttir, en Vigdís hefur birt bókun sína sem hún hyggst leggja fram á fundi borgarráðs sem hófst núna klukkan níu. Þar segir Vigdís að nú hafi loksins opinberast af hverju óskum minnihlutans um að siðareglur og skráningu fjárhagslegra hagsmuna yrðu samþykktar samhliða, hafi verið hafnað:

„Fulltrúi Miðflokksins í borgarráði fagnar því að nú sé formlega búið að virkja hinn svokallaða bráðabirgðaverkferil/rannsóknarrétt ráðhússins vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.

Það er staðfest tæpum sólarhring eftir að nýjar siðareglur kjörinna fulltrúa voru samþykktar á hitafund borgarstjórnar. Minnihlutinn hefur ítrekað óskað eftir því að bæði siðareglur og skráning fjárhagslegra hagsmuna nái bæði yfir kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn borgarinnar og séu samþykktar samhliða.

Því hefur ávallt verið hafnað af fyrrverandi forseta borgarstjórnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur og borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni. Nú hefur komið á daginn hvers vegna þessum réttmætu óskum minnihlutans var hafnað.

Með bréfi dags. 12. júní, sem undirritaðri barst í gær með ábyrgðarpósti undirrituðu af eineltis- og áreitnisteymi Ráðhúss/miðlægrar stjórnsýslu hefur einstakt fordæmi verið sett. Undirrituð lítur því svo á að nú hafi rétturinn til kvartanna verið virkjaður í báðar áttir og sé því orðinn gagnkvæmur á þann hátt að kjörnir fulltrúar hafi því líka feril til að kvarta undan framkomu og háttsemi embættismanna í sinn garð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt