fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Erdogan segir að morðið á Khashoggi hafi verið skipulagt vandlega – Skoðuðu skóglendi áður en blaðamaðurinn var myrtur

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 23. október 2018 09:59

Erdogan Tyrklandsforseti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Recep Erdogan, forseti Tyrklands, segir að þrír Sádar hafi flogið til Istanbúl í Tyrklandi daginn áður en blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn. Fimmtán manna hópur gekk inn á ræðisskrifstofuna daginn sem Jamal var myrtur. Þann sama dag voru öryggismyndavélar á ræðisskrifstofunni fjarlægðar.

Þetta sagði Erdogan í yfirlýsingu sinni á tyrkneska þinginu í morgun vegna dauða Jamals. Yfirlýsingar Erdogans var beðið með talsverðri eftirvæntingu en í henni sagði forsetinn  að flest bendi til þess að Sádar hafi skipulagt morðið á blaðamanninum vandlega áður en það var framið. Erdogan sagði í yfirlýsingu sinni að vísbendingar væru um að Khashoggi hafi verið drepinn á hrottafenginn hátt.

Erdogan sagði að þessi þriggja manna hópur sem kom til Tyrklands í byrjun október hafi skoðað skóglendi í nágrenni Istanbúl. Leikur grunur á að þeir hafi verið að skoða staði til að losa sig við lík blaðamannsins.

Jamal Khashoggi.

„Við munum varpa ljósi á alla þá sem tóku þátt í þessu, allt frá neðstu þrepum til þeirra efstu. Þeir munu fá þá refsingu sem þeir eiga skilið,“ sagði hann. Sagði hann að yfirvöld í Sádí-Arabíu yrðu að stíga fram og opinbera það hver skipulagði morðið, alveg sama hvar í valdastiganum þeir væru. Tyrknesk yfirvöld myndu rannsaka málið í þaula og komast að hinu sanna í þessu „pólitíska morði“.

Þá kallaði Erdogan eftir því að þeir átján sem hafa verið handteknir í Sádi-Arabíu í tengslum við málið verði framseldir til Tyrklands þar sem réttað verður yfir þeim. Spurði hann hver hefði sent mennina til Tyrklands, hvers vegna Sádar hefðu ekki hleypt rannsekendum strax inn á ræðisskrifstofuna og hvers vegna svona misvísandi upplýsingar hefðu borist frá yfirvöldum í Sádi-Arabíu. „Hver var það sem losaði sig við lík Khashoggi? Sádar verða að svara þessum spurningum.“

Blaðamaðurinn Khashoggi var gagnrýninn á stjórnarhætti í Sádí-Arabíu og hafði undanfarið dvalist í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. Hann fór inn á ræðismannsskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbúl fyrir tveimur vikum til að sækja skjöl vegna fyrirhugaðs brúðkaups hans. Þar var Khashoggi drepinn. Lík hans hefur ekki fundist og sagði Erdogan það vera einkennilegt.

Eins og við greindum frá í gær birti CNN myndband úr eftirlitsmyndavélum í Istanbúl sem sýndi tvífara blaðamannsins yfirgefa ræðisskrifstofu Sáda. Það sem meira er þá virðist tvífarinn vera klæddur í föt hins myrta blaðamanns.

Leikur grunur á að með þessu hafi Sádar viljað villa um fyrir þeim sem rannsakað hafa hvarf blaðamannsins. Þessi staðreynd þykir renna stoðum undir þær fullyrðingar Tyrkja að markmið Sáda hafi alltaf verið að ráða Khashoggi af dögum eða senda hann heim til Sádi-Arabíu líkt og tíðkast hefur með þá sem gagnrýna yfirvöld opinberlega. Í yfirlýsingu sinni í morgun sagði Erdogan hreint út að tvífarinn hafi átt að villa um fyrir fólki.

Breska blaðið Independent greindi frá því í morgun að Gina Haspel, yfirmaður bandarísku leyniþjónstunnar, CIA, hefði farið til Tyrklands í gær gagngert til að afla sér upplýsinga um morðið á Khashoggi. Það gerist í kjölfar ummæla Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem sagðist ekki vera fyllilega sáttur við skýringar Sáda á dauða Khashoggi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta