Út er komin ný ævisaga Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra Fjallabyggðar, eftir Orra Pál Ormarsson. Gunnar er sem kunnugt er fyrrum bæjarstjóri Kópavogs og þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Gunnar þurfti að þola ýmsar fólskulegar árásir sem athafna- og stjórnmálamaður. M.a. var kveikt í sumarbústað hans. Þetta kemur fram í ævisögu Gunnars sem kemur í verslanir á næstu dögum.
Árið 2007 brann sumarbústaður Gunnars og fjölskyldu hans til grunna. Eldsupptök voru talin ókunn. Gunnari fannst ýmislegt benda til að ástæður brunans væru dularfullar og fékk tvo menn til að rannsaka málið, þá Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón og Ásgeir Þór Davíðsson, sem var betur þekktur sem Geiri á Goldfinger. Þeir komust báðir að sömu niðurstöðu, að íkveikjusérfræðingur á vegum manns sem lagði fæð á Gunnar hefði kveikt í bústaðnum. Þar sem næg sönnunargögn skorti kærði Gunnar ekki íkveikjuna.
Í bókinni stendur um íkveikjuna:
„Eins og ég nefndi var Geiri greiðvikinn og árið 2007 þurfti ég að leita til
hans með mál sem tók á okkur hjónin, bruna sumarbústaðar okkar í
Grímsnesinu. Sýnt var beint frá brunanum í sjónvarpinu og ég hugsaði með
mér: Eitthvað kannast ég við þennan bústað! Niðurstaðan var sú að
eldsupptök væru ókunn. Það var hins vegar ekki rétt, því ljóst var að ekki
hafði kviknað í út frá rafmagni og að gaskút hafði verið hent út. Ég setti tvo
menn í að rannsaka málið, Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón og Geira á
Goldfinger, og komust þeir að sömu niðurstöðu. Hún var sú að
íkveikjusérfræðingur á vegum manns sem lagði fæð á mig hefði kveikt í
bústaðnum. Ég veit hver þessi maður er. Hann starfar aðallega í
undirheimunum. Við skulum á hinn bóginn láta nafn hans liggja milli hluta
þar sem ekki var hægt að sanna þetta.“