Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Bifröst hefur gefið út bók um þjóðernishyggju á Norðurlöndum og pólíktík hægri pópúlista. Í viðtali við Frey Rögnvaldsson fyrir helgarblað DV ræðir Eiríkur um bókina og er ljóst að um þarft innlegg í íslenska stjórnmálaumræðu er að ræða.
Að sögn Eiríks eru þær aðstæður fyrir hendi hér á landi sem þekkjast á öðrum Norðurlöndum og hafa leitt af sér myndun þjóðernispópúlískra flokka. Ef fram komi heillandi og kraftmikill leiðtogi úr slíkri átt eru líkur á því að hans mati að slík öfl gætu skotið rótum sínum hér. Sá munur sé þó stjórnmálamenningu á Íslandi og öðrum Norðurlöndum að hér á landi er þjóðernisstefnan viðtekin og samþykkt sem hluti hennar sem gæti gert þjóðernissinnum erfiðara um vik að koma á fót flokkum sem hafa slíka þjóðernispópúlíska stefnu sem aðalsmerki sitt.
Bók Eiríks ber nafnið Nordic Nationalism and Right Wing Populist Politics og er gefin út af Palgrave Macmillian og hefur fengið góðar viðtökur.
,Í kjölfar senni heimsstyrjaldar liggur þjóðernishyggjan algjörlega í valnum í Evrópu…Á Íslandi var þjóðernishyggjan hins vegar grundvöllur íslenskra stjórnmála í sjálfstæðisbaráttunni
segir Eiríkur í samtali við DV og bætir við að ekki hafi átt sér stað hugmyndafræðilegt uppgjör við þessa stefnu líkt og á meginlandi Evrópu eftir þær hörmungar sem þjóðernishyggjan hafði fært álfunni.
Ástæður þess að ekki hafi orðið sama þróun hér á landi og í nágrannalöndum okkar séu auk þess sem áður hefur verið nefnt að hér á landi séu ,,engin eiginleg innflytjendasamfélög, það eru engin múslimsk innflytjendahverfi.‘‘ Tilraunir til að höfða til andúðar á innflytjendum falli flatt þegar lítið sé um innflytjendur. Á Íslandi hafi auk þess ekki komið fram sterkur leiðtogi úr röðum þjóðernispópúlista líkt og Pia Kjærsgaard í Danska þjóðarflokknum sem komið hafi þeim flokki inn úr kuldanum.
Viðtalið í heild sinni má lesa hér.
Þorvarður Pálsson – Thorvardur@eyjan.is