Það hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum að embættistaka Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna verður sýnd á RÚV 2 en ekki RÚV líkt og árið 2009 þegar Barack Obama sór embættiseið. Úr Efstaleiti bárust þau svör að ástæða þess að Trump fær hliðarrásina væri sú að nú stæði yfir heimsmeistaramót karla í handbolta.
Þegar sjónvarpsdagskrá er skoðuð árið 2001, þegar George Bush yngri sór embættiseið sem 43. forseti Bandaríkjanna, kemur í ljós að ekki var sýnt frá henni en það vakti athygli Eyjunnar að sýnt var frá embættistöku Bill Clinton árið 1993 en hann var 42. forseti landsins.
Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður RÚV sá um lýsingu á embættistöku Obama árið 2009 og er Birta Björnsdóttir fréttakona stödd í Washington D.C. á vegum RÚV vegna embættistöku Trump.
Þeir Trump og Bush yngri eiga það sameiginlegt að vera báðir Repúblikanar en þeir Obama og Clinton Demókratar.