

Þessi merkilega ljósmynd sýnir Landspítalann eins og hann var stuttu eftir að hann var reistur.
Þarna er ekki búið að leggja flugvöllinn, við sjáum hvað svæðið þar sem völlurinn virkar blautt og erfitt yfirferðar. Það getur varla hafa talist vera nein prýði.
Þarna er spítalinn í útjaðri byggðarinnar, en nú stendur hann í henni þar sem hún er hvað þéttust. Skólavörðholtið er þéttbyggðasta svæði á Íslandi.
Eftir því sem lengra líður frá upprunalegum áætlunum virkar æ vafasamara að setja niður stórar spítalabyggingar á þessum stað.
Plön sem eldast þarf að endurskoða miðað við breyttan veruleika, við getum jafnvel staðið frammi fyrir því að þau séu orðin úrelt. Það stefnir allt í að við séum að fara að taka við 2 milljónum ferðamanna árlega hér á Íslandi. Þetta veldur miklu álagi á gamla bæinn – því það er náttúrlega þangað sem ferðamennirnir fara. Umferðin breytist og íbúasamsetningin, þrengslin aukast.
Og jafnframt verða rökin fyrir því að hafa risastóran spítala á þessum stað veikari. Reyndar er langt síðan maður hefur heyrt alvöru röksemdir fyrir þessari staðsetningu – nema þá bara að búið sé að ákveða þetta.
Einhvern tíma var það orðað svo að þetta væri ákvörðun sem hefði „tekið sig sjálfa“. En á þeim tíma voru þó uppi ráðamenn sem unnu staðfastlega að þessu.
En nú hefur orðið þessi langa töf á framkvæmdum – meðal annars vegna þess að sannfæringin fyrir því að staðsetningin sé góð er afar veik, bæði meðal stjórnmálamanna og úti í samfélaginu.
