

Þau eru merkileg orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem segir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi gert forsetaembættið pólitískara en áður var, en þetta sé ekki fordæmisgefandi, líkt og segir í frétt RÚV.
„Það var í rauninni nauðsynlegt, en það voru mjög sérstakar aðstæður eins og hann útskýrði sjálfur, svoleiðis að það er ekkert sjálfgefið að með þessu sé verið að setja fordæmi sem haldi áfram í sömu átt, að menn haldi áfram að gera forsetaembættið pólitískt.“
Að nokkru leyti er þetta rétt hjá Sigmundi – miðað við þær reglur sem við höfum um forsetaembættið er þeim sem gegnir því alveg í sjálfsvald sett hvernig hann fer með vald sitt. Hann getur verið alveg ópólitískur og grenjandi pólitískur.
Það eru til ýmis fordæmi um hvernig embættið skuli vera – það er líka hægt að hugsa sér að næði kjöri forseti sem færi enn lengra út á braut Ólafs Ragnars, hefði skoðanir á fleiri pólitískum málum og tjáði þær í tíma og ótíma.
Allt er þetta svo óskýrt að við það verður ekki unað til lengdar. Íslenskir stjórnmálamenn virðast hins vegar vera ófærir um að koma saman stjórnarskrá þar sem hlutverk forsetans er skýrt og þá sérstaklega málskotsrétturinn. Gunnar Smári Egilsson skrifar á Facebook:
Nú þarf þingið að bregðast skjótt við og setja á þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum til að færa málskotsréttinn til almennings. Ólafsréttur gengur alls ekki upp; að það sé persónuleg ákvörðun forseta hverju sinni, byggð á síbreytilegum og óútreiknanlegum forsendum, hvaða mál þjóðin fær að úrskurða um í þjóðaratkvæðagreiðslum.
Í tillögum Stjórnlagaráðs var náttúrlega tekið á þessu, þar er málskotsréttur færður að miklu leyti til almennings þótt forseti haldi honum líka, en einn helsti andstæðingur tillagnanna er sjálfur Ólafur Ragnar Grímsson.
Nú myndi það líklega henta ríkjandi stjórnvöldum langbest að næsti forseti yrði ópólitískur – og Sigmundur Davíð opnar með sínum hætti á það. Ólafur Ragnar hallaði sér æ meir að Framsóknarflokknum í seinni tíð – þaðan sem hann kom í upphafi – og Framsóknarflokkurinn að honum. Sjálfstæðismenn voru líka farnir að kjósa hann unnvörpum. Ólafur er slíkur pólitískur fimleikamaður að hann náði að skipta að miklu leyti um kjósendahóp – upphaflega voru það vinstri menn sem kusu hann.
En það gæti líka gerst að 25. júní yrði kosinn forseti sem yrði algjörlega andsnúinn núverandi ríkisstjórn, talaði gegn stefnu hennar, gerði henni lífið leitt og gæti jafnvel gert henni erfitt fyrir í þingkosningum 2017, rétt eins og Ólafur Ragnar reyndist stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur afar óþægur ljár í þúfu.
Við erum hins vegar komin furðu stutt í forsetakjöri miðað við að einungis er tæpt ár til kosninga. Maður sér ekki að séu komnir fram neinir frambjóðendur sem eiga möguleika á að sigra, fólk er heldur ekki farið að hópa sig um neina valkosti – hvað þá hugmyndalega valkosti, þetta er allt á persónulegu nótunum. Það er helst að maður heyri sums staðar að rétt sé að velja konu eða einhvern sem „stendur með umhverfinu“.
Í jóla- og nýársboðum var þetta rætt, en mestmegnis snerist það um að nefna einhver nöfn og plaffa þau svo niður með því að finna út að viðkomandi sé í raun ómögulegur. Þetta er satt að segja ekki sérlega skemmtilegur samkvæmisleikur, en endurspeglar óreiðukenndar hugmyndir um embættið.
