

Besti mælikvarði á gæði samfélaga er hvernig við komum fram við fatlað fólk og sjúkt og þá sem eiga undir högg að sækja. Eða ég veit ekki annan betri.
Maður gat ekki annað en orðið djúpt snortinn af sögunni af Haraldi Ólafssyni sem birtist í Kastljósi í gær. Hann var tveggja ára sendur á Kópavogshælið eftir móðurmissi, var fatlaður á líkama og talinn greindarskertur. Hann var spastískur og fyrstu ellefu ár ævi sinnar skreið hann um gólf.
Á þeim tíma var það kallað fávitahælið í Kópavogi – þetta var ekki góður staður fyrir barn. Það var talað um það í þættinum að oft hefði verið sorg í augum hans.
Maður getur varla annað en tárast við tilhugsunina um lítinn dreng í þessu umhverfi. Sem betur fer hefur okkur aðeins miðað áfram síðan þá. Menn áttuðu sig á því að Haraldur var góðum gáfum gæddur, hafði ýmsa hæfileika – hann fæst við vélsmíði, ekur bíl og ferðast upp á fjöll.
Í gær, á sextugsafmæli Haraldar, var frumsýnd heimildarmyndin Halli sigurvegari sem fjallar um hann.
Frímann Ingi Helgason, vinur og lærimeistari Haraldar, nefndi í þættinum að Haraldur byggi við kröpp kjör, þótt hann kvartaði ekki sjálfur. Aðstoðin mætti vera meiri. Frímann sagði að við sem siðuð þjóð gætum ekki látið spyrjast út að við förum þannig með fólk sem virkilega þarf á hjálp að halda. Það hafa vissulega orðið framfarir síðan á tíma Kópavogshælisins en við getum gert betur.
