
Þetta eru mjög athyglisverðar tölur frá Samtökum atvinnulífsins. Það þarf að fjölga vinnandi fólki á Íslandi, en þjóðin er að eldast.
Meðal annars er lagt til að hækka eftirlaunaaldur og stytta skólanám. Líklegt er þó að slíkt mæti mikilli andstöðu. Myndi heldur ekki breyta svo miklu um aukna þörf á mannafli.
Aðalráðið er að fjölga innflytjendum. SA gerir ráð fyrir að þurfi fleiri innflytjendur til að vinna á Íslandi en Hagstofan gerir ráð fyrir. Það eru meira en 2000 manns á ári næstu 20 árin.
Myndi hækka hlutfall innflytjenda á Íslandi úr 8 í 20 prósent. Það yrði mikil breyting á samfélaginu. Samtök atvinnulífsins telja að þetta sé „óumflýjanleg og eftirsóknarverð þróun“, líkt og segir í frétt á Vísi.
Mörg Evrópuríki standa reyndar frammi fyrir svipuðum vanda – til dæmis Þýskaland. Þjóð sem eldist, of fáar hendur til að vinna störfin og standa undir vexti.
Við verðum samt að muna að þarna er rætt um manneskjur en ekki vinnudýr. Fræg orð svissneska rithöfundarins Max Frisch um innflytjendastrauminn til Evrópu á tíma kalda stríðsins voru svohljóðandi:
„Við báðum um vinnuafl en fengum fólk af holdi og blóði.“