

Quentin Tarantino hefur búið til sérstæða blöndu í The Hateful Eight. Að sumu leyti er þetta dæmigerð Tarantino-mynd með ýktu blóðbaði og absúrd persónum.
En þetta er líka vestri, gerist í Wyoming á árunum eftir borgarastríðið bandaríska, það er mikill snjór og hríð og mikill vetur.
Hafi menn ekki tekið eftir því þá er vetrarlandslag í tísku.
Og svo er þetta líka eins og stofuleikrit í anda Agöthu Christie. Mestöll myndin gerist í einu herbergi, persónurnar eiga allar leyndarmál og smátt og smátt er flett ofan af þeim. Minnir mest á bókina And Then There Were None – sem líka var stundum kölluð Tíu litlir negrastrákar.
Svo er enn einn þráður myndarinnar sem er kynþáttapólitík. Ein aðalpersónan er svartur maður, sem hefur barist með herjum Norðurríkjanna í þrælastríðinu. Í kringum hann er mikil spenna – og kynþáttahatrið býst stöðugt fram.
Þetta er saga sem liggur þungt á huga Tarantinos, sbr. síðustu mynd hans, Django. Sjálfur sagði hann í viðtali fyrir nokkrum dögum að fáni Suðurríkjanna í borgarastríðinu sé jafngildi hins þýska hakakross.
Tarantino er mjög uppáfinningasamur sögumaður og finnst gaman að leika sér. Myndin upphefst með tónlist eftir Ennio Morricone, henni er skipt í kafla og svo kemur hlé. Við finnum náttúrlega ekkert fyrir því hér á Íslandi – upplifum bara enn einar hrútleiðilegar tíu mínútur með skjáauglýsingum.
Myndin er tekin í gömlu breiðtjaldsformati sem er ekki lengur notað, Ultra Panavision 70. Ég sá myndina í sal í Háskólabíói sem að sumu leyti er eins og skólastofa. Mikið hefði verið gaman að horfa á hana í hinum stóra og glæsilega bíósal hússins.
