
18 til 20 þúsund manna leikvangur með þaki? Jú, hvers vegna ekki?
Þó er er kannski óþarfi að grípa til klisjunnar menningarhúss.
Raunar yrðu þarna til forsendur til að fá hljómsveit eins og Rolling Stones til landsins – eða þá U2 ef einhvern langar að heyra í þeim hér á Fróni.
En væntanlega yrðu ekki sérlega mörg tilvik að uppselt væri á slíkan leikvang.
Sumir eru reyndar að þakka árangur íslenska fótboltalandsliðsins því að hér á landi hafa risið knattspyrnuhús – staðir þar sem börn og unglingar geta iðkað íþróttina að vetrarlagi. Sjálfsagt er nokkuð til í því.
Í því sambandi má þó benda á að einungis eitt slíkt hús er að finna í Reykjavík – það er í Grafarvogi. Ekkert knatthús er að finna vestan Elliðaáa þar sem þó starfa félögin Valur, KR, Víkingur, Þróttur og að hluta til Fram.
En raunar er eitt sem maður tekur eftir í sambandi við Laugardalsvöllinn og það tengist túnrækt. Völlurinn er sléttur og iðjagrænn. Hér á árum áður þurfti lítið til að hann breyttist í flag – og alltaf voru blettir hjá markinu þar sem grasið hafði verið traðkað niður í svörð. Maður man eftir leikjum á Laugardalsvelli þar sem úrslitin réðust af því að bolti skoppaði á þúfu. Þetta eru að sönnu framfarir.