

Bandaríkjamenn nota fjarskalega langdregna aðferð til að velja sér forseta. Miðað við umfjöllunina um hugsanlega forsetaframbjóðendur mætti halda að kosningarnar væru alveg að bresta á. En svo er ekki. Forkosningarnar þar sem ræðst hverjir verða frambjóðendur byrja ekki fyrr en í febrúar á næsta ári og standa fram í júní.
Forsetakosningarnar sjálfar eru svo ekki fyrr en 8. nóvember 2016. Nýr forseti tekur við eftir áramótin og þá er komið árið 2017.
Þetta minnir mest á langt íþróttamót þar sem er notaður óskaplegur tími til að spá og spekúlera í stöðunni. Forsetakosningar eru nánast aðalfréttaefnið í tvö ár áður en sjálfar kosningarnar fara fram.
Nú opnar maður til dæmis ekki fjölmiðil án þess að heyra eitthvað um Donald Trump. Og jú, framrás hans er býsna einkennileg. Maðurinn virðist ekki hafa neina raunverulega skoðun á nokkrum hlut – hann er bara uppfullur af sjálfum sér. Það virðist hjálpa. Hann hefur bæði verið með og á móti fóstureyðingum, með og á móti almannatryggingum, hann hefur verið Demókrati og nú Repúblikani. Hann er orðljótur, fullur kvenfyrirlitningar, en það spillir ekki fyrir, sjálfsagt vegna þess að fólk er orðið svo leitt á „venjulegum“ stjórnmálamönnum.
Bernie Sanders, sem er yfirlýstur sósíaldemókrati, nýtur nú mun meira fylgis í New Hampshire en Hillary Clinton. Fyrstu mikilvægu forkosningarnar fara fram í New Hampshire, en það er samt ekki fyrr en 9. febrúar. Clinton er í eintómu basli, og ef fer sem horfir gerist annað af tvennu: Hún nær ekki útnefningu sem forsetaefni Demókrata eða hún tapar fyrir frambjóðanda Repúblikana í kosningunum. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun myndi hún lúta í lægra haldi fyrir Donald Trump, það er algjör viðsnúningur frá því í sumar.
