
Þeir sem nú sitja í ríkisstjórn eru mjög vanir því að skammast út í Samfylkinguna. Þeir kunna það mjög vel, bara ýta á vissa takka og sjá, spælingin er komin. Svona hefur þetta verið lengi.
En nú er kominn upp nýr veruleiki. Samfylkingin er ekki svipur hjá sjón og eiginlega alveg tilgangslaust að vera að atast í henni. Það er heldur varla hægt að ná fleiri kjósendum af henni.
Nýr flokkur, Píratar, er hins vegar með 36 prósenta fylgi.
En vandi stjórnaliða er sá að þeir vita ekkert hvernig þeir eiga að taka á Pírötum. Þegar þeir gera það er líka hætta á að þeir stuði meirihluta ungs fólks sem segist ætla að kjósa Píratana – eða, það sem verra er, komi hallærislega út.
Í raun er ráðaleysið gagnvart Pírötunum algjört. Davíð Oddsson, sem annars er nokkuð flinkur í pólitísku undirferli, hefur ekki náð neinum tökum á þeim. Og þegar Bjarni Benediksson segir að þeir séu rótlausir og Guðni Ágústsson segir að þeir séu eins og Ragnar Reykás – ja, þá virkar það bara hjárænulegt.