
Mikið er rætt um stöðu Bjartrar framtíðar. Í stjórnmálum dagsins er virkar hún þó eins og algjört aukaatriði. Þetta er til marks um gúrkutíð.
Stóru fréttirnar á Íslandi þetta sumar eru í hvernig allt er á uppleið í efnahagslífinu. Gjaldeyrir dælist inn með erlendum ferðamönnum. Það er meiri makríll í sjónum en nokkru sinni. Það er vænn afgangur af ríkissjóði vegna aukinna skatttekna. Stórar fjárhæðir munu koma frá þrotabúum bankanna til að grynnka á skuldum Íslands – sem verða ekki lengur háar í alþjóðlegum samanburði.
Og stóra pólitíska spurningin er hvers vegna þetta er ekki að nýtast ríkisstjórninni til fylgisaukningar? Hvers vegna eru Píratar, flokkur sem er nánast óskráð blað, fylgismesta stjórnmálaaflið í svona ástandi? Á fylgið eftir að skila sér til stjórnarflokkanna í auknum mæli, gæti það gerst þegar dregur nær kosningum – eða er undirliggjandi óánægja með stjórnarfarið svo mikil á Íslandi að ekki einu sinni mikill efnahagsuppgangur nær að lægja hana?
Það væri þá líklega í fyrsta sinn – eða hvað? Þing hefst aftur 8. september og þá verður forvitnilegt að sjá.