fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Pirringur forsætisráðherra, yfirstétt mylur undir sig

Egill Helgason
Fimmtudaginn 31. desember 2015 13:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er á sömu buxum og endranær í áramótagrein. Honum virðist fyrirmunað að hefja sig upp yfir daglegt þras og pirring. Ekki einu sinni á áramótum lánast honum að vera landsföðurslegur. Þetta er að öllum líkindum helsta ástæðan fyrir því að hann er svo óvinsæll.

Svona texta ætti maður von á að lesa á Moggablogginu, fremur en frá leiðtoga þjóðar á áramótum þegar er tilefni til að bjóða upp á innblástur, framtíðarsýn, hugmyndir. Þetta er satt að segja hálf dapurlegt að vera forsætisráðherra og hafa ekkert betra að segja en þetta á tímamótum. Ef forsætisráðherranum dettur ekkert í hug sjálfum, er sjálfsagt hægt að leita til fjölda aðstoðarmanna um að setja eitthvað saman.

Eins undarlegt og það er virðist afmarkaður en hávær hópur fólks eiga erfitt með að sætta sig við góðar fréttir. Jákvæð þróun vekur hjá honum gremju, hún er litin hornauga og tortryggð á allan mögulegan hátt. Þetta er sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði.

Bjarni Benediktsson gerir launahækkanir meðal annars að umtalsefni í áramótagrein. Margt er satt og rétt sem hann segir um ágæta en brothætta stöðu þjóðarbúsins. Staðreyndin er samt sú að eins og þróunin hefur verið er það upplifun almennings að það sé helst yfirstéttin í landinu sem er að fá hækkanir – sé í raun farin að mylja undir sig meira en góðu hófi gegnir.

Vilhjálmur Birgisson, hinn skeleggi verkalýðsleiðtogi á Akranesi, gerir þetta að umræðuefni. Hittir hann ekki naglann á höfuðið?

Það er ótrúlegt að verða vitni að því óréttlæti og þeirri misskiptingu sem heldur áfram af fullum þunga í íslensku samfélagi. Ég er hér að tala um þær gríðarlegu kjarabætur sem efri lög samfélagsins eru nú að fá þessa dagana.

Við urðum vitni af því fyrir nokkru síðan að stjórnarmenn í VÍS hækkuðu um allt að 75% eða sem nam 200.000 króna hækkun á mánuði. En núna fá stjórnarmenn 350.000 kr. fyrir einn fund á mánuði og stjórnarformaður 600.000 kr.

Í gær kom svo tilkynning um að bankastjóri Landsbankans hefði fengið launaleiðréttingu uppá 41% og nemur sú hækkun í krónum talið 536.000 kr.

Já og núna á lokadegi þessa árs er kastað rennblautri tusku í andlit verkafólks, en núna er búið að tilkynna að kjararáð hækkaði dómara frá rúmum 31% uppí rúm 48% eða sem nemur í krónum talið frá 300.000 uppí 600.000 króna hækkun á mánuði. Takið eftir þessar hækkanir eru að koma strax ekki á nokkrum árum.

Hvar eru núna Seðlabankastjóri, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðherra, greiningarstjórar bankanna, en þessir aðilar spretta ætíð fram þegar verið er að semja við verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði og vara ætíð við aukinni verðbólgu, óstöðugleika og annarri óáran ef gengið verði að kröfum verkafólks?

Þessir aðilar spáðu óðaverðbólgu ef gengið yrði að kröfum verkafólks sem var að lágmarkslaun yrðu orðin 300.000 krónur innan þriggja ára. Nei, svo koma hátekjustéttirnar og taka launahækkun á einu bretti sem langt yfir lágmarkslaunum eða frá 300.000 á mánuði uppí allt að 600.000 þúsund. En rétt er að rifja það upp að verkafólk fékk 25.000 króna hækkun á sínum launum í síðustu samningum og átti það að vera sérstök láglaunaaðgerð og lágmarkslaun fóru uppí 245.000 á mánuði!

Þessar ofurhækkanir eru gott innlegg inní endurskoðun kjarasamninga í febrúar en þessi gríðarlega misskipting sem er að eiga sér stað í íslensku samfélagi nær ekki neinu tali lengur. Ég vil að allir hafi það gott, ekki bara sumir!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt