
Það er auðvitað andstyggilega ljótt að ræna banka og hóta fólki ofbeldi með vopnavaldi.
Og það er kannski ekki alveg smekklegt, en ránið í útibúi Landsbankanum kallar fram meinhornið í mörgum landanum.
Viðkvæðið sem maður heyrir er að það sé nýung að íslenskur banki sé rændur utanífrá en ekki innanífrá.
Og svo ert talað um að á sama tíma og þetta gerðist hafi laun bankastjórans verið hækkuð um tugi prósenta – en færslugjöld fyrir kort (sem þegar eru óskaplega há) verið hækkuð.
Ein meinsemd bankakerfisins er plokkið. Það er alls staðar verið að taka smáfjárhæðir af fólki. Það er stanslaust að borga bönkum fyrir að fá að nota sína eigin peninga!
Annars virðast bankaræningjarnir hafa verið afar mistækir, mætti jafnvel segja að þetta séu grey.
Þeir voru með „eftirlíkingu af byssu“ (leikfangabyssu?), þeir skilja eftir sig fingraför, af þeim nást mjög skýrar myndir, framan á þá, þannig að andlit, líkamsbygging og klæðnaður sést greinilega. Við verknaðinn nota þeir bifreið sem þeir eru nýbúnir að stela, hún er merkt bakaríi í borginni. Þeir tóku einfaldlega bíl þar sem lyklar voru í lásnum.
Þeir ná einhverri smáupphæð, komast undan, en eru handteknir fljótt – það gat ekki farið öðruvísi. Líklega er heldur ekki eftir miklu að slægjast núorðið að ræna banka með þessum hætti.
En bankastarfsmennirnir og viðskiptavinir Landsbankans sem lentu í þessum óskemmtilegu aðstæðum eiga samúð mína.