

Ég hef verið á ferðalagi á slóðum Vestur-Íslendinga undanfarið og notið þeirrar gæfu að hitta fólk sem kemur fyrir í þáttunum Vesturfarar. Viðtökurnar eru einstakar eins og endranær á þessum slóðum, gestrisni, kátína, sögur, söngur.
Ég kom til Norður-Dakóta, hitti ekki Kristínu Hall, sem nú er orðin 106 ára, en í Garðar tók á móti okkur Jón Jónsson, sá sjötti í röðinni í ætt sinni, hann er sérstakt eðalmenni Jón, launfyndinn, lítillátur og vitur.

Í Winnipeg hitti ég Jóhönnu Wilson. Í þáttunum fer ég í kökuboð til hennar og hitti þar nokkurn fjölda fjallkvenna. Hæun hefur um árabil verið einn af leiðtogum Íslendingasamfélagsins í Manitoba og er elskuð og dáð. Jóhanna er 95 ára en hyggur á Íslandsferð í haust.

Hér er svo sögumaðurinn og söngmaðurinn Óli Narfason á Víðivöllum á Nýja Íslandi. Óli er fæddur 1925 – ætli megi ekki segja að hann hafi slegið í gegn í Vestufaraþáttunum. Altént segist hann sjálfur vera frægur eftir að þeir voru sýndir. Það er mér mikil ánægja að þættirnir, sem voru settir á diska með enskum texta, hafa borist vítt og breitt um samfélög Íslendinga í Norður-Ameríku.

Með Nelson Gerrard. Nelson er sagnaritari Nýja Íslands og hefur safnað gríðarlegu magni af skjölum, ljósmyndum auk bóka og alls kyns muna – það er ómetanlegt safn. Nú er það reyndar landbúnaður sem á hug hans allan eftir að hann eignaðist jörð skáldsins Guttorms J. Guttormssonar, Víðivelli. Myndin er tekin við Engimýri, gamalt hús sem Íslendingafélagið í Riverton hefur verið að gera upp af miklum myndarskap.

(Ljósmyndir eftir Ragnar Snæ Karlsson, Bergdísi Sigurðardóttur og Wanda Anderson.)