

Í þáttum mínum um vesturfara var sagt frá mannréttindasafninu sem var að rísa í Winnipeg þegar við vorum við upptökur. Safnið opnaði í fyrrahaust, telst vera kanadískt þjóðarsafn, hið fyrsta sem opnar síðan 1967 og hið fyrsta sem er utan höfuðborgarsvæðis Kanada.
Ég óttaðist dálítið að safnið yrði tóm skel, risavaxin bygging utan um fallega en rýra hugmynd. Safnið byggir á draumsýn Israels Aspers, kanadísks auðmanns sem sá fyrir sér stað þar sem ungt fólk gæti komið og lært um mannréttindi. Asper dó 2003 og það kom í hlut Árna Thorsteinssonar, kaupsýslumanns af íslenskum ættum að klára verkefnið sem stjórnarformaður. Það var erfitt verk því safnið hefur verið umdeilt og kostnaður ærinn.
En útkoman er frábær.. Það er svo einfalt. Arkítektúrinn er stórkostlegur, safnið rís upp á svæði sem kallast Forks í Winnipeg, það er á mótum Rauðár og Assiniboineár. Svo vill til að þetta er staðurinn þar sem Íslendingar settust fyrst að í Winnipeg og var kallað Shanty Town. Gengið er um safnið eftir brautum sem liggja stöðugt upp og eru klæddar með alabastri, með baklýsingu þannig að það virkar líkt og gegnsætt. Rýmin og formið eru stórbrotin þegar maður fer stöðugt hærra, úr djúpinu og upp í átt að heiðríkjunni – það endar í háum turni þar sem maður sér vítt og breitt yfir borgina og slétturnar.
Sýningin fjallar um mannréttindi í víðum skilningi. Um mannréttindasáttmála, um þróun mannréttinda, um mannréttindi barna, kvenna, innflytjenda, samkynhneigðra, fatlaðs fólks, um það hvernig mannréttindi eru afnumin – stundum algjörlega og endanlega eins og helförinni, í tilbúnu hungursneyðinni í Úkraínu 1932-33 og í þjóðarmorðinu á Armenum 1915.
Það fer vel á því að svona safn sé í Kanada. Kanada hefur löngum notið mikillar virðingar á alþjóðavettvangi sem friðflytjandi. Kanada er líka ríki innflytjenda, þangað hafa innflytjendur streymt í tímans rás og eru enn að koma. Kandamönnum hefur aldrei staðið neitt annað til boða en fjölmenning og strax snemma á síðustu öld var farið að tala um Kanada sem mósaík þjóða og menningarheima. Í Kanada hefur verið borin virðing fyrir menningu innflytjenda og hún ræktuð, ólíkt því sem vill vera í Bandaríkjunum. Þetta hafa Íslendingar upplifað.
En þessi saga er þó ekki bara glans. Á sýningunni í safninu er líka rifjuð upp meðferðin á frumbyggjum Kanada. Þeir eru geysifjölmennir á svæðinu í kringum Winnipeg. Þarna er margt skelfilegt, eins og hvernig börn voru á löngu tímabili tekin frá foreldrum sínum og sett í sérstaka skóla, þau voru fjarlægð frá foreldrum sínum og skyldu aðlagast kanadískri menningu. Með þessu voru margar barnssálir eyðilagðar og fjölskyldum splundrað. Síðustu ár hefur verið mikið uppgjör vegna þessa í Kanada.
Það má svo nefna að tvö íslensk fyrirtæki koma við sögu í Mannréttindasafninu. Gagarín hannaði hluta af sýningunni en á henni getur meðal annars að líta fót frá Össuri – jú, það tengist mannréttindum líka.
Maður kemur hugsi af þessu safni, hrærður og ánægður að svona skuli vera til. Og svo hugsar maður hvað margir hefðu gott af því að fara þarna í gegn.
