Eitt af því sem fór með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur voru sífelld upphlaup í flokki Vinstri grænna. Þau enduðu með því að fjórir þingmenn létu sig hverfa úr flokknum. Af þessu voru eilífar fréttir á síðasta kjörtímabili. Jóhanna talaði eitt sinn um að erfitt væri að smala köttum – þau orð urðu fleyg.
Einhvern veginn hélt maður að meiri friður myndi ríkja um ríkisstjórnina sem tók við í fyrra. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru vanir að vinna saman. Þetta hafa kannski ekki verið stórkostlegar ríkisstjórnir, en yfirleitt hefur verið frekar rólegt í ríkisstjórnum í tíð þessara flokka.
En svo er ekki nú. Ríkisstjórnarsamstarfið einkennist af stanslausum upphlaupum, stjórnin virkar ósamstæð og það er eins og hún láti bara reka. Í stað þess að skapa frið í samfélaginu er hvað eftir annað efnt til átaka – oft í algjöru tilgangsleysi. Maður hefði haldið að stjórnarliðar hefðu lært lexíu af því að fylgjast með Jóhönnustjórninni, en nei. Sumt af þessu hlýtur reyndar að skrifast á reynsluleysi.
SUS-arar álykta og vilja að ríkisstjórnarsamstarfinu sé slitið; framsóknarþingmenn eru í uppreisn gegn fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það eru stanslaus átök um heilbrigðiskerfið og Ríkisútvarpið – að maður tali ekki um flutning stofnana út á land sem virðist afar vanhugsaður bæði í tilviki Fiskistofu og Barnaverndarstofu. Stjórnin hefur fengið það orð á sig að hún sé höll undir sérhagsmuni. Einungis 39 prósent kjósenda styðja hana samkvæmt nýjustu Gallupkönnun.
Á sama tíma er ekki mikið um góðar eða uppbyggilegar fréttir frá stjórnarheimilinu. Fjárlögin snúast um aðhald, niðurskurður hjá sérstökum saksóknara vekur óánægju meðan ríkissaksóknari segist ekki geta sofið vegna ókláraðra mála. Það er ófriðlegt á vinnumarkaði og mikið talað um að Ísland sé láglaunaland. Og fylgi ríkisstjórnarinnar er komið á svipað ról og var í stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms.
Þegar upphæð skuldaleiðréttingar kemur fram í byrjun vetrar gæti það vakið góðar kenndir í garð ríkisstjórnarinnar hjá sumum – en þetta er og heldur áfram að vera umdeild aðgerð.