Fyrir nokkrum árum var Grænland mjög í tísku. Menn féllu unnvörpum fyrir hástemmdu tali um að mikið ríkidæmi væri framundan á Grænlandi vegna olíu og málma. Stórþjóðir og stórfyrirtæki voru í startholunum að taka upp náið samband við Grænland.
Þetta virðist að miklu leyti hafa verið tálsýn. Olíuborun hefur verið hætt og námavinnsla hefur ekki farið í gang – sumpart vegna umhverfissjónarmiða en líka vegna þess að áhugi reyndist minni en ætlað var. Meðal þess sem stendur til að vinna úr jörð á Grænlandi er úran.
Umræðan smitaðist yfir til Íslands og var rætt um að Ísland væri á mjög góðum stað til að þjónusta þessa starfsemi á Grænlandi – semsagt að við hér á Íslandi myndum hagnast líka.
Og reyndar er það svo að olíudraumar okkar Íslendinga virðast fjarskalega fjarlægir nú þegar olíuverð er lágt og mikið framboð af jarðgasi hefur breytt orkumarkaðnum í heiminum.
En í Grænlandi ríkir stjórnmálakreppa, pólitísk spillingarmál skekja þetta fámenna en dreifða samfélag. Nú lætur af embætti formaður landsstjórnarinnar, Aleqa Hammond, en hún hefur verið mikill talsmaður þess að Grænland verði sjálfstætt. Kosningar hafa verið boðaðar 28. nóvember og er talið líklegast að taki við formaður vinstri flokksins Inuit Ataqatigiit, Sara Olsvig, sem hefur verið á móti vinnslu úrans. Hugsanlegt er talið að flokkurinn breyti ákvörðun um að leyfa úranvinnslu.