fbpx
Sunnudagur 20.júlí 2025
Eyjan

Í alvöru – til varnar MS

Egill Helgason
Sunnudaginn 12. október 2014 11:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er grein sem er deilt víða á netinu, þarna koma fram athyglisverð sjónarmið – höfundurinn, Snorri Sigurðsson, reynir að verja fyrirkomulag mjólkurframleiðslu og -sölu á Íslandi með rökum. Greinin er nokkuð málefnaleg, í raun miklu betri en það sem hefur heyrst frá forsvarsmönnum MS og afurðastöðva hér heima, þeir hafa átt miklum vandræðum með að skýra sín sjónarmið.

Það væri hollt að sjá lesendur takast á við grein Snorra með rökum.

Snorri vinnur við landbúnað í Danmörku, en áður var hann hjá Landsambandi kúabænda, segir á Facebook síðu hans.

Í alvöru?

 

Eftir alla múgæsinguna í kringum “einokunarrisann“ MS hef ég verið mjög hugsi um hvað í rauninni er í gangi á Íslandi. Að gefnu tilefni er nú rétt að taka fram að ef starfsmenn MS hafa gert eitthvað ólöglegt, þá er auðvitað dagljóst að þeir verða að taka pokann sinn og axla ábyrgð – það kemur í ljós síðar. Afhverju hjóla „alltaf“ allir í alla og keyra upp mál, löngu áður en þau eru útkljáð? Hvað drífur svona umræðu áfram? Ég held að það sé uppsöfnuð þörf fyrir útrás, frekar en að fólkinu í landinu sé svona óskaplega annt um einhvern mann sem fleytir rjómann með því að framleiða fetaosta

 

.
Enginn spyr afhverju hann, með fyrirtæki í einkaeigu, vilji fá mjólkina á sama verði og því sem bændurnir selji hana á milli sinna fyrirtækja? Enginn spyr augljósra spurninga eins og afhverju hann kaupi ekki mjólk beint af bændum, en vilji frekar kaupa mjólkina af MS? Enginn spyr hvers virði það sé að sjá um rekstur mjólkurbíla og söfnunar á mjólk, gæðavottun, eftirlit, lagerstjórnun og það sem etv. mestu skipti – að vera með kaupskildu á mjólk af kúabændum? Enginn spyr hvað sé eðlilegt að borga aukalega fyrir það að geta bara keypt mjólk þegar það henti og framleitt vörur sem einungis eru í hæsta framlegðarhópi en sleppa hinni samfélagslegu ábyrgð að framleiða einnig vörur sem ekki skila miklu í kassann? Í alvöru, afhverju spyr enginn að þessu? Tilfellið er að með því að kaupa mjólkina af MS fá minni fyrirtækin mjólkina til sín með ódýrustum hætti, ég tala nú ekki um ef þau ofan í kaupið sleppa við að taka þátt í bæði kostnaði við allt sem hér að framan greinir og geta, í skjóli opinberrar verðlagningar á ákveðnum vörum, skotist inn á markaðinn með framlegðarháar vörur sem ekki eru verðlagðar opinberlega. Etv. eru mistök að verðleggja ekki fleiri vörur opinberlega – í alvöru!
En að „risanum“ MS, með hvaða hætti hefur staða þessa fyrirtækis bitnað á neytendum? Flestir vita að t.d. drykkjarmjólk á Íslandi er alls ekki dýrari en t.d. í nágrannalöndunum svo vandséð er að sjá að þar hafi neytendur tapað stórkostlega á skipulaginu. Vöruúrval mjólkurvara er með því besta sem gerist en þá segir allt í einu forstjóri Haga að það ætti nú að draga úr úrvalinu og fækka vöruliðum – í alvöru? Varla er það til hagsbóta fyrir neytendur?
Mjólkurvörur eru selda á nánast sama verði til allra smásöluaðila svo neytendur eiga að geta gengið að því sem vísu að fá vörurnar sínar á sama verði óháð því hvort keypt er í Reykjavík, Varmahlíð eða Kópaskeri – varla er það slæmt fyrir neytendur? Það má vera að það fari í taugarnar á forsvarsmönnum stórverslana á Íslandi að geta ekki fengið mikla afslætti og langt umfram þá sem eru litlir á markaðinum, en þetta kerfi tryggir jafna stöðu allra. Mig grunar reyndar að það sé einmitt þessi staðreynd, að MS er nógu stórt fyrirtæki að geta spyrnt við fótum yfirgangi stórverslana sem fari mest í taugarnar á þeim sem róa undir umræðunni. Ef við myndum gefa okkur að þetta væri ekki svona, þ.e. MS væri ekki sterkur „leikmaður“ á markaðinum heldur væri slagur um mjólkina og afurðirnar, hvarflar að einhverjum að það myndi skila sér í hærra verði til bænda og bættum hag þeirra – í alvöru?
Við vitum líklega flest að það fást ostar erlendis sem eru ódýrari en á Íslandi en í hverju felst það? Nú bý ég í Danmörku og hrærist í þarlendu landbúnaðarkerfi og þekki þetta all vel. Í mínum huga er tvær skýringar. Sú fyrri eru styrkir. Hvarflar t.d. að einhverjum, að ef ekki væri fyrir landbúnaðarstyrki í öðrum löndum, þá fengjust samt miklu ódýrari ostar fluttir til landsins – í alvöru? Það má svo velta því fyrir sér almennt hvort það sé í raun hægt að bera saman vörurverð á milli landa án þess að horfa til stuðningsins á vörunum. Það má vera að skammtímahagsmunir séu fólgnir í því að flytja inn matvörur með stuðningi annarra landa, en það getur ekki verið framtíðarlausn í rekstri lands – þ.e. að stóla á ríkisstuðning frá öðrum löndum. Þá er líklega betra að ganga í raðir Fylkisflokksins og snúa heim til Noregs á ný. Hin skýringin felst einfaldlega í þeirri staðreynd að risinn MS er enginn risi, þetta er smáfyrirtæki ef við horfum til nágrannalanda okkar – með um 1% af því mjólkurmagni sem t.d. stærsta fyrirtækið í Danmörku og Svíþjóð er með. Þar af leiðir að hagkvæmnin í vinnslu getur aldrei nokkrun tímann orðið eins mikil og því er ekki mögulegt fyrir MS að framleiða mjólkurvörur með jafn hagkvæmum hætti og er gert í nágrannalöndum okkar – í alvöru!
En hvernig er þetta í nágrannalöndum okkar? Jú þar er vissulega samkeppni um mjólk bændanna upp að ákveðnu marki og þekki ég það af eigin raun að þrátt fyrir stór kúabú og stórar afurðastöðvar, þá er nú reksturinn ekki sérlega glæsilegur svo lausnin er nú sjáanlega ekki fólgin í því að slást á þessu stigi framleiðslunnar. Birtingarmynd samkeppninnar um mjólk bændanna kemur einna mest fram í breytilegum flutningskostnaði hennar (þetta sem enginn vill spyrja um) og eftir hagkvæmni flutningaleiða. Þar komum við að mikilvægu atriði hér á landi, hvarflar að einhverjum að það yrði mikil samkeppni um að sækja mjólkina austur á firði eða í Ísafjarðardjúp? Í alvöru? Held að ansi margir sem tala nú illa um uppbyggingu kerfisins geri sér litla eða enga grein fyrir því hvaða áhrif það hefði á uppbyggingu mjólkurframleiðslunnar hér á landi að ef kúabændur væru skikkaðir til þess að fara í samkeppni sín á milli.
Það er hverjum manni hollt að rifja reglulega upp að það er ekkert sjálfgefið að reka eitt stykki land með 326 þúsund íbúa, t.d. eru 323 þúsund íbúar í þorpinu Árósum í Danmörku sem þó hvorki þarf að reka landhelgisgæslu, ráðuneyti, sendiráð erlendis nú eða sitt eigið landbúnaðarkerfi til þess að taka nærtækt dæmi. Ísland er afar stórt land með fáa íbúa og það kostar einfaldlega að reka landið og hvað við ákveðum að framleiða sjálf er val á hverjum tíma. Það er val að vera með ótal sendiráð með íslensku starfsfólki – við gætum líka rekið þetta með samningum við erlenda aðila – flotið með öðrum. Það talar samt enginn um að vera með niðurgreidda sendirráðsþjónustu. Það er val að vera með eigin landhelgisgæslu en við gætum vafalítið samið um að fá þessa þjónustu keypta frá öðrum löndum, Það talar samt enginn um að vera með niðurgreidda landhelgisgæslu. Það er val að vera með rekstur á mörgum sjúkrahúsum og að geta veitt öfluga heilbrigðisþjónustu. Við erum í dag með samninga við mörg sjúkrahús erlendis, þar sem sérstök tæknilega erfið vandamál eru leyst – annað er gert á Íslandi. Við tölum samt ekki um niðurgreidda heilbrigðisþjónustu.
Að sama skapi hvarflar ekki að okkur að flytja inn erlent starfsfólk í heilbrigðisgeiranum og borga þeim lág laun fyrir sömu vinnu og leyst er hér á landi, ekki frekar en að flytja inn kennara eða aðra opinbera starfsmenn sem vafalítið mætti finna í löndum sem greiða lægri laun er gert er hér á landi. Þetta hvarflar þó að fólki þegar talið berst að framleiðslu matvæla! Þá er allt í einu í lagi að flytja inn vörur frá bændum sem fá lúsarlaun, kjöt eða mjólk frá skepnum sem búa við miklu lakari aðbúnað en hér á landi osfrv. – Í alvöru?
Það er val þjóðar að vera með landbúnað og landbúnaðarframleiðslu, sína eigin matvælaframleiðslu. Það er líka val að hafa eitt sterkt markaðsráðandi fyrirtæki í mjólkurvinnslu og ég sé bara ekki að það væri nokkurntímann til hagsbóta fyrir neytendur ef afurðastöðvar fá ekki að starfa saman – vel að merkja undir opinberu eftirliti. Það er þetta með eftirlitið, Verðlagsnefnd (þar sem eru fulltrúar neytenda frá bæði ASÍ og BSRB), sem margir virðast horfa fram hjá í þessari umræðu. MS hefur, einmitt af því að það hefur markaðsráðandi stöðu, heyrt undir hina opinberu Verðlagsnefnd sem ákvarðar lágmarksverð til bæði kúabænda og um heildsöluverð á sumum mjólkurvörum. Hafa ákvarðanir nefndarinnar verið afgreiddar með mótatkvæðum? Hafa fulltrúar fólksins í landinu verið hrópandi ósammála hinum í nefndinni, ekki hef ég amk. frétt af því – í alvöru! En ég hef reyndar jafn mikið saknað þess í umræðunni um MS, hvar þessir fulltrúar neytenda hafa haldið sig.
Að síðustu þetta. Stærsti rekstraraðili verslana á Íslandi, Hagar, skila milljarða hagnaði á ári, svo þar virðist vera hægt að greiða upp gamlar skuldir til samfélagsins sem er hið besta mál, en auðvitað er það svo að viðskiptavinir fyrirtækisins borga brúsann. Fyrirtækið fer mikinn í því að reyna að brjóta niður íslenskan landbúnað og vill bara óheftan og tollalausan innflutning á mjólkur- og kjötvörum. Hverju á það að skila til neytenda – í alvöru? Aðrar landbúnaðarvörur koma hingað til lands meira eða minna án tolla og vörugjalda. Ég get ekki séð að það hafi skilað sér í umtalsvert lægra vöruverði og því má velta því fyrir sér afhverju forsvarsmenn verslunar á Íslandi telji að haftalaus innflutningur á kjöti og mjólkurvörum muni hins vegar allt í einu skila sér beint í vasann hjá neytendum? Hverskonar galdrar eru það – í alvöru?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund útskýrir hvers vegna hún tók ekki þátt í málþófinu

Halla Hrund útskýrir hvers vegna hún tók ekki þátt í málþófinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við