Sagt er frá því í fjölmiðlum að Vaclav Havel, fyrrverandi forseti Tékklands sé látinn.
Havel var af borgaraættum – sem þótti ekki gott í Tékkóslóvakíu kommmúnismans. Hann varð rithöfundur, leikskáld og andófsmaður. Sat í fangelsum. Í flauelsbyltingunni steig hann fram sem andlegur leiðtogi þjóðar sinnar. Vegna baráttu gegn kúguninni var hann sjálfsagður í það hlutverk.
Hann var ódeigur baráttumaður fyrir frelsi og mannréttindum.
Ég var farinn að lesa verk eftir Havel strax á unglingsárum og hef haft mikið dálæti á honum síðan þá. Hann er dæmi um rithöfund sem með hugrekki sínu getur breytt samfélagi.
Ég hitti hann aldrei, ekki beinlínis, en þó átti ég lítinn fund með honum. Hann var svona.
Ég var að ganga upp Bankastrætið, gaut augunum inn á veitingahús sem þar er, horfði þá í augun á manni sem ég kannaðist við, hann horfði á móti – það var Vaclav Havel.
Þannig horfðumst við semsagt í augu.