Louis Saha, fyrrum leikmaður Manchester United, hvetur félagið til að krækja aftur í Paul Pogba í janúar.
Pogba má spila fótbolta aftur í mars eftir að bann hans í kjölfar þess að hafa fallið á lyfjaprófi var stytt úr fjórum árum í 18 mánuði. Var hann á mála hjá Juventus þegar hann var dæmdur í bannið en þeim samningi hefur verið rift.
„Þegar ég spái í því fylgir því fleira jákvætt en neikvætt við að fá Pogba. Manchester United ætti að hafa áhuga á honum, sem og öll stóru liðin í ensku úrvalsdeildinni. Þannig sé ég það,“ segir samlandi Pogba, Saha.
Pogba var hjá United frá 2016-2022. Það verður spennandi að sjá við hvaða félag hann semur, en hann hefur töluvert verið orðaður við lið utan Evrópu.