Sænska úrvalsdeildarfélagið BK Häcken FF hefur keypt landsliðsmarkvörð okkar Valsara Fanneyju Ingu Birkisdóttur. Fanney sem er 19 ára gömul er uppalin í Val.
Óhætt er að segja að Fanney Inga hafi slegið í gegn á síðasta tímabili þegar hún varð aðalmarkvörður meistaraflokks kvenna og í kjölfarið festi sig í sessi sem aðalmarkvörður landsliðsins. Hún átti síðan frábært tímabil í ár sem endaði með því að draumur hennar um að leika erlendis er að rætast.
„Fanney Inga er geggjaður markvörður og það gleður okkur mjög að hún sé nú á leið í topplið í Svíþjóð. Fanney er gott dæmi um stelpu sem hefur lagt ótrúlega mikið á sig til þess að ná markmiðum sínum og það hefur hún gert hér hjá okkur í Val,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.
Björn segir kaupverðið trúnaðarmál en ljóst sé að félagið sé að fá upphæð sem ekki hafi sést í íslenska kvennaboltanum til þessa.
„Og Fanney Inga stendur alveg undir því enda teljum við að hún eigi eftir að ná langt í framtíðinni. Við óskum henni alls hins besta og getum ekki beðið eftir því að fylgjast með henni á stóra sviðinu.“