Það var ekkert sérstaklega mikið fjör í þeim sex leikjum sem voru í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Tveimur þeirra lauk með markalausu jafntefli.
Leik Manchester City og Inter var beðið með eftirvæntingu en lítið var til að gleðja fólk þar, leiknum lauk með markalausu jafntefli. City varð fyrir áfalli í leiknum þegar Kevin de Bruyne fór meiddur af velli.
Það stefndi allt í markalaust jafntefli hjá PSG og Girona en Nuno Meneds hlóð í sigurmark fyrir Frakkana í uppbótartíma.
Dortmund vann fínan útisigur á Club Brugge þar sem varamaðurinn Jamie Gittens skoraði bæði mörkin. Gittens er tvítugur Englendingur sem kom frá Manchester City fyrir fjórum árum.
Fyrstu umferð í nýrri deildarkeppni Meistaradeildarinnar lýkur á morgun með sex leikjum.
Úrslitin:
Bologna 0 – 0 Shaktar Donetsk
Sparta Prag 3 – 0 RB Salzburg
Manchester City 0 – 0 Inter
Celtic 5 – 1 Slovan Bratislava
Club Brugge 0 – 2 Dortmund
PSG 1 – 0 Girona