
Það var mikið fréttafár í kringum leik HK og KR sem átti að fara fram í Kórnum 8. ágúst síðastliðinn. Leikurinn gat ekki farið fram vegna brotins marks og honum því frestað. KR-ingar kvörtuðu sáran yfir þessari niðurstöðu og vildu fá dæmdan 3-0 sigur, en fengu að lokum ekki.
Leikurinn fór svo loks fram í síðustu viku og vann HK 3-2 í þessum fallbaráttuslag. KR hafði áður áfrýjað niðurstöðunni um að leikurinn ætti að fara fram og vildu fá dæmdan sigur vegna ófullnægjandi vallarastæðna. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vísaði málinu frá en KR áfrýjaði. Áfrýjunardómstóll hafnaði síðar kröfu KR.
Bjarni Helgason, íþróttablaðamaðurinn geðþekki á Morgunblaðinu, skrifar áhugaverðan pistil í blað dagsins um þetta mikla hitamál í Kórnum.
„Mikið grín var gert að KR-ingum fyrir að fara með málið alla leið, en af hverju samt? Að mínu mati átti kærugleði Vesturbæinga fullan rétt á sér,“ skrifar Bjarni meðal annars.
„Sagan úr Vesturbænum er sú að HK-ingar hafi vitað af því frá því í hádeginu á fimmtudeginum að markið væri brotið. Hvort það sé allt saman satt og rétt getum við látið liggja á milli hluta en félagið var ekki að undirbúa Old Boys-mót í Kórnum heldur leik í efstu deild.“
Bjarni setur spurningamerki við fordæmið sem málið gæti gefið.
„Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort önnur félög taki ekki upp á því að gata mörkin á heimavöllum sínum á leikdegi, í komandi framtíð, sérstaklega ef það vantar þrjá til fjóra lykilmenn í liðið eða jafnvel fleiri.“