
Roberto Calenda, umboðsmaður Victor Osimhen, framherja Napoli, hefur gefið sterklega í skyn að framherjinn sé ekki á leið til Sádi-Arabíu.
Nígeríumaðurinn hefur verið sterklega orðaður burt frá Napoli í sumar, til að mynda við Chelsea en nú síðast Sádi-Arabíu. Napoli virðist klárt í að losa leikmanninn.
„Victor er ekki pakki sem þú getur sent langt í burtu til að búa til pláss fyrir aðra,“ segir Calenda ómyrkur í máli.
„Victor á enn mikið verk óunnið í Evrópu. Hann er leikmaður Napoli og með samning sem var endurnýjaður fyrir ekki svo löngu.“
Osimhen var stórkostlegur fyrir Napoli sem vann sinn fyrsta Ítalíumeistaratitil í 30 ár vorið 2023.
„Hann skrifaði söguna hér og þegar það hafa komið stór tilboð í hann höfum við alltaf virt ákvarðanir félagsins,“ segir Calenda.
„Victor var kosinn knattspyrnumaður Afríku og varð áttundi í Ballon d’Or. Það ber að virða.“