

Real Madrid hlustaði ekki á goðsögn félagsins, Guti, sem mælti með því að félagið myndi semja við bæði Joao Felix og Jadon Sancho á sínum tíma.
Guti segir sjálfur frá þessu en hann fylgdist með þessum fyrrum undrabörnum er þeir voru á unglingsárunum – hann var þá þjálfari akademíu Real.
Þessi fyrrum spænski landsliðsmaður mælti með því að Real myndi kaupa báða leikmennina en stjórn félagsins virtist ekki hafa áhuga.
Sancho er í dag leikmaður Manchester United og er Felix dýrasti leikmaður í sögu Atletico Madrid en mun spila fyrir Chelsea í vetur.
,,Ég fylgdist með Joao Felix í unglingaliðunum og þetta var demantur, það var ótrúlegt að sjá hann spila gegn öðrum,“ sagði Guti.
,,Hann var miklu betri en allir aðrir, við þurftum að fá hann. Ég sagði Real Madrid það, ég var að þjálfa unglingalið Real á þessum tíma.“
,,Að lokum þá er þessi ákvörðun í höndum félagsins og þeir gera það sem þeir vilja. Ég sá líka leikmenn eins og Jadon Sancho á yngri árum og sagði félaginu að það væri þess virði að semja við hann.“