
Jóhann, sem er þaulreyndur landsliðsmaður Íslands, kemur frá Burnley í ensku B-deildinni. Hann yfirgaf félagið í vor en endursamdi til eins árs í sumar og ákvað að taka slaginn með liðinu í B-deildinni eftir fall úr úrvalsdeildinni. Nú tekur hann hins vegar aðra U-beygju og heldur til Sádí, þangað sem hann flaug í gær til að ganga frá smáatriðum.
Mikill uppgangur hefur verið í fótboltanum í Sádi-Arabíu undanfarin ár og eru félög þar í landi gjörn á að borga ansi góð laun. Jóhann verður ekki eini Íslendingurinn þar í landi á komandi leiktíð, en Sara Björk Gunnarsdóttir skrifaði undir hjá Al Qadsiah á dögunum.

Hjá Al-Orobah bíða menn spenntir eftir komandi leiktíð í efstu deild, en liðið hafnaði í öðru sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð og fór þannig upp. Það er ekkert smá verkefni sem bíður liðsins í fyrsta leik, en þar mætir liðið stórliði Al-Ahli. Það má einmitt búast við að Jóhann verði löglegur í þeim leik. Með Al-Ahli leika menn á borð við Riyad Mahrez, Roberto Firmino, Gabri Veiga og Edouard Mendy. Þá spilar liðið heimaleiki sína á hinum glæsilega King Abdullah Sports City leikvanginum sem tekur yfir 60 þúsun manns í sæti.
Leikvangur Al-Orobah er öllu minni, en hann tekur 7 þúsund manns í sæti. Liðið spilar þó ekki sinn fyrsta heimaleik fyrr en í fjórðu umferð gegn Al-Fateh. Al-Orubah er frá borginni Sakaka, sem staðsett er norðvestur-hluta Sádí. Þaðan eru næstum 10 klukkustundir til höfuðborgarinnar Ríad og er Sakaka þá staðsett rétt norðan af Nafud-eyðimörkinni, sem er yfir 100 þúsund ferkílómetrar að stærð. Hitastig í borginni fer vel yfir 40 gráður á sumrin. Í Sakaka búa um 330 þúsund manns og er borgin meðal annars þekkt fyrir merkilegar fornleifar.

Al-Orobah var stofnað árið 1975. Besti árangur liðsins var að vinna næstefstu deild árið 2013 og í kjölfarið lék liðið í efstu deild í tvö tímabil. Þá féll liðið hins vegar og 2019 féll það alla leið niður í C-deildina. Þar dvaldi liðið í tvö tímabil, en það sigraði C-deildina árið 2021. Við tóku tvö ár þar sem liðið hafnaði um miðja B-deildina en í fyrra endaði liðið í öðru sæti og flaug upp.
Þjálfari Al-Orobah er Portúgalinn Alvaro Pacheco. Hann tók við í sumar af Bosníumanninum Rusmir Cviko. Félagið skiptir gríðarlega oft um þjálfara, en Pacheco er sá tíundi á um fimm árum. Kappinn stýrði síðast Vasco da Gama í Brasilíu um stutt skeið, en hann hefur einnig starfað hjá nokkrum félögum í heimalandinu. Þar á meðal er Vitoria, þar sem hann starfaði á síðustu leiktíð. Hann kom liðinu í Sambandsdeild Evrópu en í vor fór hann í viðræður við félag í Brasilíu, þar sem hann að lokum fékk ekki starfið. Forseti Vitoria trylltist og rak Pacheco fyrir þetta ferðalag sitt. Þjálfarinn átti þarna eftir að kæra forsetann fyrir ærumeiðingar í kjölfar brottrekstursins.
Pacheco hefur verið nokkuð duglegur við að sækja leikmenn í sumar og nú bætist Jóhann í þann hóp. Það má gera ráð fyrir því að markmið Al-Orobah á leiktíðinni verði að bjarga sér frá falli. Ef marka má veðbanka er liðið eitt af þeim líklegri til að enda í fallsætunum.